Sumir halda kannski að nafn Sjálfstæðisflokksins vísi til þess að stuðningsmenn hans séu sjálfstæðari en annað fólk. En svo er ekki endilega heldur vísar nafnið upphaflega til baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði gagnvart Dönum. En hvað er sjálfstæði? Nánar tiltekið: Hvað merkir sjálfstæði þjóðar eða ríkis í síbreytilegum heimi – sjálfstæði þjóðar sem vill kenna sig við lýðræði, mannréttindi og jafnrétti?
Í Íslandssögunni stendur að við höfum öðlast fullveldi árið 1918 og orðið sjálfstætt ríki árið 1944. En lauk sjálfstæðisbaráttunni með því? Svarið er nei því að henni lýkur aldrei og 1944 var enn langt í land að við hefðum lokið öllu því sem þurfti til að breyta Íslandi úr frumstæðri og ósjálfstæðri nýlendu í sjálfstætt lýðræðisríki með öllum þeim stofnunum og innviðum, starfsháttum og hugarfari sem gert er ráð fyrir í þess háttar ríkjum nú á dögum. Í réttarkerfinu, sem er aðalviðfangsefni þessarar greinar, er enn margt ógert á þessari leið.
Segja má að sjálfstæðisbarátta réttarkerfisins hafi byrjað með lagasetningu um Hæstarétt árið 1919. Hann varð þá æðsti dómstóll landsins en það hlutverk var áður hjá Hæstarétti Danmerkur. Allar götur síðan hafa breytingar á kerfinu verið örar, bæði með fjölgun stofnana, nýrri hugsun og nýjum hlutverkum. Saga réttarkerfisins snýst nefnilega ekki eingöngu um stofnanir heldur hafa undirliggjandi hugmyndir manna um réttarkerfi tekið miklum stakkaskiptum á þessum tíma. Kjarni þeirra er þó enn sem fyrr þrískipting valdsins sem er yfirleitt rakin til franska stjórnmálaheimspekingsins Montesquieu (1689-1755) og frægrar bókar hans Um Anda laganna (De l‘Esprit des lois) frá árinu 1748. Þar sagði meðal annars:
Ekkert frelsi ríkir ef dómsvaldið er ekki aðgreint frá löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu. Ef það væri tengt löggjafarvaldinu yrði líf og frelsi þegnanna háð geðþótta því að dómarinn væri þá jafnframt löggjafi. Væri dómsvaldið tengt framkvæmdavaldinu gæti dómarinn farið að beita ofbeldi og kúgun.
Mikilvæg breyting á réttarkerfi okkar tók gildi 1. júlí 1992. Þrískipting valdsins kom þar við sögu eins og segir í greinargerð innanríkisráðuneytisins með lagafrumvarpi frá 2016, sem síðar verður vikið að:
Viðhlítandi aðskilnaði á milli dómsvalds og framkvæmdarvalds utan Reykjavíkur var ekki komið á fyrr en með gildistöku laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
Aðdragandinn að lagasmíðinni frá 1989 fólst meðal annars í kæru Íslendings til Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins (MDE) vegna þess að fulltrúi bæjarfógeta hafði dæmt hann en bæjarfógeti var þá jafnframt yfirmaður lögreglunnar og dómarinn því ekki óháður. Þessu verklagi var breytt með lögunum með því að koma á dómstólum á landsbyggðinni. Í árslok 2006 lagði dómstólaráð til við ráðherra „að komið yrði á fót millidómstigi í sakamálum til að koma til móts við sjónarmið um réttláta málsmeðferð þannig að fullnægt yrði kröfum mannréttindasáttmála Evrópu um áfrýjun dóma í sakamálum.“ Töf varð á framkvæmdum þar til tekið var á þessu með fyrrnefndum lögum frá 2016 sbr. þessi orð greinargerðarinnar:
Annars vegar er upptöku millidómstigs ætlað að koma til móts við alþjóðlegar kröfur um milliliðalausa sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið að milliliðalaus sönnunarfærsla sé liður í réttlátri málsmeðferð skv. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst er að núverandi skipan mála uppfyllir tæplega ströngustu kröfur í þessum efnum.
Ég bið lesandann að taka vel eftir því að við erum ekki að sjá það í fyrsta sinn núna að MDE hafi áhrif á réttarkerfi Íslendinga; við sjáum að hann hefur tvisvar áður haft veruleg áhrif, í bæði skiptin í átt til nútíma mannréttinda og án þess að það hafi vakið verulegar deilur. Í greinargerðinni frá 2016 vísar innanríkisráðuneytið til þessara tveggja atriða með fullri velþóknun og þakklæti að því er best verður séð. Einnig er talað með velþóknun um sjálfstæði dómsvaldsins og skref tekin í þá átt í lögunum, til dæmis með því að draga úr valdi ráðherra við val á dómurum.
Ég dreg enga dul á að mér sýnast lögin frá 2016 hafa verið stórt skref í framfaraátt og þeim til sóma sem að þeim unnu. Þeim mun sárara þykir mér að sjá hvernig Sigríður Andersen og fleiri Sjálfstæðismenn hafa kosið að ganga gegn tilgangi þessara laga og haga málum eins og þau væru ekki til; þrískipting valdsins og sjálfstæði dómsstóla skipti þá engu máli. Maður gæti haldið að pólitískur andstæðingur þeirra hafi samið frumvarpið og lagt það fram? Eða eigum við frekar að hugsa okkur að þau hafi ekki skilið meginhugsun laganna?
En ráðherrann sem lagði fram frumvarpið um dómstólalög frá 2016 var einn af mikilhæfari stjórnmálamönnum okkar á þessari öld, Ólöf Nordal, sem lést fyrir aldur fram árið 2017. Hún var þingmaður 2007-2013 og 2016-2017, öflug í stjórnarandstöðu 2009-2012 og vann ötullega að góðum málum sem innanríkisráðherra 2014-2017, en dómsmál heyrðu þá undir hana. Einnig var hún varaformaður Sjálfstæðisflokksins 2010-2013 og 2015-2017. Dómstólalögin bera að mínu mati glöggt vitni um störf hennar og framsýni í ráðherrastól. Hugsunin á bak við þau er heil og nútímaleg – og laus við sérhagsmuni – og ég vona að stjórnmálamenn framtíðarinnar, hvar í flokki sem þeir standa, muni sýna þeim verðugan sóma í stað þess að leggja sig í framkróka við að sniðganga anda þeirra eins og við höfum því miður séð að undanförnu. Til dæmis er undarlegt að heyra forystumenn Sjálfstæðisflokksins lýsa vonbrigðum sínum með úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins núna í vikunni, en í honum felst einmitt skýr stuðningur við þessi lög sem flokkurinn átti einmitt mikinn hlut að fyrir fjórum árum. Ef ég væri Sjálfstæðismaður mundi ég þvert á móti fagna slíkum stuðningi við verk flokksins.
Ég gæti lagt út af þessu öllu í löngu máli en ég kýs heldur að láta lesandann eftir að átta sig á þeim hugsunum sem þessi saga vekur.
Höfundur er prófessor emeritus í eðlisfræði og vísindasögu við Háskóla Íslands.
---