Einar Þorsteinsson (EÞ) hefur því miður lengi og oft gert sig beran að afar ómálefnalegri hlutdrægni og dólgaframkomu. Sérstaklega má visa til þess hvernig kosningasjónvörp nokkurra ára hafa afhjúpað óþol hans og ruddaskap gagnvart „nýframboðum” – meðan hann dillar sér kring um elítu Sjálfstæðisflokksins og öfgakapítalísk viðhorf hægri manna í fjármálalífinu.
Hér læt ég nægja að visa til þess þegar Einar réðist á frambjóðanda Sósíalistaflokksins til borgarstjórnar í Reykjavík vegna meintrar óreiðu allt annars einstaklings – (sem að vísu var einn af forvígismönnum Sósíalistaflokksins en ekki í framboði eða á ábyrgð viðkomandi frambjóðanda á nokkurn hátt).
Einnig er nýlegt dæmi úr Kastljósinu þar sem fjármálaráðherra „ríkisafskiptanna” baðar sig í aðdáun spyrilsins – á meðan engin spurning svo mikið sem ýjar að því að mótsögn hljóti að felast í því að einkavæða gróðann í formi ríflegra arðgreiðslna en ríkisvæða tapið og bjarga með því eignarhaldi kapítalsins.
Þess vegna er ábyggilegt að framganga EÞ og sú nálgun sem hann kom með til „að sauma að” Má Kristjánssyni vekur harðari viðbrögð en ella – af því líka að þetta er ekki í fyrsta skipti. Nýlega réðist Einar nefnilega að Páli Matthíassyni forstjóra LSH og heimtaði skýringar á miðjum vettvangi stórslyssins á Landakoti.
Margrét Heinreksdóttir (FB 17.11.2020)
„Eg leyfi mér að mótmæla sterklega endurteknum aðförum fréttamanns RÚV að því frábæra fólki sem hefur nær allt þetta ár lagt líf sitt í hættu í baráttunni gegn farsóttinni sem heimurinn allur á nú í höggi við. Þær eru svo ómaklegar að ég fer hreinlega hjá mér, bæði fyrir eigin hönd. RÚV og þjóðarinnar allrar. Líf okkar er í höndum þessa fólks og það hefur unnið hrein þrekvirki í þessu stríði. Það sem gerðist á Landakoti var harmleikur sem átti sér margar orsakir en vilji RÚV finna sökudólga held ég að tími sé kominn til að beina spjótum sínum að þeim sem mesta ábyrgð bera á því að Landakot - og aðrar sambærilegar úreltar sjúkrastofnanir víða um land - skuli vera jafn ófullnægjandi og raun ber vitni, þ.e.a.s. þeim stjórnmálamönnum sem hafa dregið lappirnar við endurnýjun þeirra. Hvernig væri RÚV að hætta að hengja bakara fyrir smið?”
Þorsteinn Vilhjálmsson (FB 17.11.2020)
„Það var einkennilegt og umhugsunarvert að fylgjast með viðtali Einars Þorsteinssonar við Má Kristjánsson í Kastljósinu í fyrrakvöld. Einar virtist ganga út frá því að ekkert geti farið úrskeiðis í mannheimi nema einhver hafi gert mistök, helst einhver tiltekin manneskja sem við getum þá bent á með vísifingri. Ætli fólk sem hugsar svona hafi aldrei dottið á óvæntri hálku?“
Hjarðhegðun blaðamanna
Furðulegt að líka að sjá starfandi fjölmiðlamenn ryðjast inn á þræði netmiðlanna til að verja EÞ á þeirri forsendu að hann sé merkisberi einhvers konar „faglegrar fjölmiðlunar” sem spyrji „erfiðra spurninga” af því að það eigi að gera það.
Vissulega á að spyrja „erfiðra spurninga” þegar eitthvað er verið að fela eða ef grunur leikur á að eitthvað ósiðlegt eða ólögmætt hafi átt sér stað. Fyrirliggjandi skýrsla LSH liggur fyrir og hefur verið birt og kynnt opinberlega. Ekki er að finna í henni vísbendingar eða grun um að stjórnendur og starfsmenn LSH hafi gert sig seka um afbrot eða ólögmæta framgöngu – þótt ljóst sé að smit muni nokkuð örugglega hafa borist með starfsmönnum. Líkur má leiða að því að smitaðir sjúklingar og aðstandandendur hafi einnig gengið um garða á Landakoti, eða það er amk. ekki útilokað í skýrslunni af því að smitin hafa örugglega verið fleiri frekar en færri. Veiran var líka þarna út um allt samfélagið á tímabilinu 15. september til 25. október og því bókstaflega viðbúið að smitaðir kæmu og færu inn og út af fleiri deildum LSH og ekki síst þeirri sem rekin er á Landakoti. Veiran er jú lúmsk því einhverjir virðast engin einkenni sýna þótt þeir séu smitandi.
