Mynd: Bára Huld Beck

Eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa fengið rúmlega 100 milljarða í arð á innan við áratug

Á tíu ára tímabili vænkaðist hagur sjávarútvegsfyrirtækja um tæplega 500 milljarða króna. Á sama tímabili hafa þau greitt um 70 milljarða króna í veiðigjöld. Eigið fé geirans var 297 milljarðar króna í lok árs 2018. Til viðbótar högnuðust þau um 43 milljarða króna í fyrra.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki högnuðust um 43 milljarða króna á árinu 2019. Það er um 60 prósent meiri hagnaður en var af rekstri þeirra árið á undan þegar hann var 27 milljarðar króna. Alls nemur hagnaður fyrirtækjanna 197 milljörðum króna á fimm ára tímabili, frá byrjun árs 2015 og út síðasta ár. Á sama tíma hafa þau greitt 43 milljarða króna í tekjuskatt. 

Frá hruni nemur samanlagður hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja 439 milljörðum króna.

Reiknaður tekjuskattur þeirra hækkaði um 50 prósent milli ára og var níu milljarðar króna í stað sex. Veiðigjöld lækkuðu hins vegar umtalsvert á milli ára og voru 6,6 milljarðar króna, sem er 4,7 milljörðum króna minna en þau voru árið áður.

Þetta kemur fram í Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte fyrir árið 2018 sem kynntur var á Sjávarútvegsdeginum 2020 sem fór fram í morgun. Gagnagrunnurinn inniheldur rekstrarupplýsingar úr 89 prósent sjávarútvegsgeirans en fjárhæðirnar sem settar eru fram í honum hafa verið uppreiknaðar til að endurspegla 100 prósent hans. 

Auglýsing

Sjávarútvegsfyrirtækin áttu eigið fé upp á 297 milljarða króna í lok árs 2018. Frá hruni og fram að þeim tíma batnaði eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna um 376 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008.

Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 10,3 milljarða króna í fyrra. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 103,2 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur því vænkast um 479,2 milljarða króna frá hruni.

Tekjur voru 280 milljarðar

Í gagnagrunninum kemur fram að tekjur sjávarútvegsfyrirtækjanna hafi vaxið um 33 milljarða króna milli ára og verið 280 milljarðar króna í fyrra. Þær hafa aldrei áður verið jafn miklar. 

EBIDTA-hagnaður þeirra, hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta, var 73 milljarðar króna og jókst um 20 milljarða króna. Endanlegur hagnaður var, líkt og áður sagði 43 milljarðar króna. 

Stærsta sjávarútvegssamsteypa landsins er Samherji. Þorsteinn Már Baldvinsson er annar forstjóri hennar.
Mynd: Samherji

Skuldir geirans hækkuðu á milli ára í 415 milljarða króna en þegar skuldirnar eru reiknaðar sem hlutfall á móti EBITDA-hagnaði lækka þær. Ný langtímalán umfram afborganir námu 15 milljörðum króna. 

Þetta má að hluta rekja til þess að fjárfestingar í sjávarútvegi jukust milli ára. Þær námu 25 milljörðum króna í fyrra en voru 18 milljarðar króna árið áður. 

Veiðigjöld lækkuðu umtalsvert

Veiðigjöld voru 6,6 milljarðar króna í fyrra, sem er 4,7 milljörðum krónum minna en þau voru árið 2018. Samtals frá árinu 2011, og út síðasta ár, greiddi sjávarútvegurinn 69,9 milljarða króna í veiðigjöld. 

Áætlað er að veiðigjöldin muni hækka á þessu ári samkvæmt því sem kom fram í kynningu á sjávarútvegsgagnagrunninum. 

Auglýsing

Ný lög um veiði­gjald tóku gildi í byrjun árs 2019 þar sem meðal ann­ars var settur nýr reiknistofn sem bygg­ist á afkomu við veiðar hvers nytja­stofns. Samkvæmt þeim er veiði­gjaldið nú ákveðið fyrir alm­an­aksár í stað fisk­veiði­ár­s. 

Bein opinber gjöld sjávarútvegsfyrirtækja sem gagnagrunnur Deloitte nær yfir voru 19,4 milljarðar króna í fyrra að veiðigjöldunum meðtöldum. Það er tveimur milljörðum krónum minna en árið 2018.

