Því verður ekki neitað að Ríkisútvarpið fæddist gamalt og var býsna gamaldags og stirðbusalegt í hugsun og framgöngu lengi framan af. Útvarpið mætti til leiks fyrir 90 árum með stýfðan flibba og hornspangargleraugu, vissulega upplitsdjarft og bjartsýnt í anda ungmennafélaganna, með einbeittan svip dálítið strangs en metnaðarfulls kennara af gamla þjóðlega skólanum. Allt var með hátíðlegum brag. Þulurinn flutti mál sitt eins og hann væri á útifundi eða í predikunarstól. „Menn með gölluðu eða leiðinlegu málfæri eiga alls ekki að fá að tala í útvarp,“ segir hreinlega í dagblaðinu Vísi 1. maí 1936.
Skortur á léttleika og smartness
Auðvitað tók það sinn tíma fyrir íslenska Ríkisútvarpið að skapa sinn stíl í þessu fámenna og einangraða samfélagi millistríðsáranna. En svo þegar þetta gamla barn var u.þ.b. að komast á legg var landið hernumið. Nútíminn var mættur. Hernámsliðið sendi sjálft út á ljósvakann og þar heyrðist annar tónn en fólk hér hafði vanist. Fyrstu nútímalegu, íslensku útvarpsmennirnir, mættu til leiks um það leyti og litu á útvarp sem sjálfstæðan frásagnarmiðil, ekki síst Pétur Pétursson, þulur, sem mörgum okkar þótti síðar holdgervingur alls þess gamla, íhaldssama og þvermóðskufulla sem tímabært væri að breyta.
En á stríðsárunum var Pétur þulur ungur maður í góðum tengslum við hræringar dagsins og vissi að Útvarpið þyrfti að vera liprara, alþýðlegra og áheyrilegra. Um íslenskt útvarp og breskt setuliðsútvarp segir í Alþýðublaðinu 5. ágúst 1941: „Það hefir ekki farið fram hjá fólki, að meiri hraði er yfir öllu útvarpi Bretanna hér en okkar eigin útvarpi. Útvarp þeirra þagnar svo að segja aldrei. Þeir til dæmis leika lag, þar til næsta atriði byrjar og hafa skemmtilegan blæ yfir öllu útvarpi sínu. Ég hefi líka tekið eftir því að nýju þulirnir, Pétur, sem alltaf er að verða æ vinsælli, og Broddi [Jóhannesson], hafa tekið upp á því að segja til dæmis: „Hér kemur síðasta lag fyrir fréttir.“ Þetta er ágætt. Þetta þarf aðeins að færast yfir á fleiri svið. Yfirleitt skortir útvarpið léttleika og „smartness,“ sem það getur hæglega tileinkað sér án nokkurrar fyrirhafnar.“
Svo kom Jón Múli Árnason með sinn slaka og aðlaðandi stíl og tengdi mannskapinn betur við samtímann með því sem best túlkaði hann - djassinum.
Talsamband við þjóðina
Þetta var auðvitað ekkert grín – að ná talsambandi við þjóðina í gegnum viðtækin, um einhvern ljósvaka, sem varla nokkur maður skyldi. Bylgjur í loftinu! Það höfðu ekki allir aðgang að útvarpstæki í byrjun og sendingar heyrðust misvel. Bifreiðastöð Reykjavíkur auglýsti raunar í Vísi tæpum þremur vikum fyrir fyrstu útsendingu Ríkisútvarpsins 20. desember 1930 að teknar hefðu verið í notkun nokkrar nýjar bifreiðar af Studebaker-gerð með viðtækjum. Farþegar gætu þá hlustað á útvarpsfréttir hvert sem þeir færu.
Hægt og bítandi festi Útvarpið sig í sessi og meðal þess vinsælasta voru fréttirnar. Til merkis um það var framtak stjórnenda Nýja Bíós á Siglufirði 1936. Í nóvember það ár var varpað á tjaldið þarna í síldarbænum myndinni „Vor í París“ en þess er getið í blaðaauglýsingu að til að bíógestir geti hlustað á útvarpsfréttir áður en þeir fari að heiman verði sýningum frestað um sinn um 10 mínútur, til 8.40.
Gróskutíma svörtu soul-tónlistarinnar var lokið, Bítlarnir löngu hættir, Stones komnir af léttasta skeiði, blómaskeið hippanna liðið, sýrurokkið gufað upp - sjálfur Elvis dauður - þegar loks varð til Rás 2.
