Hvað er að frétta? Við þekkjum öll þessa kveðjur. Sá sem spyr á oftast von á að svarið verði jákvætt: „Engar fréttir góðar fréttir“ eða „Mér líður bara vel“. Í dag á tímum faraldursins er mjög mikilvægt að ganga lengra og inna eftir því hvaða áhrif ástandið hefur á fólk. Lítum í kringum okkur – hvernig er andleg líðan fólks sem við þekkjum og sem okkur þykir vænt um? Hvernig líður unga fólkinu okkar?
Ég er geðveikur
Ég er með sjúkdóm sem kallast því fallega nafni – geðhvörf. Það var mikil gæfa að sjúkdómurinn kom ekki fram fyrr en ég var rúmlega fertugur. Næstu árin varð mér ljóst að ég eignaðist fáa vini og gömlu vinirnir heltust margir úr lestinni – eins og gengur. En ég var með harðan skráp og fann haldgóðar skýringar á þessu. Sko, maður eignast jú færri og færri vini eftir því sem maður eldist. Og sko gamlir vinir – jú við þroskumst frá hvert öðru. Hann Jón er orðin lögfræðingur sem hrellir fátækar ekkjur og gamalmenni. Stína er kálhaus vegna dópneyslu. En hvað varð um Sigga og Önnu? Í dag á ég fáa – en mjög góða vini.
Íþróttir, staðbundin kennsla og samvera
Íþróttir skapa góðan grundvöll að samveru og ræktun félagsanda. Sem betur fer hefur iðkun þeirra verið leyfð innan skynsamlegra marka, en athuga þarf hvort gera þurfi betur. Staðbundin kennsla í framhaldsskólum hefur verið í skötulíki og kennslan færst yfir í fjarnám. Því miður ræður stór hluti unga fólksins ekki við þá breytingu. Stjórnvöld, íþróttafrömuðir og kennsluyfirvöld verða að finna fjölbreyttari lausnir til að bregðast við slæmu ástandi.
Fátækt og skerðingar
Stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að koma fyrirtækjum í gegnum það slæma ástand sem fylgir faraldrinum. Mikil mistök komu í ljós þegar fyrstu aðgerðirnar voru kynntar. Lítið eftirlit var með því hvort fyrirtækin þyrftu á hjálpinni að halda og því miður hefur lítið verið bætt úr þessum ágöllum síðar. Stjórnendur vel stæðra fyrirtækja hafa sýnt alvarlegan skort á samfélagslegu siðgæði – enda munu þeir margir hafa hugsað: Hver slær hendinni á móti auðfengnum peningum?
Fátækt fólk og aðrir sem höllum fæti standa í samfélaginu hafa litla hjálp fengið utan þeirrar smátuggu sem að þeim var rétt núna á dögunum. Allir sem vit hafa á segja að þetta sé einungis brot af því sem stjórnvöld hefðu þurft að gera, og allt of seint. Aðstoð við þá sem lægst hafa launin skila sér að stórum hluta út í samfélagið. Sú staðreynd er hverjum heilvita manni auðsæ – og ættu þeir sem um aðstoðina díla í faraldrinum að taka leppinn af vinstra auganu – og bæta úr sem fyrst.
Sköpum réttlátara samfélag
Að faraldrinum loknum þurfum við að læra af reynslunni. Því miður gerðum við það ekki eftir hrunið – allt er komið í sama farveg. Eigendur fjármagns skara eld að sinni köku eins og fyrr – sama spilling ræður ríkjum í bönkum og öðrum þjónustustofnunum almennings.
Stjórnmálaöflin þurfa að standa við loforð sín um að leiðrétta kjör þeirra sem lægst hafa launin. Mikið er búið að velta Bjarna Benediktssyni upp úr bréfi sem hann sendi öldruðum og öryrkjum fyrir einhverjar kosningarnar um bætur á kjörum þeirra og leiðréttingu. En hann er ekki eini svarti sauðurinn í svaðinu – allir stjórnmálaflokkar sem hafa setið við stjórnvölinn um langan tíma eru í drullunni með honum – þeir gáfu kjósendum svipuð loforð og Bjarni – þeir sviku þau eins og Bjarni.
Áskorun til ungs fólks
Loks vil ég taka fyrir bætt samfélag fyrir unga fólkið okkar. Það þarf sálfræðinga til hjálpar inn í skólana. Námsráðgjafar þurfa til viðbótar við sitt góða starf að fræða nemendur um atvinnuhorfur ef fólk stefnir á ákveðið starf og hvaða undirbúningur er skynsamur. Svo þarf að verða gagnger breyting á andrúmsloftinu í skólum landsins og á öðrum vinnustöðum. Ég við vitna í ljóðið Vetrarsól eftir Ólaf Hauk Símonarson en þar segir:
Hvers virði er allt heimsins prjál
ef það er enginn hér
sem stendur kyrr
er aðrir hverfa á braut.
Sem vill þér jafnan vel
og deilir með þér gleði og sorg
þá áttu minna en ekki neitt
ef þú átt engan vin.
Unga fólk í skólum landsins og á öðrum stöðum úti í samfélaginu: Lítið í kring um ykkur – hver er hann þessi strákur eða stelpa sem gengur alltaf með veggjum – sem enginn talar við. Þau virðast ekki eiga neina vini utan við símann sinn – þar sem þau skoða hvað er að gerast í umhverfinu – umhverfinu sem þau eru ekki þátttakendur í. Eruð þið til í að stiga fyrsta skrefið og kynnast þessari manneskju? Eruð þið til í að bjóða henni í vinahópinn?
Unga fólk standið ykkur betur en við sem eldri erum höfum gert – skapið samfélag þar sem mannúð og samkennd ræður ríkjum. Lærið af því sem okkur sem eldri erum hefur mistekist.
Höfundur er framhaldsskólakennari.