Mynd: Bára Huld Beck

Eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa fengið rúmlega 100 milljarða í arð á innan við áratug

Á tíu ára tímabili vænkaðist hagur sjávarútvegsfyrirtækja um tæplega 500 milljarða króna. Á sama tímabili hafa þau greitt um 70 milljarða króna í veiðigjöld. Eigið fé geirans var 297 milljarðar króna í lok árs 2018. Til viðbótar högnuðust þau um 43 milljarða króna í fyrra.

Íslensk sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki högn­uð­ust um 43 millj­arða króna á árinu 2019. Það er um 60 pró­sent meiri hagn­aður en var af rekstri þeirra árið á undan þegar hann var 27 millj­arðar króna. Alls nemur hagn­aður fyr­ir­tækj­anna 197 millj­örðum króna á fimm ára tíma­bili, frá byrjun árs 2015 og út síð­asta ár. Á sama tíma hafa þau greitt 43 millj­arða króna í tekju­skatt. 

Frá hruni nemur sam­an­lagður hagn­aður sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja 439 millj­örðum króna.

Reikn­aður tekju­skattur þeirra hækk­aði um 50 pró­sent milli ára og var níu millj­arðar króna í stað sex. Veiði­gjöld lækk­uðu hins vegar umtals­vert á milli ára og voru 6,6 millj­arðar króna, sem er 4,7 millj­örðum króna minna en þau voru árið áður.

Þetta kemur fram í Sjáv­ar­út­vegs­gagna­grunni Deloitte fyrir árið 2018 sem kynntur var á Sjáv­ar­út­vegs­deg­inum 2020 sem fór fram í morg­un. Gagna­grunn­ur­inn inni­heldur rekstr­ar­upp­lýs­ingar úr 89 pró­sent sjáv­ar­út­vegs­geirans en fjár­hæð­irnar sem settar eru fram í honum hafa verið upp­reikn­aðar til að end­ur­spegla 100 pró­sent hans. 

Auglýsing

Sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækin áttu eigið fé upp á 297 millj­arða króna í lok árs 2018. Frá hruni og fram að þeim tíma batn­aði eig­in­fjár­staða sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna um 376 millj­arða króna, en hún var nei­kvæð í lok árs 2008.

Alls greiddu fyr­ir­tækin sér arð upp á 10,3 millj­arða króna í fyrra. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 103,2 millj­arða króna til eig­enda sinna í arð­greiðsl­ur. Hagur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna hefur því vænkast um 479,2 millj­arða króna frá hruni.

Tekjur voru 280 millj­arðar

Í gagna­grunn­inum kemur fram að tekjur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna hafi vaxið um 33 millj­arða króna milli ára og verið 280 millj­arðar króna í fyrra. Þær hafa aldrei áður verið jafn mikl­ar. 

EBID­TA-hagn­aður þeirra, hagn­aður fyrir afskrift­ir, fjár­magns­gjöld og skatta, var 73 millj­arðar króna og jókst um 20 millj­arða króna. End­an­legur hagn­aður var, líkt og áður sagði 43 millj­arðar króna. 

Stærsta sjávarútvegssamsteypa landsins er Samherji. Þorsteinn Már Baldvinsson er annar forstjóri hennar.
Mynd: Samherji

Skuldir geirans hækk­uðu á milli ára í 415 millj­arða króna en þegar skuld­irnar eru reikn­aðar sem hlut­fall á móti EBIT­DA-hagn­aði lækka þær. Ný lang­tíma­lán umfram afborg­anir námu 15 millj­örðum króna. 

Þetta má að hluta rekja til þess að fjár­fest­ingar í sjáv­ar­út­vegi juk­ust milli ára. Þær námu 25 millj­örðum króna í fyrra en voru 18 millj­arðar króna árið áður. 

Veiði­gjöld lækk­uðu umtals­vert

Veiði­gjöld voru 6,6 millj­arðar króna í fyrra, sem er 4,7 millj­örðum krónum minna en þau voru árið 2018. Sam­tals frá árinu 2011, og út síð­asta ár, greiddi sjáv­ar­út­veg­ur­inn 69,9 millj­arða króna í veiði­gjöld. 

Áætlað er að veiði­gjöldin muni hækka á þessu ári sam­kvæmt því sem kom fram í kynn­ingu á sjáv­ar­út­vegs­gagna­grunn­in­um. 

Auglýsing

Ný lög um veið­i­­­gjald tóku gildi í byrjun árs 2019 þar sem meðal ann­­ars var settur nýr reikni­stofn sem bygg­ist á afkomu við veiðar hvers nytja­­stofns. Sam­kvæmt þeim er veið­i­­gjaldið nú ákveðið fyrir alm­an­aksár í stað fisk­veið­i­­ár­s. 

Bein opin­ber gjöld sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja sem gagna­grunnur Deloitte nær yfir voru 19,4 millj­arðar króna í fyrra að veiði­gjöld­unum með­töld­um. Það er tveimur millj­örðum krónum minna en árið 2018.

Þrjár blokkir halda á 43 pró­sent af kvóta

Í lok mars síð­ast­lið­ins héldu tíu stærstu útgerðir lands­ins á tæp­­lega 53 pró­­sent af úthlut­uðum kvóta, sam­kvæmt sam­an­tekt Fiski­stofu. Innan þessa hóps eru aðilar sem eru tengdir þótt þeir séu það ekki sam­­kvæmt lögum um fisk­veið­­ar. Brim, Sam­herji og Kaup­­fé­lag Skag­­firð­inga eru fyr­ir­­ferða­­mestu útgerð­irn­­ar. Þær halda á, einar og sér og ásamt félögum sem eig­endur þeirra eiga í, á tæp­­lega 43 pró­­sent af öllum úthlut­uðum kvóta. 

Litlar breyt­ingar hafa verið á umfangi kvóta þeirra stóru útgerð­­ar­hópa sem tengj­­ast inn­­­byrðis án þess þó að verða tengdir aðilar sam­­kvæmt lög­­­um. Þannig er Brim sú útgerð sem heldur á mestum kvóta, eða 10,13 pró­­sent. Útgerð­­ar­­fé­lag Reykja­vík­­­ur, sem á 43,97 pró­­sent hlut í Brim beint og í gegnum dótt­­ur­­fé­lag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,51 pró­­sent af öllum afla­heim­ild­­um. Útgerð­­ar­­fé­lag Reykja­víkur er að upp­i­­­stöðu í eigu Guð­­mundar Krist­jáns­­son­­ar, fyrr­ver­andi for­­stjóra og stjórn­­­ar­­manns í Brim­­i. 

Til við­­bótar heldur útgerð­­ar­­fé­lagið Ögur­vík, að fullu í eigu Brims, á 1,55 pró­­sent af úthlut­uðum kvóta. Þessi þrjú félög eru því með 15,19 pró­­sent af úthlut­uðum kvóta. 

Sam­herji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Sam­herja hf, er með næst mesta afla­hlut­­deild í íslenskri efna­hags­lög­sögu allra sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja á Íslandi, eða 7,02 pró­­sent. ­Út­­­gerð­­­­­­ar­­­­­­fé­lag Akur­eyr­­­­­­ar, sem er líka í 100 pró­­­­­­sent eigu Sam­herja, heldur svo á 1,3 pró­­­­­­sent kvót­ans og Sæból fjár­­­­­­­­­­­fest­inga­­­­­­fé­lag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 pró­­­­­­sent hans. Síld­­­­­­ar­vinnslan, sem Sam­herji á beint og óbeint 49,9 pró­­sent hlut í, er svo með 5,2 pró­­sent afla­hlut­­deild og Berg­­ur-Hug­inn, í eigu Síld­­ar­vinnsl­unn­­ar, er með 2,3 pró­­sent af heild­­ar­kvóta til umráða. Auk þess á Síld­ar­vinnslan 75,20 pró­sent hlut í Run­ólfi Hall­freðs­syni ehf., sem heldur á 0,62 pró­sent af úthlut­uðum kvóta. Sam­an­lagt er þessi blokk að minnsta kosti 17,1 pró­­sent afla­hlut­­deild. 

Auglýsing

Kaup­­­­­fé­lag Skag­­­­­firð­inga á FISK ­Seafood, sem heldur á 5,5 pró­­­­­sent heild­­­­­ar­kvót­ans. FISK á 32,9 pró­­­­­sent í Vinnslu­­­­­stöð­inni í Vest­­­­­manna­eyjum sem er með 4,5 pró­­sent heild­­­­­ar­afla­hlut­­­­­deild. Þá á Vinnslu­­stöðin 48 pró­­sent hlut í útgerð­­ar­­fé­lag­inu Hug­inn í Vest­­manna­eyj­um, sem heldur á 0,76 pró­­sent af útgefnum kvóta.

FISK á til við­­bótar allt hlutafé í Soff­an­­­­­ías Cecils­­­­­son, en það fyr­ir­tæki heldur á um 0,3 pró­­­­­sent kvót­ans. Sam­tals nemur heild­­­­­ar­kvóti þess­­­­­ara þriggja rétt yfir ell­efu pró­­sent, og er því undir 12 pró­­­­­sent mark­inu þótt þeir yrðu skil­­­­­greindir með öðrum hætti.

Sam­an­lagt eru þessir þrír hópar með yfir­­ráð yfir rúm­lega 43 pró­­sent af öllum úthlut­uðum kvóta á Ísland­i.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar