Furðuleg umræða hefur skotið upp kollinum um að þær félagslegu og efnahagslegu aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í til að skapa samfélagslega viðspyrnu við áhrifum heimsfaraldursins snúist um að mylja undir þá sem eiga. Í sama mund er talað um frumvarp um endurskoðun á skattstofni fjármagnstekjuskatts þar sem hækkun frítekjumarks er meðal breytinga, en það frumvarp er eðli málsins samkvæmt ekki tengt heimsfaraldrinum. Drífa Snædal, forseti ASÍ, kom inn á þetta í Kastljósi fyrir skemmstu og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, tók svo upp á þingi. Í máli Þórhildar Sunnu var reyndar að finna svo margar rangfærslur að kannski er óþarfi að kippa sér upp við þessa sérstöku, en það er engu að síður úr vegi að skoða þessi mál betur.
Við forseti ASÍ erum sammála um þörfina á að greina hvort aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að hjálpa fólki og fyrirtækjum vegna kórónuveirunnar séu að fara til þeirra sem þyrftu helst á að halda. Ég er hins vegar ósammála forsetanum um að verið sé að skera niður til velferðarkerfisins, enda er það einfaldlega rangt og ekki hægt að rífast um. Mat á því fyrir hverja aðgerðirnar eru liggur hins vegar fyrir sem og hvernig þær hafa verið nýttar. Skýrsla um nýtingu úrræðanna hingað til birtist fyrr í mánuðinum þar sem allar upphæðir koma fram. Hún er hér.
Ég veit ekki hvernig hægt er að segja með sanngirni, sé sú skýrsla skoðuð, að ríkisstjórnin sé að mylja undir hina ríku en mér þætti frábært að fá nánari útskýringu á því. Eru það hlutabæturnar sem hafa farið til þeirra sem hafa verið í skertu starfshlutfalli síðustu mánuði? Úrræði sem snýst um að fólk sem vinnur hjá fyrirtækjum þar sem verkefnin og tekjurnar hafa hrunið haldi tekjum og ráðningarsambandi þrátt fyrir skert starfshlutfall. Eða fólk sem missti vinnuna og er nú atvinnulaust en fékk greiðslu launa á uppsagnarfresti? Aðgerð sem farið var í í vor þegar við blasti að mörg fyrirtæki gætu ekki haldið út að hafa starfsfólk í skertu starfshlutfalli og bæði stjórnvöld og verkalýðshreyfingin höfðu áhyggjur af því að myndi ekki fá greiddan uppsagnarfrest sinn og uppsafnað orlof. Sú aðgerð snerist um að tryggja að fólk fengi greitt strax í samræmi við réttindi sín en þyrfti ekki að bíða eftir langri málsmeðferð og mögulega greiðslu úr Ábyrgðasjóði launa mánuðum síðar – að tryggja afkomuöryggi fólks. Varla var það barnabótaaukinn eða Allir vinna úrræðið? Lokunarstyrkir – fyrir hárgreiðslustofur og rekstraraðila sem stjórnvöld þurftu að banna að hafa opið. Telja þær að lokunarstyrkir og viðspyrnustyrkir til rekstraraðila sem hafa þurft að loka eða draga verulega úr starfsemi sinni fari bara til ríks fólks, en ekki til að borga fólki laun og halda því í vinnu, jafnvel þó þeir miðist við fjölda starfsfólks?
Ég gæti haldið áfram niður listann en stóra myndin breytist ekkert.
Fljótlega fara svo bráðum í útgreiðslu lán til fyrirtækja og frekari lokunarstyrkir. Um hvað snýst þetta allt saman? Þetta snýst um að halda atvinnuleysi í eins miklum skefjum og nokkur kostur er. Af því að þegar öllu er á botninn hvolft þá er líklega ekkert sem eykur ójöfnuð innan samfélaga jafn mikið og langtíma atvinnuleysi. Og það er okkar stærsta verkefni.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók þennan málflutning upp á þingi í dag, fimmtudag, og bætti svo raunar við ótrúlegum fjölda rangfærslna, svo mörgum að það er ekki hægt að fara yfir það í (ekki svo) stuttu máli.
Hún vísaði í eftirfarandi orð forseta ASÍ og sagði hana vera að vísa í áformaða hækkun frítekjumarks fjármagnstekjuskatts, en eins og sjá má var Drífa að vísa til hlutanna í miklu víðara samhengi og m.a. viðspyrnuaðgerða ríkisstjórnarinnar:
„Þegar maður setur þessar aðgerðir í samhengi, þá eru þarna ýmsar aðgerðir sem verða til þess að dýpka misrétti. Það er verið að mylja undir þá sem eiga í stað þeirra sem eiga ekki.“
Endurskoðun á fjármagnstekjuskatti, í tveimur áföngum, er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Fyrri áfanginn var að hækka hann strax í upphafi kjörtímabilsins um 10% (úr 20 í 22%) og annar áfangi, sem er nú á þingmálaskrá fjármálaráðherra, að endurskoða skattstofninn. Um þetta sagði Þórhildur Sunna:
„Fyrirhuguð hækkun á frítekjumarki fjármagnstekjuskatts mun færa fjármagnseigendum 150.000 kr. aukalega í ráðstöfunartekjur á mánuði“.