Vandlætingarsemi um hlutleysi
Ríkisútvarpið er fætt á tímum þrenginga og þjóðfélagsátaka, vaxandi ríkisafskipta og miðstýringar, og það var ævinlega partur af því sem þurfti að hafa góða stjórn á. Mikil tök stjórnmálanna á Útvarpinu mörkuðu vegferð þess frá upphafi. Útvarpsráð var skipað varðhundum flokkanna og hafði það lengst af vald á því hverjir ráðnir væru til starfa og hvað flutt í Útvarpið. Pólitísk tök á Útvarpinu áttu vafalaust að tryggja jafnvægi í dagskránni og sæmilega sátt ólíkra afla en afskiptin drógu úr sköpunarkrafti og fagmennsku.
Frá fyrstu tíð hefur ýmsum þótt ómögulegt að trúa því að á Útvarpinu starfi fagfólk af heilindum. Útvarpið hefur ævinlega setið undir ásökunum um misbeitingu. Í nóvember 1936 svarar fyrsti útvarpsstjórinn, Jónas Þorbergsson, gagnrýni Alþýðublaðsins á útvarpsfréttirnar og vitnar í Nýja Dagblaðinu til orða framfaramannsins þingeyska Benedikts Jónssonar á Auðnum: „Þeir gerast vandlætingasamastir um hlutleysi útvarpsins, sem sjálfir þola ekki hlutleysi.“
Lengi sætti Fréttastofan miklum afskiptum af hálfu stjórnmálamanna. Fréttastjórar þurftu að sigla milli skers og báru, verja sitt fólk árásum. En fagmennska fór vaxandi með árunum. Nýjar kynslóðir vel menntaðra fréttamanna komu til starfa og mótuðu ný vinnubrögð og höfðu sjálfstæðari afstöðu til valdsins. Lengi þurftu umsækjendur um fréttamannsstarf að sæta rýni útvarpsráðsliða flokkanna og vonir um starf ultu á atkvæðum þeirra. Það kostaði átök við pólitíska valdið að breyta þessu.
Tilvistarumræðan endalausa
Þegar ræða á tilvist og framtíð Ríkisútvarpsins andvarpa líklega margir af tómum leiðindum enda hefur þessi umræða staðið sleitulítið í áratugi. Það væri nú ágæt afmælisgjöf til þjóðarútvarpsins að skapa sæmilega sátt um umfang og hlutverk þess. Um leið þarf að tryggja einkareknum fjölmiðlum lífvænlegri aðstæður til að þrífast. Þetta er liður í því að viðhalda og efla tungu og menningu og hluti baráttunnar fyrir upplýstara og réttlátara samfélagi.
Fjölmiðlaumhverfið hefur eins og flest annað auðvitað umturnast frá upphafsdögum Ríkisútvarpsins. Ný tækni hefur gjörbreytt möguleikum fólks til að nálgast fjölmiðlaefni. Um leið eiga íslenskir fjölmiðlar erfiðara með að fjármagna sig með áskriftar- og auglýsingatekjum. Alþjóðlegir samfélagsmiðlar og fréttaveitur gegna sífellt stærra hlutverki í lífi notanda en soga burt auglýsingatekjur án þess að renna á móti stoðum undir íslenska blaðamennsku og skapandi fjölmiðlastarf í landinu.
Það er Ríkisútvarpið-hljóðvarp sem verður nírætt nú í desember. Hljóðvarpið hefur ekki lengur sömu tök í þjóðlífinu og áður og gegnir ekki sama brýna hlutverkinu og fyrir daga netsins. Enn er hljóðvarpið þó mikilvægur fjölmiðill og áfram opnast nýjar leiðir, eins og með hlaðvarpinu, skilgetnu afkvæmi hljóðvarps og nets.
Kannski mætti vera meira af „léttleika og smartness“ í Ríkisútvarpinu, svo vitnað sé í löngu horfið Alþýðublaðið, frumflytja mætti meira en endurtaka minna, tengja það betur við uppvaxandi kynslóðir og fólkið í landinu, ekki síst við nýju Íslendingana sem kunna engin skil á Pétri þul eða Jóni Múla. Við fögnum því sem vel er gert og biðjum um meira. Til hamingju með afmælið!
Höfundur er fyrrverandi fréttastjóri RÚV, fréttamaður og dagskrárgerðarmaður, en starfar nú sem ráðgjafi.