Hvað er að gerast í toppstykkinu á Donald Trump? Þetta er spurning sem undirritaður og eflaust margir áhugamenn um bandarísk stjórnmál spyrja sig nánast á hverjum degi sem líður frá kjördeginum í bandarísku forsetakosningunum, sem fram fóru í byrjun nóvember síðastliðnum.
Það er bara einfaldlega eins og vitleysan ætli engan enda að taka. Það sést meðal annars á tístum forsetans á Twitter. Þetta er beinlínis átakanlegt að horfa á og orðspor Bandaríkjanna bíður hnekki.
Donald Trump er manneskja og manneskjur geta bilað, bæði líkamlega og andlega. Sjálfur kynntist undirritaður andlegu hliðinni sem vaktmaður á geðspítalanum Kleppi með háskólanámi í HÍ. Það var dýrmæt reynsla.
Nú telur undirritaður að toppstykkið á manninum í Hvíta húsinu sé eitthvað bilað og að húsbóndinn þar á bæ neiti að leita sér læknisaðstoðar.
Þið munið jú kannski að hann fékk kóvid hér um daginn, enda búinn að hegða sér eins og kjáni í sambandi við það, blaðrandi um útfjólubláa geislameðferð, innsprautun á sótthreinsandi efnum, þannig að læknismenntað fólk í kringum hann saup hveljur. Fáránleikinn var yfirgengilegur og í myndbandinu sést einnig vel hvað Trump er einfaldlega mikill dóni.
Við sínu eigin kóvid fékk hans svo hressilega stera-meðferð og þeir geta jú tjúnað mann svakalega upp og valdið allskyns aukaverkunum.
Tapaði með 7 milljóna atkvæða mun
Ekki veit greinarhöfundur hvort það er skýringin á súrrealískri hegðun Trumps undanfarið, en eftir að ljóst var að maðurinn sem hann var búinn að uppnefna vikum saman sem „Sleepy-Joe“ (Joe Biden), vann og það með yfir 7 milljóna atkvæða mun, þá hefur Trump hreinlega verið dýrvitlaus, já eins og naut í flagi.
Bæði hann, aðstoðarmenn hans og lögfræðingateymi hafa farið hamförum í allskyns ásökunum, svo stjarnfræðilega klikkuðum að maður hélt að þetta væri bara ekki hægt. Fyrir skömmu hélt Trump svo ræðu þar hann í næstum klukkutíma ruddi út úr sér allskyns tilhæfulausum fullyrðingum, en dómstólar hafa nánast hafnað öllum kærum hans, nú síðast Hæstiréttur, vegna mála í Pennsylvaníu. Þá hafa stuðningsmenn hans hótað embættismönnum ýmissa fylkja Bandaríkjanna, sumum beinlínis lífláti. Það er hegðun sem hefði þótt góð og gild á Ítalíu á þriðja áratug síðustu aldar, þar sem fasisminn var að fæðast.
Klikkaðir valdhafar
Það eru alveg til dæmi um valdhafa sem hafa klikkast, t.d. Georg III, konungur Bretlands, sem stjórnaði Bretlandi frá 1760-1801. Ástandi hans eru gerð skil í verðlaunakvikmyndinni The Madness of King George. Þá er næsta víst að bæði Neró og Calígúla fyrrum Rómarkeisarar og Ívan grimmi í Rússlandi voru illa bilaðir. Helstu alræðisherrar 20. aldarinnar voru sennilega líka með „atriði“ sem geðlæknar og sálfræðingar hefðu haft áhuga á.
Grefur undan lýðræðinu
Sumir segja að aðgerðir Trump miði að því að grafa undan lýðræðinu og lýðræðishefðum í Bandaríkjunum, nokkuð sem Bandaríkjamenn monta sig iðulega af. Eitt er víst að með hegðun sinni bætir hann ekki orðspor þessara hluta, eða orðspor sitt, nema kannski hjá helsta kjarna stuðningsmanna sinna. Þar með eykur hann enn frekar á þann klofning sem er til staðar í bandarísku samfélagi, sem var nægur fyrir og er eitt helsta vandamál landsins.
Sálrænt áfall?
Fyrir skömmu sýndi RÚV mjög áhugaverða þætti frá BBC, sem hægt er að mæla með, The Trump Show, þar sem farið var yfir forsetatíð Trumps, sem nú er vonandi á enda, en hann hefur samt gefið í skyn að hann ætli að bjóða sig fram aftur 2024. Hann ætlar því sennilega að reyna að jafna um fyrir þá niðurlægingu sem hann varð fyrir í byrjun nóvember, þegar hann tapaði fyrir sér eldri manni og manni sem hann greinilega reiknaði með að rúlla yfir í kosningunum. Það er engu líkara en að hann hafi orðið fyrir sálrænu áfalli.
Trump hefur tíst á Twitter eins og óður væri, en mikill fjöldi tístanna eru merkt sem beinar lygar eða að þau innihaldi staðhæfingar sem eru ekki staðfestar og eigi ekki við rök að styðjast. Þetta kemur frá æðsta valdhafa valdamesta ríkis heimsins, sem hefur logið nánast stanslaust eftir að hann tók við embætti. Hann vinnur greinilega eftir því lögmáli að ef þú endurtekur lygina nógu oft, þá verði hún að sannleika. En sem betur fer eru enn til í Bandaríkjunum góðir fjölmiðlar sem afhjúpa lygar forsetans.
Stórjók skuldir Bandaríkjanna
En hver er arfleifð Trumps, hvað skilur hann eftir sig? Hann skilur eftir sig illilega klofið land, enda hefur hann ekkert gert til þess að sameina Bandaríkjamenn, heldur þvert á móti. Þessi klofningsþróun var reyndar löngu byrjuð, en Trump hefur aðeins aukið hana.
Trump lofaði lækkun skatta og hann lækkaði skatta, það verður ekki af honum tekið. En á móti þá hefur Trump stóraukið skuldir Bandaríkjanna. Í framboði sínu árið 2016 lofaði hann því að hann myndi útrýma skuldum landsins á næstu átta árum.
Samkvæmt frétt í USA Today voru skuldir landsins árið 2016 um 20.000 milljarðar dollara,en október síðastliðnum voru skuldir landsins komnar í 27.000 milljarða dollara, sem er 35% hækkun.
Þá er hann sjálfsagt stoltur af því að hafa numið úr gildi um 800-1000 reglugerðir sem settar voru í forsetatíð Obama, en margar þeirra snúa að umhverfismálum. Þá er hann sjálfsagt stoltur af því að hafa náðað nokkra dæmda glæpamenn í kringum hann og von er á fleiri slíkum náðunum.
Undirritaður leyfir sér að fullyrða það að Donald Trump sé eitt mesta pólitíska stórslys Bandaríkjanna og í sögu landsins. Hann var einmitt sá forseti sem landið þurfti ekki, því ég held einfaldlega og mér sýnist að hann sé bara ekki góður maður. Hann er bæði illa innrættur og svo kann hann ekki mannasiði í þokkabót, er yfirgengilegur ruddi. Það verður frelsandi stund þegar við losnum við hann úr embætti þann 20. janúar næstkomandi. Vonandi hefur hann þroska til þess að fara af sjálfsdáðum.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og áhugamaður um bandarísk stjórnmál.