Þetta er einfaldlega rangt. Í frumvarpinu sem birt var í samráðsgátt fyrir helgi en hefur ekki komið inn í þingið enn er kveðið á um 150.000 krónu hækkun frítekjumarks, úr 150.000 krónum eins og það er núna upp í 300.000 krónur. Þetta er hins vegar á ársgrundvelli en ekki á mánuði og hækkar þar af leiðandi ekki ráðstöfunartekjur neins um 150.000 krónur á mánuði, sem væri auðvitað fráleitt.
Svo sagði hún:
„Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna er hún að mylja undir þá ríku? Hvers vegna eru eins og aðalhagfræðingur Kviku banka benti á dögunum að deila peningum almennings til þeirra sem þurfa þá ekki þegar þúsundir eru atvinnulausir og Landspítalinn býr við aðhaldskröfu?“
Líkt og ég hef farið yfir er ekki verið að mylja undir hina ríku. Langstærstur hluti þeirra peninga sem farið hafa úr ríkissjóði hafa farið til fólks sem býr við atvinnuleysi að hluta eða að fullu. Þúsundir eru vissulega atvinnulausir og þess vegna var gríðarlega mikilvægt að lengja tímabilið sem fólk fær tekjutengdar atvinnuleysisbætur og að grunnbæturnar verði hækkaðar um 18 þúsund krónur um áramótin, þá samtals um rúmar 80 þúsund krónur á kjörtímabilinu. Sömuleiðis að barnaálag atvinnuleysisbóta verði áfram haldið í 6 prósentum þannig að fjárhæðin á mánuði með hverju barni verði um 18 þ.kr. en ekki 12 þ.kr. og að atvinnuleitendur fái desemberuppbót upp á 86 þ.kr.
Þá er vert að nefnda að heildarframlög til Landspítalans verða á næsta ári verða um 80.000 milljónir sem er töluverð aukning á milli ára, eða um 4.000 milljónir. Spítalinn býr svo við 0,5% aðhaldskröfu eins og aðrar heilbrigðisstofnanir sem eru 400 milljónir á næsta ári.
Næst sagði Þórhildur Sunna þetta, sem er mögulega það sem er áhugaverðast:
„Þó vitum við báðar, virðulegi forseti, að þetta þrepaskipta skattkerfi sem ráðherra minnist á nýttist betur þeim tekjuhæstu en þeim tekjulægstu.“
Þetta eru beinharðar rangfærslur. Ekki háð túlkun, bara rangt. Þrepaskipta skattkerfið, þ.e. að innleiða nýtt lágtekjuþrep, kemur tækjulægri hópum mun betur en þeim tækjuhærri. Raunar er ávinningurinn mestur fyrir þau sem eru með lágmarkslaun á vinnumarkaði (um 350.000 kr.) því ráðstöfunartekjur þeirra verða um 120.000 krónum hærri á næsta ári en fyrir breytinguna og svo fjarar ávinningurinn út eftir því sem tekjur hækka. Þessi breyting skilar líka meiri ávinningi til kvenna en karla, yngra fólks en eldra og þeirra sem eru á leigumarkaði en þeirra sem eiga fasteign. Þessi staðhæfing Þórhildar Sunnu gæti í raun ekki verið fjær sanni.
Svo er hægt að bæta því við að maður þarf ekki að lesa mikið um skattkerfi til að vita að þrepaskipt (oft kölluð prógressíf/framsækin) skattkerfi hafa meiri jöfnunaráhrif en þau með færri þrepum. Þetta er því líka gríðarlega mikilvæg kerfisbreyting og það má velta fyrir sér hvort Píratar séu ekki fylgjandi þrepaskiptum skattkerfum. En höldum áfram.
Næst hélt Þórhildur Sunna fram að hópi tekjulægstu hefði gagnast best að fá hækkun persónuafsláttar, frekar en nýtt lágtekjugrunnþrep.
Þetta er rangt. Hækkun persónuafsláttar hefði í fyrsta lagi gengið upp allan tekjustigann, hún hefði skilað lægri ávinningi og hún hefði ekki haft í för með sér kerfisbreytingu til meiri jöfnuðar.
Við eigum að vera ósammála um ýmislegt í pólitíkinni, það er þannig sem við komumst að sem bestri niðurstöðu og færum mál áfram. Það á hins vegar að vera ábyrgðarhlutverk að fara rétt með staðreyndir, það sem ekki er nokkrum vafa undirorpið. Ef við gerum það ekki, ef við teygjum sannleikann og staðreyndirnar eins og málfutningi okkar hentar, þá erum við komin á stórhættulega braut í þjóðmálaumræðunni, eins og við sjáum dæmi um t.d. í Bandaríkjunum. Þetta er sérstaklega mikilvægt í jafn viðkvæmri stöðu og nú er uppi, ábyrgð okkar er enn meiri.
Ég skil það vel að fólk vilji að meira sé gert, að það sé farið í frekari aðgerðir. Auðvitað er það þannig í þessari stöðu. Það á hins vegar ekki að vera boðlegt að fara jafn rangt með jafn margt í þeim aðgerðum sem við erum að grípa til, að mála þær jafn röngum litum og sum virðast ekki hika við að gera. Tökumst á um leiðir og aðferðir, en förum rétt með staðreyndir.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.