Daði Már Kristófersson varaformaður Viðreisnar og Stefán Már Stefánsson lagaprófessor leggja til í nýlegri grein í Morgunblaðinu að Ísland freisti þess að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið til að koma á fyrirkomulagi hliðstæðu því sem tíðkast í Danmörku með bindingu við evruna. Þeir telja „ekkert því til fyrirstöðu að láta á það reyna” og að með þessari málamiðlunarleið „væri gengissveiflum gagnvart okkar stærsta viðskiptasvæði varanlega eytt“. Við þetta er ýmislegt að athuga.
- Þótt samningsbundið fastgengisfyrirkomulag hafi gengið upp í Danmörku er engan veginn augljóst að það henti íslensku hagkerfi. Hér er samsetning atvinnuvega og útflutnings allt önnur, miklu fábreyttari og óstöðugri. Ólíkt eyjunni Íslandi er Danmörk landfræðilega föst við Þýskaland og hefur átt í myntsamstarfi við þetta stærsta hagkerfi evrusvæðisins allt frá 1982, fyrst með bindingu við þýska markið og svo við evru. Þetta eru lykilatriði sem verður að hafa í huga þegar fjallað er um valkosti Íslands í samhengi við fastgengisstefnu Dana. Til að sama fyrirkomulag henti Íslendingum þyrfti hagsveiflan og framleiðniþróun hér að vera mjög í takti við ganginn á evrusvæðinu – ellegar þyrfti aðlögun í kjölfar áfalla að fara fram í gegnum vinnumarkaðinn (svo sem með atvinnuleysi og nafnlaunalækkunum).
- Daði og Stefán segja að með tvíhliða fastgengissamkomulagi Íslands við Evrópusambandið mætti sækja fyrirmynd í Peningakerfi Evrópu (e. European Monetary System, EMS) frá 1979 og Evrópska gengissamstarfið (e. European Exchange Rate Mechanism, ERM 1). Það er hins vegar ástæða fyrir því að þessi kerfi lifðu ekki af í sinni upprunalegu mynd: þau dugðu einfaldlega ekki til að skapa gengisstöðugleika í hörðum heimi frjálsra fjármagnsflutninga og spákaupmennsku. Einmitt þess vegna var evran búin til. Ísland gat stuðst við fastgengisstefnu (bindingu við myntkörfu helstu viðskiptalanda) með ágætum árangri frá 1989 til aldamóta – fyrst og fremst í krafti þess að hér voru enn við lýði stíf fjármagnshöft. Hjá Svíum, Norðmönnum og Finnum mistókst sams konar skuggabinding við myntir annarra Evrópuþjóða (sjá t.d. bók Barry Eichengreen, The European Economy since 1945, bls. 357—370 og skýrslu Ásgeirs Jónssonar o.fl., Framtíð íslenskrar peningastefnu, bls. 75-76).
- Viðreisn kallaði mjög eftir því í aðdraganda kosninga 2016 að krónan yrði bundin við evru með harðri gengistengingu í gegnum myntráð. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) varaði eindregið við slíku fyrirkomulagi árið 2017 og það gerði einnig aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands. Sérfræðingahópur, skipaður af þáverandi fjármálaráðherra og formanni Viðreisnar, komst loks að þeirri niðurstöðu árið 2018 að upptaka myntráðs væri óráðleg og fæli í sér „óásættanlega áhættu fyrir fjármálastöðugleika“ og síðan hefur lítið spurst til þessarar hugmyndar. Það er ágætt ef forystufólk í Viðreisn er hætt að halda myntráði á lofti sem skynsamlegri lausn í gengismálum. Samningsbundin fastgengisstefna, þar sem gengið yrði sameiginlega varið af Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu, væri vissulega trúverðugri en einhliða skuldbinding af hálfu Íslands. Hins vegar vakna spurningar um hvort sú leið sé raunhæf meðan Ísland stendur utan Evrópusambandsins. Áratugalöng og samningsbundin gengisbinding dönsku krónunnar við evruna á sér sögulegar skýringar: Danir höfnuðu Maastricht-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992, sömdu sérstaklega um undanþágur í kjölfarið og höfnuðu svo upptöku evru í þjóðaratkvæðagreiðslu um aldamótin. Það er hins vegar óljóst hvers vegna Evrópusambandið ætti að veita Íslandi, sem er ekki einu sinni aðili að Evrópusambandinu, sérmeðferð með tvíhliða samningi um gengisbindingu.
