Í dag, 16. október2020, er alþjóðlegur dagur málþroskaröskunar (DLD). Fólk með málþroskaröskun (Developmental Language Disorder – DLD) á í erfiðleikum með að tileinka sér tungumálið og lendir í vandræðum með málskilning og máltjáningu, stundum annað hvort en oftar bæði. Rannsóknir sýna að um 1 af hverjum 14 manneskjum sé með málþroskaröskun (DLD) og að í hverjum einasta grunnskólabekk séu um 2 börn með þessa greiningu. Því miður er þessi vandi lítt þekktur og oft er það svo að vandinn er ógreindur um langt skeið og börnin fá ekki þá hjálp sem þau þurfa.
Ég starfa meðal annars sem talmeinafræðingur á Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) og hef því mikið skoðað tengsl málþroskaröskunar (DLD) og annarra greininga. Rannsóknir hafa sýnt að að mjög algengt sé að slakur málþroski og hegðunar- og tilfinningalegur vandi (HTV) fylgist að en ein rannsókn sýndi að 81% barna með (HTV) reyndust með málþroska undir meðalgetu. Enn fremur kom í ljós í einni athugun að málþroski hafði ekki verið metinn hjá þremur af hverjum fjórum börnum með slíkan vanda. Í ljósi þess hversu hátt hlutfall barna sem greinast með HTV af einhverju tagi er undarlegt að málþroski sé ekki metinn hjá fleiri börnum í þannig greiningarferli en raun ber vitni. Þessar rannsóknir eru vissulega ekki íslenskar og forvitnilegt væri að vita hvernig þetta hlutfall er hér á landi.
Rannsóknir hafa nefnilega líka sýnt að slakur málþroski er stundum undirrót erfiðrar hegðunar. Samantektarrannsókn frá árinu 2018 sýndi að börn með málþroskaröskun (DLD) sýndu meiri hegðunarerfiðleika en önnur börn og því eldri sem þau voru, þeim mun erfiðari varð hegðunin. Stundum hafa börn engin önnur verkfæri en þau að grípa til erfiðrar hegðunar af því þau skilja ekki hvað er á seyði í kennslustofunni eða í samskiptum við aðra. Önnur börn draga sig í hlé og láta ekkert á sér bera af sömu ástæðu. Sumir sérfræðingar vilja meina að það eigi ekki að greina barn með ADHD eða svipuð frávik nema að undangengnu málþroskamati. Einnig er það stundum nefnt sem ástæða þess að lyfjameðferð gagnast ekki sem skyldi að aðrar – og þá ómeðhöndlaðar ástæður séu undirliggjandi. En frekari rannsókna er þörf og ekki allir sammála þessu sjónarmiði.
Málþroskaröskun (DLD) hefur líka mikil áhrif á andlega líðan, félagsleg samskipti og vináttu. Kvíði er til dæmis mun algengari á meðal barna með málþroskaröskun. Eðlilegur málþroski er grunnurinn að því að börn og fullorðnir geti átt góð, gagnkvæm og skilvirk samskipti við annað fólk, bæði jafnaldra og aðra. Ef þau skilja ekki nema hluta af því sem sagt er við þau er ekki skrýtið að samskipti einkennist af misskilningi sem geta svo valdið miklum árekstrum og jafnvel félagslegri einangrun.
Þess vegna er svo mikilvægt að fylgjast með börnum og grípa inn í sem allra fyrst. Foreldrar og kennarar á öllum skólastigum eru þar í lykilstöðu. Ef þú, sem foreldri eða kennari, hefur áhyggjur af málþroska barns skaltu leita aðstoðar í gegnum heilsugæslu eða þjónustumiðstöð/skólaþjónustu þíns bæjarfélags. Því miður er þjónusta við börn í þessum hópi af mjög skornum skammti af því kerfið heldur ekki nógu vel utan um þau. Málefli - hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með málþroskaröskun vilja styðja við þennan hóp og leggja sitt af mörkum til þess að þjónusta við þennan hóp megi batna.
Málþroskaröskun (DLD) er nefnilega ekki þess eðlis að hana sé hægt að lækna með töfralausnum eða með því að horfa fram hjá henni. Börn og fullorðnir með þessa greiningu þurfa skilning og stuðning svo þau megi ná markmiðum sínum í lífinu og blómstra eins og þau best geta.