Við þurfum að ræða um trúverðugleika Íslands í loftslagsmálum. Um það hvort mannkynið í heild geti bjargað sér undan sjálfskaparvíti og hvernig Ísland getur hjálpað til, meira en þegar er gert. Ég lít svo á að við séum öll bandamenn í þeirra umræðu, í því hvernig við viðhöldum lífvænleika jarðar.
Ljóst er að mörg lönd, meðal annars sum stærstu lönd heims, munu ekki að óbreyttu ná að draga úr losun svo nokkru nemi. Jafnvel þar sem pólitískur vilji er til staðar að nafninu til virðast önnur efnahagsleg og samfélagsleg markmið ráða för.
Verstu skógareldar sögunnar geisa um heiminn ár eftir ár, fellibyljum hvers árs fer fjölgandi. Metþurrkar, landeyðing og hækkun sjávarmáls eru löngu hætt að vera fræðilegar ógnir. Við þurfum að forgangsraða stórtækum aðgerðum fram yfir smærri puntverkefni sem láta stjórnmálin líta vel út en hafa litla þýðingu í reynd.
Eftir því sem á líður bendir fleira til þess að við þurfum að gera grundvallarbreytingar á hagkerfi heimsins ef markmiðið eigi að nást. Það er hverjum þeim ljóst sem lætur sig loftslagsmál varða af einhverri alvöru að engin leið er að skapa sjálfbært samfélag manna án þess að breyta því hvernig gangverk efnahagsmála virkar á heimsvísu.
Á meðan efnahagskerfin undanskilja ágang á náttúruauðlindir frá hagnaðartölum og á meðan krafan um hinn endalausa hagvöxt er ekki kveðin niður er engin leið að ætla að árangur náist í loftslagsmálum. Því verður að gera nákvæmlega sömu kröfur til loftslagsbókhalds og gerðar eru til ríkisfjármála, auk þess sem hið opinbera þarf að samtvinna aðgerðir í efnahagslífinu við loftslagsmál. Næsta ríkisstjórn gæti t.d. sett á fót embætti umhverfis- og efnahagsmálaráðherra. Ég teldi það a.m.k. umræðunnar virði.
Hvernig gengur okkur, hvar gætum við verið að standa okkur betur? Erum við að missa af tækifærum, að klúðra einhverju stórkostlega? Eða erum við jafnvel að missa sjónar á vandamálinu, til dæmis vegna heimsfaraldurs Covid-19?
Þessum spurningum og öðrum ætlum við að varpa upp á Umhverfisþingi Pírata, sem fram fer í dag á piratar.tv klukkan 11. Þar geta áhugasöm fylgst með og sent spurningar til framsögufólksins, sem er ekki af verri endanum. Þeirra á meðal eru Andri Snær Magnason rithöfundur, Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar, Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor í sjálfbærnivísindum og Geir Guðmundsson verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Við ætlum að ræða stóra hugmyndir enda eru úrlausnarefnin stór. Við þurfum að setja markið hátt, því til þess að ná árangri þá þurfum við að þora. Sem fyrr segir hefst þingið klukkan 11 og er hægt að horfa á það með því að smella hér.
Höfundur er þingmaður Pírata.