Athygli mín hefur verið vakin á því að Pawel Bartoszek forseti borgarstjórnar Reykjavíkur hafi andmælt atriði í grein minni í Morgunblaðinu um þjóðhagslega óhagkvæmni Borgarlínu. Pawel telur að þegar um aukna notkun eða nýja farþega sé að ræða séu fargjaldatekjur mælikvarði á hagkvæmni framkvæmdar og eigi því að reikna með í þjóðhagslega ábatanum af framkvæmdinni.
Þetta er hins vegar ekki rétt. Þau fargjöld sem nýir farþegar greiða eru að vísu tekjur fyrir farmiðasalann. Þær eru hins vegar jafnmikið tap fyrir aðra framleiðendur sem hinir nýju farþegar keyptu áður vörur af. Það er ekki hægt að eyða sömu tekjum tvisvar. Niðurstaðan er því eins og ég sagði í greininni í Morgunblaðinu að fargjaldatekjurnar séu einungis tilfærsla.
Nýr viðskiptamaður Borgarlínu færir þær frá öðrum framleiðendum í hagkerfinu yfir í kassa Borgarlínunnar. Þjóðarkakan vex ekki við þessa tilfærslu. Þess vegna er getur hún ekki talist þjóðhagslegur ábati af Borgarlínu.
Jafnvel það er ofmat þegar um nýja farþega er að ræða, því þótt þeir hafi af því hagsbót að færa neyslu sína yfir í ferðir með Borgarlínu tapa þeir ábatanum sem þeir höfðu af sínu fyrra neyslumynstri. Það er með öðrum orðum einungis viðbótarábatinn sem þeir hafa af því að færa sig yfir í Borgarlínu, en ekki allur tímasparnaðurinn, sem getur talist þjóðhagslegur ábati af þeirri framkvæmd.
Höfundur er prófessor emeritus.