Í dag 24. október eru 45 ár liðin frá því að konur fjölmenntu á Lækjartorg á sjálfan Kvennafrídaginn 24. október 1975. Um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf sín til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og til að krefjast sömu réttinda og launakjara og karlar höfðu í sambærilegri vinnu.
Árið 2003 voru Samtök kvenna af erlendum uppruna formlega stofnuð. Hlutverk Samtakanna er að sameina, takast á við og ljá hagsmuna- og áhugamálum kvenna sem sest hafa að á Íslandi rödd. Markmið Samtakanna er að vinna að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna af erlendum uppruna á öllum sviðum þjóðlífsins.
Árið er 2020 og Ísland mælist aftur, ásamt hinum Norðurlöndunum, með minnsta kynjabil í heimi í skýrslu World Economic Forum (WEF) sem út kom nýlega. WEF mælir kynjabilið á fjórum mælikvörðum: efnahagslegri þátttöku og tækifærum, menntun, pólitískri þátttöku og heilsu. Efnahagsleg þátttaka og tækifæri fela í sér atvinnuþátttöku, jöfn laun fyrir sambærileg störf, heildaratvinnutekjur og hlutfall kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga. Sem sagt raunverlegt jafnræði er byggt á þessum grunnvallaratriðum.
Leyfum okkur að staldra við hér til að spyrja; eiga allar konur á Íslandi, óháð uppruna að njóta sama raunverulegs jafnræðis á vinnumarkaði? Okkar tilfinning hjá Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi er að konur, sem við erum talsmenn fyrir, erum ekki að njóta sama raunverulegs jafnræðis og íslenskar kynsystur okkar.
Ég vil ræða aðeins um staðreyndir sem konur af erlendum uppruna mæta hér á Íslandi. Rannsóknir bæði hérlendis og víða hafa sýnt að konur af erlendum uppruna eru líklegri til þess að búa við tvöfalda mismunun á vinnumarkaði bæði vegna kyns og stöðu sinnar sem innflytjendur.
Samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir félagsmálaráðuneytið árið 2019 „Konur af erlendum uppruna Hvar kreppir að?“ af Unni Dís Skaptadóttur og Kristínu Loftsdóttur, prófessorum í mannfræði við Háskóla Íslands, eru konur af erlendum uppruna mjög virkar á vinnumarkaði. Í skýrslunni kom fram að konur af erlendum uppruna:
- vinna oftast einhæf láglaunastörf
- eru oftar en karlar ofmenntaðar fyrir þau störf sem þær sinna
- eiga erfiðara með að fá framgang í starfi
- vinna oftar en innlendar konur í vaktavinnu
- vinna oft langan vinnudag
- vinna oft að mestu með öðru fólki af erlendum uppruna
- að atvinnuleysi er hærra meðal þeirra en meðal innlendra kvenna
- að sumir hópar kvenna hafa litlar eða engar upplýsingar um stéttarfélög og mikilvægi þeirra í íslensku samfélagi
Setjum þessa niðurstöður í samhengi við efnahagslega uppbyggingu hérlendis eftir hrunið, sem var að miklu leiti unnið af innflytjendum, þar á meðal hátt hlutfall kvenna af erlendum uppruna. Við vitum hverjir störfuðu í öllum þessum lágalauna þjónustustörfum við túristana. En vorum við jafn meðvituð um hvernig jafnrétti kvenna af erlendum uppruna var gætt í þessari mikilvægu atvinnugrein?
Hlutfall innflytjenda í ferðaþjónustunni óx úr 15% árið 2010 í 36% árið 2019 (Hagstofa Íslands, 2020). Í fyrra kom út skýrsla um „Aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu: Sjónarhorn stéttarfélaga og starfsfólks“ sem var unnin af Írisi Hrund Halldórsdóttur og Magnfríði Júlíusdóttur fyrir Rannsóknamiðstöð ferðamála 2020.