Fjölmiðlamenn rísa upp „til varnar” EÞ
Já; það má í leiðinni spyrja að því hvernig það megi vera að stjórnmálamenn sem láta í ljós fordæmingu, hneykslun eða áhyggjur af framgöngu fjölmiðlamanns í svo alvarlegu máli skuli sæta því í staðinn að kollegar EÞ fari með útúrsnúningum að stjórnmálamanninum á opnum samfélagsmiðlum. (Sitthvað er nú væntanlega þá það sem fréttamennirnir hita sig upp með á kaffistofuspjallinu eða á lokuðum innhússvefjum.)
Líklega höfum við ríka ástæðu til að hafa áhyggjur af heilbrigði umræðunnar – og því lýðræði sem þarf svo mjög á því að halda að staðreyndir og röksemdir geti borið uppi skoðanamyndun og almenna líðan „Þjóðarsálarinnar” þegar svona er í pottinn búið.
Líklega er það alvarlegt veikleikamerki þegar virkir fjölmiðlamenn hika ekki við að ráðast á sjónarmið og jafnvel persónur stjórnmálafólks, ef það dirfist að gagnrýna eða fordæma ömurlega frammistöðu EÞ eða annarra hlutdrægra fjölmiðlamanna.
Ég tel að EÞ hafi einmitt gert sig sekan um dómgreindarleysi og ákveðið siðleysi í þeirri nálgun sem hann bauð upp á gagnvart Má Kristjánssyni vegna skelfingarinnar á Landakoti. Már var ekkert að fela og ekkert að draga undan, en hann kappkostaði „að sakbenda ekki” samstarfsfólk sitt eða undirmenn. Már fylgdi eftir skýrslunni í því að útskýra að húsnæði, aðbúnaður, tækni og mönnun væri langt undir því sem viðunandi gæti talist, og það hefði lengi legið fyrir. Már benti á að það hefði verið óskað liðsinnis, leitað að hentugri staðsetningu fyrir þá starfsemi sem „biðdeildin” á Landakoti átti að sinna. Hinn margumræddi fráflæðisvandi er hluti af þessu. Skortur á hjúkrunarrýmum er ekki nýtilkominn og skortur á þjónustu fyrir fólk sem bíður endurhæfingar – skortur á heimahjúkrun og tækniaðstoð.
Já annars; getur það virkilega verið að hjarðhegðunin sé svo frek hjá starfandi blaðamönnum að menn virðist telja sig þurfa „að afneita uppruna sínum” og lýsa fyrirvaralausri „hollustu við kollega” sína?
Að „hengja bakara…”
EÞ spurði alls ekki „réttra spurninga;” hann var fastur í því viðhorfi að „einhver eða einhverjir á LSH/Landakoti hlyti að hafa gerst sekur/sekir um mistök/vanrækslu” – og hann komst ekki úr því hjólfarinu. Það er ekki sjálfkrafa nein hörð fréttamennska” að taka fram í fyrir viðmælenda þó svör hans séu ekki eins og fréttamaður vill ná fram . . og það er ekki nein „fagmennska” fólgin í því að þráspyrja þó manni líki ekki að engin „sakbending” sé fólgin í svörum viðmælandans.
Umfram allt var rangur aðili spurður; – og þess vegna voru spurningar ekki bara óviðeigandi eða bókstaflega á mörkum þess siðlega. Már Kristjánsson læknir ber enga ábyrgð á að húsnæðisaðstæður og tæknistig Landakots og meira og minna LSH og flestra heilbrigðisstofnana eru myglaðar og jafnvel ónýtar.
Már Kristjánsson hefur – eins og raunar flestir kollegar hans – um áratugaskeið barist fyrir því að heilbrigðiskerfið verði fjármagnað með viðunandi hætti. Það eru ekki læknar LSH eða stjórnendur þar á bæ sem bera ábyrgð á tregðu ríkisstjórna/fjármálaráðherra – lengst af öllu Bjarna Benediktssonar – til að gera kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga, lækna eða ljósmæður . . . . .
Það er ekki Már Kristjánsson sem á að svara fyrir það að ekki tekst að manna sjúkrahúsin með fagfólki – meðan kjör og vinnuaðstæður eru fyrir neðan allar hellur.
Nú hefur komið í ljós að aðstæður á Landakoti voru þannig að þar skapaðist „lífsógnandi ástand” fyrir sjúklinga og starfsfólkið og fleiri hafa þegar látist en hægt er að horfa framhjá.
Fyrir þetta eiga stjórnmálamenn; ráðherrar í ríkisstjórn að svara. Fyrir þetta eigum við að kalla stjórnmálastefnur sífellds niðurskurðar til að svara.
Stefna þingflokks Sjálfstæðisflokksins og langstæðar tilraunir til eyðileggingar á opinbera heilbrigðiskerfinu hefur hér átt langmestan þátt.
En Sjálfstæðismenn hafa ekki verið einir að verki.
Bjarni Benediktsson er til að mynda fjármálaráðherra í ríkisstjórn sem situr í umboði kjósenda vinstri sósíalista og félagshyggju-arms Framsóknarflokksins, alveg eins og þeirra allra ríkustu 0,1% sem hreiðra um sig í allsnægtum auðs og valda og verja sín forréttindi undir flagginu xD.