Staða okkar er snúin. Að samfélaginu steðjar vandi í efnahags- og félagsmálum sem á rót að rekja til heimsfaraldursins og viðbragðanna við honum. Loks er útlit fyrir að unnt verði að hemja hann með bóluefnum á næsta ári, en þó varla að fullu fyrr en undir lok þess árs. Búsifjar hafa orðið miklar og verða enn. Engu að síður er ástæða til bjartsýni um framhaldið og tímabært að blása til sóknar.
Stjórnvöld hafa að mörgu leyti staðið sig vel og fengið til þess svigrúm á hinum pólitíska vettvangi. Ríkisstjórnin hefur hingað til notið fulls stuðnings stjórnarandstöðu til góðra verka og Alþingi greitt götu hennar. Það var sjálfsagt, einkum þegar hendur hennar voru fullar af flóknum, erfiðum og óvæntum viðfangsefnum. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki kosið þá leið að hafa stjórnarandstöðuna með í ráðum í aðgerðum og útfærslu þeirra. Á vettvangi þingsins hefur þó tekist að færa margt til betri vegar með heldur óvenjulegum hætti.
Ríkisstjórnin hefur beitt sér þannig á Alþingi að hafna með öllu hugmyndum og tillögum sem koma ekki úr hennar ranni. Þetta gerir hún þrátt fyrir að hafa í stjórnarsáttmála sínum lagt ríka áherslu á stöðu og hlutverk Alþingis og samvinnu við það. En ef henni hafa þóknast tillögur stjórnarandstöðunnar hefur hún stundað að leggja þær sjálf fram í kjölfar synjunar, lítt breyttar og í eigin nafni. Þetta er óþarfur tvíverknaður.
Tryggingagjald og áfengisgjald
Viðreisn hefur talað fyrir stórum skrefum og kraftmiklum aðgerðum strax til að gefa fyrirtækjum og rekstraraðilum von um að geta staðið óveðrið af sér. Á það er ekki hlustað. Síðastliðinn fimmtudag felldi stjórnarmeirihlutinn allar tillögur Viðreisnar um breytingar á einum af svokölluð bandormum sem fylgir fjárlögum.
Má nefna tillögu um að á næsta ári myndu fyrirtæki sem ráða til sín fólk af atvinnuleysisskrá fá helmingsafslátt af tryggingagjaldi. Ekki þarf að fjölyrða um þörfina á að liðka fyrir atvinnusköpun til að draga úr atvinnuleysi og ömurlegum áhrifum þess. Þess í stað ákvað stjórnarmeirihlutinn að hækka sóknargjöld sérstaklega, taldi það brýnna.
Þá var felld tillaga um að falla frá því að hækka áfengisgjald um 2,5%. Rekstrarerfiðleikar veitingageirans eru miklir, hvert sem litið er. Snar þáttur í rekstri flestra slíkra fyrirtækja er sala áfengis. Hækkun áfengisgjalds mun enn auka á þessa erfiðleika og draga úr getu þeirra til þess að þrauka áfram næstu misseri. Á því þurfa þau ekki að halda.
Nokkur stór skref Viðreisnar
Fjárlög eru enn óafgreidd ásamt fjölda mála sem varða viðbrögð við faraldrinum. Mörg þeirra þarf að afgreiða fyrir áramót en það er ekki sama hvernig það verður gert. Enn munum við í Viðreisn láta á það reyna að koma að mikilvægum breytingum og viðbótum.
Tillögur Viðreisnar eru markvissar og líklegar til þess að skila árangri til skamms og langs tíma. Þær eru blanda af nýrri uppbyggingu, örvun atvinnulífs, sókn gegn atvinnuleysi, aukinni kaupgetu, félagslegum stuðningi og bættri líðan.