Þrjár blokkir halda á 43 prósent af kvóta

Í lok mars síðastliðins héldu tíu stærstu útgerðir lands­ins á tæp­lega 53 pró­sent af úthlut­uðum kvóta, samkvæmt samantekt Fiskistofu. Innan þessa hóps eru aðilar sem eru tengdir þótt þeir séu það ekki sam­kvæmt lögum um fisk­veið­ar. Brim, Sam­herji og Kaup­fé­lag Skag­firð­inga eru fyr­ir­ferða­mestu útgerð­irn­ar. Þær halda á, einar og sér og ásamt félögum sem eig­endur þeirra eiga í, á tæp­lega 43 pró­sent af öllum úthlut­uðum kvóta. 

Litlar breyt­ingar hafa verið á umfangi kvóta þeirra stóru útgerð­ar­hópa sem tengj­ast inn­byrðis án þess þó að verða tengdir aðilar sam­kvæmt lög­um. Þannig er Brim sú útgerð sem heldur á mestum kvóta, eða 10,13 pró­sent. Útgerð­ar­fé­lag Reykja­vík­ur, sem á 43,97 pró­sent hlut í Brim beint og í gegnum dótt­ur­fé­lag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,51 pró­sent af öllum afla­heim­ild­um. Útgerð­ar­fé­lag Reykja­víkur er að uppi­stöðu í eigu Guð­mundar Krist­jáns­son­ar, fyrrverandi for­stjóra og stjórn­ar­manns í Brim­i. 

Til við­bótar heldur útgerð­ar­fé­lagið Ögur­vík, að fullu í eigu Brims, á 1,55 pró­sent af úthlut­uðum kvóta. Þessi þrjú félög eru því með 15,19 pró­sent af úthlut­uðum kvóta. 

Sam­herji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja hf, er með næst mesta afla­hlut­deild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,02 pró­sent. ­Út­gerð­­­­­ar­­­­­fé­lag Akur­eyr­­­­­ar, sem er líka í 100 pró­­­­­sent eigu Sam­herja, heldur svo á 1,3 pró­­­­­sent kvót­ans og Sæból fjár­­­­­­­­­fest­inga­­­­­fé­lag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 pró­­­­­sent hans. Síld­­­­­ar­vinnslan, sem Sam­herji á beint og óbeint 49,9 pró­sent hlut í, er svo með 5,2 pró­sent afla­hlut­deild og Berg­ur-Hug­inn, í eigu Síld­ar­vinnsl­unn­ar, er með 2,3 pró­sent af heild­ar­kvóta til umráða. Auk þess á Síldarvinnslan 75,20 prósent hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf., sem heldur á 0,62 prósent af úthlutuðum kvóta. Sam­an­lagt er þessi blokk að minnsta kosti 17,1 pró­sent afla­hlut­deild. 

Auglýsing

Kaup­­­­fé­lag Skag­­­­firð­inga á FISK Seafood, sem heldur á 5,5 pró­­­­sent heild­­­­ar­kvót­ans. FISK á 32,9 pró­­­­sent í Vinnslu­­­­stöð­inni í Vest­­­­manna­eyjum sem er með 4,5 pró­sent heild­­­­ar­afla­hlut­­­­deild. Þá á Vinnslu­stöðin 48 pró­sent hlut í útgerð­ar­fé­lag­inu Hug­inn í Vest­manna­eyj­um, sem heldur á 0,76 pró­sent af útgefnum kvóta.

FISK á til við­bótar allt hlutafé í Soff­an­­­­ías Cecils­­­­son, en það fyr­ir­tæki heldur á um 0,3 pró­­­­sent kvót­ans. Sam­tals nemur heild­­­­ar­kvóti þess­­­­ara þriggja rétt yfir ell­efu pró­sent, og er því undir 12 pró­­­­sent mark­inu þótt þeir yrðu skil­­­­greindir með öðrum hætti.

Sam­an­lagt eru þessir þrír hópar með yfir­ráð yfir rúmlega 43 pró­sent af öllum úthlut­uðum kvóta á Ísland­i.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar