Vér óskum oss meiri kvóta

Benedikt Jóhannesson skrifar um grein formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um sig sem birtist nýverið í Morgunblaðinu.

Auglýsing

Einn laugardag í maí árið 2017 skein sól í heiði og allir voru glaðir á Siglufirði. Allur bærinn var mættur til að taka á móti Sólbergi ÓF, glæsilegu skipi, ísfisktogara með fullkominn fiskvinnslusal með fínustu tæki frá ýmsum tæknifyrirtækjum, bæði innan lands og utan. Á staðnum voru fjölmargir velunnarar og glöddust með bæjarbúum, meðal annarra ráðherrar og útgerðarmenn. 

Auðvitað voru ræður, stuttar og snarpar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra flutti ágæta ræðu og Ólafur Marteinsson, forstjóri Ramma hf., talaði líka stutt. Mér er minnisstætt að þegar gefa átti skipinu nafn brotnaði kampavínsflaskan ekki á stefni skipsins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Loks greip forstjórinn sjálfur inn í, kastaði flöskunni af krafti og þá brotnaði hún loks við fögnuð viðstaddra.

Varla hvarflaði það að nokkrum þá að skipið væri verðmætara en allt íbúðarhúsnæði á Ólafsfirði, heimabær Sólbergs ÓF. Ólafur kom því fyrst á framfæri við þjóðina í grein um mig, sem hann birti í Morgunblaðinu þriðjudaginn 8. desember.

Mér sýnist að í greininni sé ég nefndur á nafn tíu sinnum og auk þess vísað til mín níu sinnum sem „hann“, „honum“ eða „hans“. Ég er því aðalefnið í nánast hverri einustu setningu. Mér er auðvitað heiður að því. Sjaldnast ná menn svo háu hlutfalli í minningargreinum. 

Reyndar er tónninn heldur kuldalegri en í flestum eftirmælum, því höfundur tekur fram að „bak við grímuna er maður sem hirðir ekki um staðreyndir, beitir talnabrellum til þess að leiða upplýsta umræðu af vegi … þegar nánar er að gáð, ísmeygileg útgáfa af popúlista.“ Varla þarf að taka fram ísmeygilegi popúlistinn bakvið grímuna mun vera undirritaður.

Útgerðin á „hundrað Ólafsfirði“

Markmiðið með greininni, sem Ólafur Marteinsson skrifar undir sem formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), mun vera að reyna að hrekja stuttan pistil minn sem birtist nokkrum dögum áður í Morgunblaðinu. En svo mikið er kappið að lýsa því hvaða mann ég hafi að geyma að greinarhöfundur hrekur enga staðhæfingu í minni grein. Rekjum pistil SFS, lið fyrir lið. Greinin segir: „Benedikt fer í talnaleik „sem fæstir skilja“ eins og hann segir sjálfur.“ 

Auglýsing
Svar: Hér er farið rangt með. Ég sagði: „Til hvers er allur þessi talnaleikur sem skilar svo háum tölum að fæstir skilja þær vel? Jú, setjum þær í samband við gróða útgerðarmanna undanfarinn áratug.“ 

Glöggur lesandi áttar sig því á að hér er aðeins verið að setja geysistórar tölur, hagnað og arðgreiðslur til útgerðarmanna í áratug, í samband við önnur verðmæti og áþreifanlegri. Ólafur bætir svo um betur og sýnir fram á að eitt skip er mun verðmætara en öll íbúðarhús í 800 manna heimabyggð þess. Verðmæti hins glæsilega Sólbergs er aðeins um 1% af heildareignum útvegsmanna (heildareignum, ekki hreinni eign). Kann ég Ólafi hinar bestu þakkir fyrir að benda á að þær jafngilda meira en 100 búsældarlegum sjávarplássum. Almenningi er mikilvægt að fá skiljanlegan samanburð við ofurtölur í sjávarútvegi.

Talnaleikir og sleikipinnar

Í greininni segir: „Benedikt lætur í veðri vaka að hagnaður sé það sem eftir stendur þegar útgerðir hafa greitt bæði verksmiðjur og skipastól.“ Svo mikilvægt telur sá sem heldur um penna þetta vera að nokkrum línum neðar segir: „Benedikt veit líka vel að fjárfestingar eru gjaldfærðar á löngum tíma, en hann lætur samt í veðri vaka að þær séu gjaldfærðar í heild sinni við kaup.“

Svar: Hér snýr höfundur út úr orðum mínum: „Munum líka að hér erum við að tala um afkomuna eftir að tekið hefur verið tillit til þess að flestar útgerðir hafa endurnýjað skipastól sinn og verksmiðjur á sama tíma.“ Setningin er hárrétt. Það eru fleiri en Rammi hf. sem hafa endurnýjað skip af myndarskap. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 23 milljörðum króna að meðaltali undanfarin sex ár eða um 140 milljörðum króna alls. Á sex árum voru fjárfestingar í skipum, verksmiðjum og öðrum rekstrarfjármunum meiri en heildarverðmæti slíkra eigna útgerðanna voru í ársbyrjun 2014. Afskriftastofn stækkar og afskriftir aukast frá því sem áður var. Engum dettur í hug að lesendur Morgunblaðsins eða annarra íslenskra fjölmiðla haldi að kaup á skipi eða loðnuverksmiðju séu eins og sleikipinni sem hverfi úr öllu bókhaldi daginn sem þau eru afgreidd.

Ein rétt fullyrðing og margar rangar

Í greinargerð SFS kemur fram að ég hef setið í stjórnum margra fyrirtækja. Það er rétt, og nánast það eina rétta í greininni. Strax í kjölfarið koma tvær rangar setningar: „Benedikt … er því vel ljóst að arðgreiðslur í sjávarútvegi eru ekki umfram það sem almennt gerist í atvinnulífinu. Hann veit líka vel að arðsemi eiginfjár í sjávarútvegi er minni en gengur og gerist meðal félaga sem skráð eru í Kauphöllinni.“

Svar: Ræðum arðgreiðslur. Vissulega er erfitt að bera saman hlutföll milli atvinnugreina, en tökum tölur Hagstofunnar um arð og hagnað, annars vegar í sjávarútvegi og hins vegar í viðskiptahagkerfinu að undanskilinni lyfjaframleiðslu, sorphirðu, fjármála- og vátryggingastarfsemi og sjávarútvegi. Við getum borið saman tölur úr ársreikningum árin 2014-18 (sem eru nýjustu tölur úr ársreikningum á vef Hagstofunnar).

Hvort sem litið er á arð eða hagnað eru tölurnar mun hærri hjá sjávarútveginum þessi fimm ár.

Seinni fullyrðing SFS um að arðsemi eiginfjár sé minni í sjávarútvegi hjá félögum í Kauphöllinni er sérstæð. Tökum samanlagðan hagnað félaga í Kauphöllinni að Brimi, eina skráða sjávarútvegsfyrirtækinu, slepptu. Niðurstaðan er í þessari töflu:

Taflan sýnir að fullyrðingin er bæði sérstæð og röng. Verð á Brimi í Kauphöllinni gefur til kynna að heildarverðmæti útgerðarinnar, reiknað út frá hagnaði, sé á bilinu 600 til 850 milljarðar króna.

Og svo nokkrar skrítnar setningar í lokin

Enn heldur sá sem skrifar áfram: „Sjávarútvegur er fjármagnsfrek atvinnugrein og til þess að standa undir þeirri kröfu sem til hennar eru gerðar þarf hún að hafa meira eigið fé en flestar aðrar atvinnugreinar á Íslandi. Meðal annars þess vegna er arðsemi eiginfjár minni í sjávarútvegi en í mörgum öðrum atvinnugreinum sem ekki þurfa að binda eins mikið fé í rekstri sínum. Allt þetta veit Benedikt.“

Hér er Benedikt eignuð ýmis kunnátta, sem virðist byggja á einhvers konar hliðstæðum vísindum, óháð staðreyndum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eiga sjávarútvegsfyrirtæki hluti í öðrum félögum fyrir hátt á annað hundrað milljarða króna. Til dæmis á Rammi ehf. ekki bara Sólberg Ólafsfjarðarjafna, heldur einnig tæplega 7% hlut í Árvakri, þekktu fjölmiðlafyrirtæki. Ég skil að í sjávarútveg þurfi skip og vinnslu, en hlutabréf? Ég hef verið fjarverandi þegar það var kennt.

Líklega eru fáar atvinnugreinar sem búa við það öryggi sem útgerðin hefur notið eftir að kvótakerfinu var komið á. Einmitt á sjávarútvegsdeginum er brugðið ljósi á þetta með snjallri mynd Jónasar Gests Jónassonar löggilts endurskoðanda hjá Deloitte, sem sýnir hvernig svonefnd EBIDTA-framlegð hefur þróast allt frá 1979 til 2019. Eins og glæran sýnir er hún á uppleið. Ég man þá tíð þegar útgerðir kepptu að því að ná 20% EBIDTA-framlegð. Undanfarin ár hefur hún oftast verið miklu hærri og var 26% í fyrra. Kosturinn við að horfa á slíka stærð yfir langt tímabil er að hún er óháðari fjármögnun og fjárfestingum en hagnaður ársins og hentar því til samanburðar.Heimild: Deloitte á sjávarútvegsdegi SFS 2020.

