Heildarútgjöld til framhaldsskólastigsins hafa aukist á undanförnum árum. Mennta- og menningarmálaráðueytið hefur verið duglegt að benda á þessa aukningu á vef stjórnarráðsins (sjá hér, hér og hér). Það er hins vegar erfitt að meta styrk framhaldsskólanna út frá heildarútgjöldum. Nauðsynlegt er að taka með í reikninginn ýmsar breytur svo sem eins og það að ríkið hækkaði húsaleigu skólanna um 2.353 milljónir árið 2019. Í svari ráðherra er hækkunin skýrð með breyttri leigu (markaðsleigu) og vegna verðlagsbóta.
Með húsaleigu framhaldsskólanna er átt við leigugjöld 27 ríkisrekinna framhaldsskóla, sem ríkið rukkar fyrir afnot af eigin húsnæði. Þessir skólar eru í stafrófsröð: Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Flensborgarskóli, Framhaldsskólinn á Húsavík, Framhaldsskólinn á Laugum, Framhaldsskólinn í A-Skaftafellssýslu, Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn að Laugarvatni, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn við Sund, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Menntaskólinn á Ísafirði, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn í Reykjavík, Verkmenntaskóli Austurlands, Verkmenntaskólinn á Akureyri.
Ný gögn á heimasíðu Fjársýslu ríkisins staðfesta þessar leiguhækkanir til skólanna.
Grænu súlurnar fást með sundurliðun á tekjum og gjöldum í opnum gögnum Fjársýslu ríkisins. Gráu súlurnar 2017 og 2018 byggja á liðnum leigugjöld í ársreikningum skólanna. Síðasta súlan byggir á áðurnefndri hækkun á leigu skólanna. Ekki hafa allir ársreikningar skólanna verið birtir á vef Fjársýslunnar fyrir árið 2019. Þegar þetta er ritað þá á einungis eftir að birta ársreikninga MS og Borgarholtsskóla. Samtala leigugjalda hinna skólanna 25 skv. þeirra ársreikningum er um 4 milljarðar sem passar við áðurnefnt svar ráðherra.
Það er erfitt að átta sig á því af hverju húsaleiga (markaðsleiga) Menntaskólans á Akureyri fer úr 111 milljónum árið 2018 í 189 milljónir (70%) árið 2019 en húsaleiga Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) úr 150 milljónum í 385 milljónir (157%)! Skýra markaðsaðstæður á Akureyri þennan mun? Þegar reglugerð um reiknilíkan framhaldsskólanna var gefin út fyrir 20 árum síðan var alltaf gert ráð fyrir því að það væri opið öllum sem vildu kynna sér. Reiknilíkanið er í dag harðlæst og lokað og einungis hægt að skyggnast inn í fjármál framhaldsskólanna í misaðgengilegum uppgjörsskýrslum.
Að þessu sögðu þá verður ekki fullyrt að framlög til skólanna séu of lág. Hins vegar er óvíst að skólastigið sé í stórsókn þegar kemur að fjárveitingum. Útgjöld til 19 framhaldsskóla af 30 munu aukast árið 2021 um innan við 3,0%. Það svarar til verðlagsþróunar í anda Lífskjarasamninganna. Það er mögulega heldur rýrt ef haft er í huga það álag sem er á kerfinu vegna covid-19 og er fyrirsjáanlegt í náinni framtíð vegna atvinnuleysis. Atvinnulausir karlar eru mun líklegri til þess að sækja nám í framhaldsskólum en háskólum (Fjárlög bls. 119). Samt er engin sjáanleg forgangsröðun þegar kemur að fjárveitingum til verknámsskóla. Framlög til VMA hækka svo dæmi sé nefnt minnst allra eða einungis um 1,2% milli áranna 2020 og 2021 skv. fjárlögum.
Það er greinilega full ástæða til þess að kafa ofan í kjölinn á fjárlögum framhaldsskóla landsins. Það er einnig fullt tilefni til þess að skora enn og aftur á yfirvöld menntamála að opna aðgang að reiknilíkani framhaldsskólanna eftir 20 ár.
Höfundur er framhaldsskólakennari.