Í skýrslunni kemur fram að algengustu brotin í ferðaþjónustunni voru þau að fólk fékk vangreidd laun miðað við ákvæði kjarasamninga um skipulag vakta og álagsgreiðslna í vaktavinnu, þ.e. skiptingu launa í dagvinnu og eftirvinnu. Það sem var gert var að fólk fékk greitt jafnaðarlaun en var látið vinna tvískiptar vaktir, sem er beinlínis brot á kjarasamningum. Í skýrslu var hægt að finna dæmi um brot á reglum um 11 tíma hvíldartíma og frídaga eða „rauðir dagar“ og brot á rétti fólks til að fá styttri vaktir eða lengra frí vegna undirmönnunar. Einnig voru dæmi um fólk sem var að starfa launalaust eða með laun langt undir lágmarkslaunum og fólk sem var að vinna án trygginga og/eða annarra réttinda.
Verst voru dæmin um erlenda starfsmenn sem störfuðu sem sjálfboðaliðar (sem oftast tengdust við hestaleigur, minni gististaði og starfsnema á hótelum). Það kom einnig fram af viðmælenda í skýrslunni sé minnst á söfn og tilraunir sveitarfélaga til að taka upp fyrirkomulag með sjálfboðaliðum. Ég mæli með því að þið gefið ykkur tíma til að lesa frásgön frá „Míu“ (bls.29 -31) í skýrslunni og huga vel að baráttu um jafnrétti kvenna á vinnumarkaði. Er réttmætt gagnvart okkur að notfæra fegurð Íslands sem aðdragandaafl í að fá kvenfólk af erlendum uppruna í launalausa vinnu, án réttinda og öryggis sem hver einstök íslensk kona myndi hafa greiðan aðgang að?
Ég hef oft áður vitnað í greining sem var gerð á vegum Reykjavíkurborgar árið 2016 um launamun milli starfsamanna af erlendum uppruna og Íslendinga, þar sem kom fram að erlent starfsfólk var með 23,7% lægri grunnlaun en starfsfólk með íslenskt ríkisfang og 24,7% lægri heildarlaun. Sem segir okkur að erlendir starfsmenn eru ekki að starfa í stjórnunar eða sérfræðistöðu hjá stærsta vinnuveitanda landsins.
Greining á launamun sem var gerður á vegum Hagstofa Íslands í samvinnu við Innflytjendaráð sem gefin var út í mars 2019 kom fram að „innflytjendur bera að jafnaði minna úr býtum fyrir menntun sína en innlendir. Áætlað er að um 11% til 15% skilyrtur launamunur sé á launum innflytjenda og innlendra með sömu menntun.“ Einnig kom fram að fólk sem starfar í ræstingu og sem aðstoðarfólk í mötuneytum, færibandavinnu eða í aðstoðarstörfum á stofnunum og læknastofum, voru meðal algengustu starfa innflytjenda.
Áhyggjur okkar í dag, á deginum sem við minnumst á jafnstöðu kynja á vinnumarkaði, er með þeim verstu þar sem fjölmargar konur af erlendum uppruna hafa misst vinnu vegna hruns í ferðamálagreininni (að mestu leiti) í kjölfar heimsfaraldursins. Samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu frá Vinnumálastofnun þar sem almennt atvinnuleysi var 9,0% og af því var atvinnuleysi innflytjenda 41,5% eða heildaratvinnuleysi erlendra ríkisborgara u.þ.b. 22,7%.
Ef við vorum ekki að standa vörð um jafnræði á vinnumarkaði hvað varðar konur af erlendum uppruna á meðan góðærið gekk yfir okkur hér á Íslandi, hvernig mun það þá ganga við að koma okkur upp úr núverandi stöðu? Er það ekki hlutverk okkar allra að tryggja þess að við njótum öll sömu réttindi og möguleika til sanngjarna launa fyrir sambærileg störf, og möguleika til framganga í starfi? Eitt er víst að Samtök kvenna af erlendum uppruna munu halda áfram að sinna hagsmunabáráttu um jafnrétti kvenna af erlendum uppruna.
Fyrir hönd samtakanna viljum við í stjórn óska félagskonum til hamingju með daginn og hvetjum til áframhaldandi samstöðu í baráttu fyrir jafnrétti allra kvenna á Íslandi.