Stjórnarskrárgjafinn – og þú sjálfur

Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra, segir að samkvæmt stjórnarskránni sé það aðeins Alþingi Íslendinga sem hafi rétt til að breyta henni.

Auglýsing

Mikið er nú rætt um stjórnarskrá Íslands og nauðsyn þess að þar séu umtalsverðar breytingar gerðar. Í þeirri umræðu kemur gömlum Alþingismanni sumt skringilega fyrir sjónir. Ekki hvað síst umræðan um „stjórnarskrárgjafann“. Hver hann sé og hvernig gjafir hann gefur.

„Stjórnarskrárgjafinn“

Kristján 9, sem var konungur Íslands og Danmerkur, er sýndur á styttu, sem stendur frammi fyrir skrifstofum forsætisráðherra réttandi fram samanvafðan pappírsvöndul í hendi líkt og væri hann að færa einhverjum eitthvað. Jafnaldrar mínir lærðu það í barnaskóla, að það, sem hann var þarna að afhenda og minnismerkið er til merkis um, hafi verið íslenska stjórnarskráin. Stjórnarskráin, sem Kristján 9. afhenti íslensku þjóðinni og er að stofni til sú hin sama og núna. Á langri ævi hefi ég ekki heyrt talað um neinn annan, sem gefið hefði þjóðinni stjórnarskrá. Eru menn þá að ræða um hinn sáluga kóng, Kristján níunda, þegar þeir ræða um að fá nýja stjórnarskrá frá stjórnarskrárgjafanum? Langt í frá er það viðfangsefnið – enda stjórnarskrárgjafinn Kristján kóngur, löngu látinn. Með „stjórnarskrárgjafanum“ er fólk bara að ræða um einhvern þann, sem á að fjalla um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og tryggja þjóðinni, að hún fái nýja og nútímalegri stjórnarskrá. 

Hver er „gjafarinn“?

Stjórnarskrá lýðveldisins, sem menn vilja jú virða öðrum lögum fremur, ákveður það með skýrum og skilmerkilegum hætti hverjir hafa heimild til þess að breyta stjórnarskránni – semja nýja eða breyta. Stjórnarskráin tekur sjálf af öll tvímæli um það. Samkvæmt stjórnarskránni er það aðeins Alþingi Íslendinga, sem hefur þann rétt – og þær skyldur. Enginn annar „stjórnarskrárgjafi“ er til! Stjórnarskráin gerir hreint ekki ráð fyrir neinum öðrum slíkum! Sá eini, sem breytt getur – og breyta á – er Alþingi Íslendinga. Fólkið í landinu og samtök fólks í landinu geta vissulega sett fram óskir og samþykkt erindi, en Alþingi eitt getur sinnt tilmælunum. Alþingi, sem þjóðin sjálf kýs. Alþingi er kallað „löggjafinn“. Alþingi er líka „stjórnarskrárgjafinn“. Svo mælir íslenska stjórnarskráin skýrt fyrir um. Sá gjafari er ekki einhver utan Alþingis hvað þá heldur löngu látinn kóngur heldur fólkið, sem þú, lesandi góður, og ég veljum til þeirra verka að setja lög.

Málamiðlanir

Það er innsta eðli allrar stjórnmálastarfsemi í lýðræðisríki að reyna að leita lausnar á vandamálum. Sú lausn getur aldrei orðið önnur en málamiðlun af einhverju tagi milli ólíkra sjónarmiða. Það er eðli lýðræðisins að leita lausnar með málamiðlun milli einstakra skoðanahópa. Annað – að einhver einn ráði allri för – er einræði, ekki lýðræði. 

Auglýsing
Nú liggur ljóst fyrir, að málamiðlun á vettvangi „stjórnarskrárgjafans“ virðist ekki vilja svara kröfum um vernd gegn loftslagsvá, um ótvíræða þjóðareign á auðlindum og um að markaðslausnum skuli beitt fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum. Þar fæst Alþingi ekki til þess að beita sömu markaðslögmálum og þeir beita sjálfir, sem afnotaréttinn hafa fengið þegar þeir leigja starfsbræðrum sínum aðgang að auðlindinni, sem þeir nýta sjálfir, en borga eigandanum fyrir brot af því verði, sem þeir heimta að aðrir greiði sér. Þar er ekki heldur sömu markaðslögmálum beitt eins og ríkja ef þeir væru sjálfir að leigja húseignir sínar, skip sín og veiðarfæri, bílana sína, íbúðarhús sín eða aðrar eignir öðrum og óviðkomandi eða ef þeir sjálfir væru að leigja slíkar eignir af eigandanum. Þá má heldur ekki ætlast til þess, að þeir, sem hafa rakað saman milljarðagróða vegna afnota af auðlindum, sem þjóðin á, taki sinn þátt í því að greiða götu þessarar sömu þjóðar í harðræðiskreppu þar sem slegin eru lán fyrir lífskjörum en þeir sem efnast hafa mest á afnotum af sameiginlegum auðlindum eru látnir í friði með sína fjármuni. Taka alls ekki sanngjarnan þátt í lífskjarastríði venjulegs íslensks alþýðumanns og fjölskyldu hans – stríði íslenska þjóðríkisins við kreppuna. Halda bara áfram sömu iðju: Að ávaxta sjálfa sig.

Sýnið skynsemi

Tími er löngu kominn til þess, að þjóðin sýni skynsemi. Annar „stjórnarskrárgjafi“ en Alþingi Íslendinga er ekki til. Á þeim vettvangi ræðst framtíð íslensku stjórnarskrárinnar. Náist ekki sá árangur, sem þú væntir, lesandi góður, þá er einfaldast af öllu einföldu að þú gerir þér ljóst hverjir standa gegn því. Hverjir standa gegn því, að íslenska þjóðin fái óskorað eignarhald yfir auðlindum sínum? Hverjir standa gegn því, að þjóðin fái að njóta afgjalds af nýtingu þeirra auðlinda með sambærilegum hætti, og þeir, sem aðganginn fengu fyrir smáaura leigja svo þann aðgang út til starfsbræðra sinna fyrir markaðsverð? Hverjir standa gegn því, að þeir, sem úr mestu hafa að moða, ávaxta m.a. eignir sínar í skattaskjólum erlendis, taki þátt í því með ykkur hinum að rísa undir þeim miklu hörmungum, sem dynja nú yfir þessa þjóð? Hverjir eru það, sem vilja að þjóðarfjölskyldan taki erlend lán fyrir lífskjörunum fremur en að þeir, sem mestu efnin eiga, taki sinn þátt í því með öllum hinum að mæta erfiðleikum? Hverjir eru þeir, sem hafa meira að segja lækkað skatta á hæstu fjármagnstekjuhafa samtímis því, sem þjóðarfjölskyldan er látin taka lán fyrir lífskjörum? Það er hægur vandi fyrir þig að svara þessum spurningum. Svörin liggja skýr fyrir. Með því að svara þeim og bregðast svo við eins og samviska þín kýs getur þú ráðið ferðinni. Annars ekki. Annars alls ekki! Svo sáraeinfalt er málið. Stjórnarskrárgjafinn – ef einhver er – ert þú sjálfur! Hvernig notar þú það vald? Horfstu í augu við sjálfan þig! Og svaraðu svo!

Höfundur er fyrrverandi ráðherra.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar