Á síðustu árum hefur mikið verið talað um nauðsyn þess að á Íslandi byggist upp fleiri stoðir undir hagkerfið og ljóst að menntakerfið gegnir þar lykilhlutverki. Tölvuleikjahönnun er mörgum ofarlega í huga enda mikill vöxtur í tölvuleikjagerð hér á landi og um allan heim.
Fyrir skömmu fór fram áhugaverð ráðstefna um tölvuleikjaiðnaðinn sem haldin var á vegum Félags viðskipta- og hagfræðinga. Vignir Örn Guðmundsson frá tölvuleikjaframleiðandanum CCP fór þar yfir helstu atriðin úr skýrslu um stöðu og framtíðarhorfur íslensks tölvuleikjaiðnaðar. Í máli hans kom fram að 95% af tekjum iðnaðarins eru gjaldeyristekjur og um 380 manns starfa nú í fullu starfi hér á landi í tölvuleikjagerð, þar af um 86 konur. Mjög fjölbreyttur hópur starfar í iðnaðinum allt frá forriturum yfir í hönnuði og lögfræðinga. Það endurspeglar ekki síst margbreytileika þeirra starfa sem sinna þarf við hönnun og gerð tölvuleikja auk uppbyggingu fyrirtækja í kringum þá.
Fjárfesting til framtíðar
Góður stuðningur frá tækniþróunarsjóði er greininni mikilvægur enda mörg þeirra félaga sem hafa náð að festa sig í sessi sprotafyrirtæki sem vaxa upp með stuðningi sem slíkum. Mikil fjárfesting hefur átt sér stað á undanförnum árum í tölvuleikjagerð og sýna sviðsmyndir verulega aukningu starfsfólks ef fram heldur sem horfir.
Þörf fyrir innlenda og erlenda sérfræðinga er því staðreynd enda óx iðnaðurinn þrátt fyrir kreppuna 2008 og gerir áfram ráð fyrir vexti þrátt fyrir núverandi COVID niðursveiflu. Tölvuleikjagerð stendur því vel af sér efnahagslægðir sem ætti að auka traust á framtíð hennar hér á landi.
Menntakerfið mæti þörfum atvinnulífsins
Menntaskóli Keilis á Ásbrú var sérstaklega nefndur sem mikilvægur hlekkur í þeirri vegferð, en samstarfið við iðnaðinn hefur einmitt eflt starf skólans og veitt nemendum góða innsýn inn í framtíðarmöguleika í greininni og almennt í hugverkaiðnaði.
Nemendur upplifa það hvernig færnin sem þeir vinna að í stúdentsnámi sínu nýtist þeim í atvinnulífinu og eflir sjálfstraust þess unga fólks sem er að leggja línurnar að eigin framtíð. Menntakerfið verður að mæta þörfum atvinnulífsins enda er tölvuleikjagerð alvöru iðnaður sem kallar á alvöru nám og þekkingu á mjög víðum grunni.
Fyrsti árgangur nemenda í stúdentsnámi með sérhæfingu í tölvuleikjagerð hóf nám við Keili á haustönn 2019 og leggja nú á sjöunda tug nemenda stund á tölvuleikjagerð við Menntaskólann á Ásbrú. Við hjá Keili höfum lagt mikið upp úr samstarfi við atvinnulífið og leitast við að mæta áherslum og þörfum í síbreytilegu samfélagi 21. aldarinnar. Framsýni og sterkt innsæi hvað varðar nútímalegar leiðir og námsframboð sem mætir framtíðarþörfum, verður því ávallt að vera leiðarstef í starfi Keilis sem miðstöðvar vísinda fræða og atvinnulífs.
Nanna Kristjana Traustadóttir er skólameistari Menntaskólans á Ásbrú og Jóhann Friðrik Friðriksson er framkvæmdastjóri Keilis.