Virðisaukaskattur lækkaður og 15.000 kr í ferðagjöf
Ferðaþjónustan og lista- og menningargeirinn hafa orðið fyrir meiri áföllum en flestir. Leggur Viðreisn því til að ný ferða-, lista- og menningargjöf verði veitt að fjárhæð 15.000 kr. sem gildi fram á haust 2021. Gjöfin verði fyrir alla sem eru 12 ára eða eldri. Með þessu verður í senn mikil örvun í þessum greinum og fólki gert auðveldara að ferðast og njóta listar og menningar af öllu tagi. Reynslan af núgildandi ferðagjöf hefur verið góð og sjálfsagt að nota þann farveg með enn meiri krafti en áður. Þannig er líklegt að innlend eftirspurn eftir þjónustu þessara aðila muni stóraukast og vega upp á móti því að fjöldi erlendra ferðamanna mun vaxa hægar en vonir stóðu til. Þá er augljóst að gjöfin mun koma mörgum vel, ekki síst þeim sem mega þola atvinnuleysi eða verulega tekjuskerðingu.
Það þarf þó að gera enn betur til þess að hleypa lífi í veitingageirann. Þess vegna leggur Viðreisn til að virðisaukaskattur verði lækkaður tímabundið í rekstri veitingahúsa úr 11% í 6%. Það hafa Þjóðverjar m.a. gert með góðum árangri. Lækkunin myndi gilda árið 2021.
Félagsleg þjónusta og andleg heilsa
Álag á félagsþjónustu sveitarfélaganna hefur vaxið mikið í faraldrinum og á eftir að vaxa enn meira, ekki síst vegna mikils atvinnuleysis. Sveitarfélögin þurfa aðstoð til þess að ráða við þetta stóra verkefni. Viðreisn leggur til að sveitarfélögin fái tvo milljarða á næsta ári til þess að koma til móts við stóraukinn kostnað. Framlaginu verði skipt hlutfallslega milli sveitarfélaga í samræmi við útlagðan kostnað þeirra við að veita íbúum þjónustu og aðstoð.
Alþingi hefur þegar samþykkt frumvarp Viðreisnar um að sálfræðimeðferð falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga og verði þannig veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta. Fjármagn til þessa verkefnis hefur hins vegar ekki enn verið tryggt og því verður lagt til að í fjárlögum næsta árs verði heimilt að veita allt að tveimur milljörðum til þessa verkefnis. Öllum er ljóst að þessi þjónusta er nauðsynlegur þáttur í að bæta lýðheilsu og líðan fjölda fólks. Ekki verður öðru trúað en stjórnin taki þessu vel enda var víðtækur stuðningur við frumvarp Viðreisnar úr öllum flokkum.
Nýsköpun og orkuskipti
Nú reynir á að leggja grunninn að fjölbreyttara atvinnulífi sem gerir okkur betur í stakk búin til að takast á við sveiflur, skapa verðmæt störf og stórauka verðmætan útflutning vöru og þjónustu. Rannsóknir og þróun eru forsenda þess. Þess vegna leggur Viðreisn til að framlög til Tækniþróunarsjóðs, Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs verði aukin um tvo milljarða á næsta ári. Þrátt fyrir ágæta viðleitni stjórnvalda í þessum efnum verður einfaldlega að gera enn betur. Í þessum efnum verður að hugsa stórt og djarft. Við eigum mörg nýleg dæmi um frábæran árangur á þessu sviði.
Orkuskipti eru nauðsynleg til þess að takast á við loftslagsvána. Þar eru fólgin mikil tækifæri til aukinnar nýtingar á innlendri hreinni orku með tilheyrandi gjaldeyrissparnaði. Þess vegna leggur Viðreisn til að uppbyggingu hleðslustöðva verði hraðað verulega með 500 milljóna auka framlagi.
Lokasprettur
Senn líður að jólum og hefst þá hefðbundinn handagangur í öskjunni í störfum Alþingis. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tugi lagafrumvarpa á síðustu dögum. Borin von er að þau nái fram að ganga - það vita allir.
Brýnt er að samþykkja fjárlög og lög sem hafa þann tilgang að samfélagið allt geti rétt sem hraðast úr kútnum eftir faraldurinn og hafið kröftuga sókn.
Viðreisn hefur lagt sig fram um að styðja við góð mál ríkisstjórnarinnar, veita uppbyggilegt aðhald og gagnrýni. Sömuleiðis hefur Viðreisn lagt fram margar hugmyndir og tillögur sem eru til þess fallnar að gera enn betur – taka stór skref.
Vonandi hefur ríkisstjórnin þrek til þess að skoða af alvöru tillögur Viðreisnar og gera að sínum. Því miður hræða sporin í þeim efnum.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.