- Eins og Patrick Honohan, fyrrum seðlabankastjóri Írlands, og Athanasios Orphanides, prófessor við MIT, benda á hafa Danir margþurft að verjast spákaupmennskuárásum á gengisbindingu sína. Það var margra ára verk og kostaði fórnir að ljá henni trúverðugleika. Paul de Grauwe, hagfræðiprófessor við LSE og einn fremsti sérfræðingur heims í gjaldmiðlafræðum, segir að með því að binda gjaldmiðil sinn við evru frekar en að ganga alla leið inn í myntbandalagið séu Danir að halda þeim möguleika opnum að nota breytta gengisskráningu til aðlögunar eftir áföll ef þess gerist nauðsyn. Þessi möguleiki grafi hins vegar undan trúverðugleika myntfestunnar. Sviss gat horfið einhliða og nær fyrirvaralaust frá sinni gengisbindingu árið 2015, en í ljósi þess að danska fyrirkomulagið byggir á samkomulagi við stofnanir Evrópusambandsins geti þar orðið tímafrekara að falla frá myntfestunni og jafnvel kallað á samningaþref þegar síst skyldi. Danir ættu annaðhvort að taka upp evruna eða fljótandi gengi að mati de Grauwe; millileiðin geri hagkerfið of berskjaldað fyrir áhlaupi á mörkuðum.
- Daði og Stefán segja að málamiðlunin sem þeir leggja til myndi krefjast þess að Ísland undirgengist kröfur um ábyrga hagstjórn. „En það hafa íslensk stjórnvöld þó þegar gert með lögum um opinber fjármál,“ skrifa þeir. Hér verður að taka með í reikninginn að hagstjórnarviðbrögðin sem ráðist hefur verið í vegna veirunnar undanfarna mánuði væru ekki möguleg nema vegna þess að fjármálareglur laga um opinber fjármál hafa verið teknar tímabundið úr sambandi. Ekki nóg með það heldur stendur nú til að breyta lögunum þannig að næsta ríkisstjórn verði óbundin af skilyrðum um heildarjöfnuð og skuldahlutföll hins opinbera á tímabilinu 2023 til 2025. Þótt Evrópusambandið hafi líka virkjað undanþáguákvæði frá sínum fjármálareglum er óvíst hvenær þær koma aftur til framkvæmda og hvaða breytingar verða gerðar á þeim; hversu hratt aðildarríki munu þurfa að ná niður halla og greiða niður skuldir á komandi árum. Ríkissjóður Íslands verður rekinn með tvöfalt til þrefalt meiri halla en ríkissjóðir flestra evrulandanna árið 2021 (sem er ekki bara skynsamlegt heldur nauðsynlegt til að verja opinbera þjónustu, halda uppi eftirspurn og reisa hagkerfið upp úr veirukreppunni), en auk þess er gert ráð fyrir áframhaldandi skuldasöfnun hins opinbera allt til ársins 2025. Hvort þetta verði talið til marks um ábyrga hagstjórn mun ráðast af því hvers konar efnahagspólitík og ríkisfjármálaviðmið ná yfirhöndinni á evrusvæðinu á næstu misserum. Það væri vont ef sú ríkisstjórn sem tekur við stjórnartaumunum eftir ár færi að herða á aðhaldi í ríkisfjármálum og flýta sér að ná niður fjárlagahallanum til að sýna „ábyrgð“ og trúverðugleika gagnvart viðsemjanda. Slíkt gæti unnið gegn markmiðum um hagvöxt og efnahagslegan stöðugleika.
Umræðan um gjaldamiðlamál og hugsanlegar málamiðlanir er góðra gjalda verð, en fræðimennirnir þurfa að útskýra mál sitt betur ef ætlunin er að sannfæra fólk um að leið þeirra sé skynsamlegri en að annaðhvort taka upp evru eða halda í fljótandi krónu með verðbólgumarkmiði.
Höfundur er MSc. í sagnfræði og evrópskri stjórnmálahagfræði og starfar nú við ráðgjöf fyrir þingflokk Samfylkingarinnar.