Í síðustu viku kynnti Efling – stéttarfélag herferð til að þrýsta á um að svonefndur „launaþjófnaður“ atvinnurekenda gagnvart launafólki verði gerður refsiverður samkvæmt lögum. Þingmaður Samfylkingarinnar lýsti því í kjölfarið yfir að flokkurinn myndi ganga á eftir því í vetur að lögfest yrðu févíti gegn kjarasamningsbrotum.
Það er hárrétt hjá stéttarfélaginu og þingmanni að kjarasamningsbrot eru allt of algeng á íslenskum vinnumarkaði, hvort sem um ræðir launagreiðslur undir lágmarksviðmiðum kjarasamninga, vanefndar persónuuppbætur eða vaktir sem starfsmönnum er gert að standa án lágmarkshvíldar. Það er líka rétt að innheimta vangoldinna launa getur tekið mánuði eða ár. Í raun má segja að einna helsti fælingarmátturinn í núverandi kerfi felist í að atvinnurekendur greiði launakröfur á fyrri stigum til að komast hjá eigin málskostnaði fyrir dómstólum. Það er því fullt tilefni til að taka harðar á kjarasamningsbrotum atvinnurekenda. Hingað til hefur hins vegar ekki komið fram hvernig eigi nákvæmlega að útfæra boðaðar aðgerðir í lögum.
Það eru vissir vankantar á hugmyndinni um að refsivæða kjarasamningsbrot atvinnurekenda gegn launafólki, sem ekki má líta framhjá. Í fyrsta lagi eru ríkari kröfur til sönnunarbyrði í refsimálum heldur en í einkamálum, og því erfiðara að fá sakfellingu. Reynslan sýnir að það er nógu erfitt að fá vinnuveitanda dæmdan til að greiða bætur í einkamáli. Það verður mun erfiðara að sýna fram á sök atvinnurekanda með fullnægjandi hætti í refsimáli. Það er því hætt við því að refsiheimildir gagnvart lögaðilum í „launaþjófnaðarmálum“ verði dauður lagabókstafur. Það eru þegar dæmi um slík ákvæði í lögum sem liggja óhreyfð hjá garði, til dæmis sektarheimild í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá er ákvæði í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, sem heimilar Félagsdómi að dæma aðila til greiðslu skaðabóta, sekta og málskostnaðar, vannýtt. Það er takmarkaður fælingarmáttur fólginn í ónotuðum lagaákvæðum.
Í öðru lagi vantar að útskýra hver eigi að fara með rannsóknarvald og sektarheimildir í þessum málaflokki. Hugsanlega myndu þessar aðgerðir útheimta að komið yrði á fót nýjum deildum innan lögreglu, Vinnueftirlitsins eða Vinnumálastofnunar með tilheyrandi stofnkostnaði. Þá getur rannsókn á slíkum málum orðið bæði kostnaðarsöm og tímafrek, jafnvel enn frekar en innheimtuaðgerðir í einkaréttarlegum málum. Þetta bitnar helst á þeim sem síst skyldi, starfsmönnunum sjálfum. Í staðinn verður ekki séð að sektargreiðslur sem renni í ríkissjóð gagnist þessum einstaklingum umfram aðra.
Í þriðja lagi hvílir frumkvæðisskyldan til að hefja málarekstur áfram hjá stéttarfélögunum sjálfum, og þar með þeim einstaklingum sem brotin beinast gegn. Augljóslega verða engum lögbrjótum gerðar refsingar nema brotin séu tilkynnt með einhverjum hætti í upphafi. Eins og staða mála er í dag skiptir stéttarfélagsaðild starfsmanns höfuðmáli um það hvort atvinnurekendur eru krafðir um vangoldin laun. Annars vegar er það misjafnt eftir stéttarfélögum hversu mikla vinnu og fyrirhöfn þau leggja í rekstur slíkra mála fyrir hönd félagsmanna. Í skýrslu sem ASÍ vann árið 2019 um stöðu útlendinga á íslenskum vinnumarkaði kom fram að stéttarfélög væru misvel í stakk búin til að takast á við „launaþjófnað“ og sinna eftirliti og úrvinnslu. Hins vegar eiga þeir starfsmenn, sem einhverra hluta vegna eiga ekki aðild að stéttarfélagi, engin úrræði til að krefjast réttra efnda samkvæmt gildandi vinnulöggjöf. Þetta eru oft einstaklingar í allra viðkvæmustu hópunum í samfélaginu, innflytjendur eða hælisleitendur með lítið félagslegt bakland og takmarkaða þekkingu á innlendum vinnumarkaði. Refsiheimildir gagnast þessum starfsmönnum ekki nema þeir hafi greiða leið til að tilkynna vanefndir og krefja atvinnurekendur efnda.
Til að taka á því meini, sem stéttarfélagið kallar launaþjófnað á innlendum vinnumarkaði, þarf að gæta að framangreindum atriðum. Það þarf að tryggja að einkaréttarlegar kröfur launafólks verði ekki háðar því að atvinnurekandi verði fundinn sekur í refsimáli. Eins þarf að gæta þess að rannsókn mála verði ekki of flókin og tímafrek. Þá væri gott ef sektargreiðslur eða févíti sem sem falli til með þessum hætti gagnist stéttarfélögum eða launafólki með beinum hætti. Loks þarf að tryggja að kerfið nýtist líka þeim starfsmönnum sem ekki geta leitað á náðir nokkurs stéttarfélags og geri þeim kleift að leita réttar síns, til dæmis með gjafsóknarheimildum í vinnulaunamálum sem ekkert stéttarfélag vill reka eða miðlægum styrktarsjóði. Með þessum hætti er hægt að takast á við „launaþjófnað á vinnumarkaði“ með raunhæfum leiðum sem gagnast stéttarfélögum og launafólki.
Höfundur er lögmaður og sérfræðingur í vinnurétti.