Engin mynd sýnir betur hagræðið af kvótakerfinu, þegar sameiginleg auðlind þjóðarinnar var sett undir stífa stjórn og vernd. Kvótakerfið er gott, en ósanngirnin felst í einokunaraðstöðu útgerðarmanna í lokuðu kerfi. 

Aldrei verður sátt um kerfið fyrr en auðlindagjaldið, aðgöngumiðinn að miðunum, verður markaðstengt. Oft mun markaðtenging eflaust skila meiri tekjum en nú, ef á móti blæs kannski minni tekjum einhver ár. Því munu útgerðarmenn ráða sjálfir, því þeir mynda eftirspurnina.

Auglýsing
Líklega er einkennilegasta fullyrðingin í greinargerð SFS: „Það er líklega af ráðnum hug að hann notar alltaf orðið útgerðarmenn í stað sjávarútvegsfyrirtækja, enda er það í takt við skrumskælingu hans um að sjávarútvegur hafi að geyma örfáa einstaklinga sem maka krókinn. Það er auðvitað fjarri sanni.“ 

Hið ágæta félag Ólafs, Rammi hf., er ellefta stærsta útgerð landsins með um 3,5% kvótahlutdeild. Þar eiga tíu einstaklingar meira en 90% hlutafjár. Engum dettur í hug annað en að þeir séu allir óskyldir. Sumir starfsmenn SFS hafa skamma starfsreynslu, en ég veit að Ólafur Marteinsson man það vel að forveri SFS var LÍÚ, Landssamband íslenskra útvegsmanna. Þá voru menn stoltir af því að vera útgerðarmenn. 

Ekkert af þessu er samt aðalatriðið, heldur hitt, að gæðum þjóðarinnar er deilt á undirverði til lokaðs hóps. Um það verður aldrei sátt.

Kjarni málsins

Svo einkennilegt sem það er kom grein SFS aldrei að aðalatriðinu í grein minni: „Vandinn felst í því að útgerðarmenn eru í einokunaraðstöðu í lokuðu kerfi. Enginn fær að nýta fiskimiðin, sameign þjóðarinnar að lögum, nema tiltekin útgerðarfélög. Enginn unnandi frjálsrar samkeppni ver einokunarhagnað.

Eftir að greinar mínar um þetta mikla óréttlæti birtast fæ ég stundum símtöl, pósta eða orðsendingar með ónotum í minn garð. Ég ali á öfund og illvilja í garð greinarinnar. Ekkert er fjær sanni. Ég vil einfaldlega að þjóðin fái sinn sanngjarna skerf. Sátt skapast fyrst þegar auðlindagjald ræðst á markaði. 

Allt sem við viljum er sanngirni.“

Sama dag og grein SFS birtist skrifar Þröstur Ólafsson hagfræðingur grein um kvótakerfið í Morgunblaðið. Hann orðar sömu hugsun svona: „Frjálst framsal veiðiheimilda umturnaði aðstæðum í sjávarplássum, ef aflaheimildir voru seldar burtu. Nýir tímar voru í fæðingu. Því má ekki gleyma að þetta nýja kerfi skapar mikinn auð og er mjög hagkvæmt, því útgerðirnar þurfa ekki lengur að keppa með ærnum tilkostnaði um takmarkaðan afla. Aflaheimildir eru skýrar. Við það lágmarka útgerðirnar sóknarkostnað sinn. 

Kvótakerfið var einnig upphaf að hnattvæðingu sjávarútvegsins, bæði með eignarhaldi í erlendum útgerðum en líka með ógagnsæjum og flóknum söluferlum íslensks fisks út um heim. Þessu til viðbótar fengu útgerðirnar afhentan nýtingarréttinn án þess að þurfa að greiða eðlilegt gjald fyrir afnotin. Það er óþarfi að geta þess að almenna reglan er sú, að greiða þarf fyrir afnot af annarra eign, en fiskimiðin eru samkvæmt lögum eign íslensku þjóðarinnar.“

Útgerðarmenn og samtök þeirra hafa hin seinni ár valið að vera stöðugt í stríði við þjóðina, sem vill sanngjarnt auðlindagjald. Í stað þess að skattyrðast við þá sem vilja nýta kosti frjáls og opins markaðar, ætti þetta ágæta fólk að slíðra sverðin og taka þátt í því að skapa sanngjarnt kerfi sem sátt getur ríkt um til frambúðar.

Höfundur er fyrrverandi formaður Viðreisnar og fjármála- og efnahagsráðherra.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar