Í umræðum um atvinnuleysisbætur kom fram að fjármálaráðherra taldi ekki rétt að hækka þær. Síðan tilkynnti ríkisstjórnin að áformað væri að hækka þær um 2,5%. Nú síðast liggur fyrir ákvörðun í reglugerð um að þær hækki um 3,6% og verði kr. 307. 403.- á mánuði frá 1. janúar óskertar. Það ber að þakka.
Samkvæmt lífskjarasamningum eiga öll laun að hækka 1. janúar 2021 um kr. 15.750.- En hvaða ákvarðanir liggja fyrir um hækkun bóta til eldri borgara og öryrkja á árinu 2021? Samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar segir þar, að bætur „skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.”
Samkvæmt fjárlagatillögum fyrir árið 2021 hækka bætur almannatrygginga ekki samkvæmt þessari lagagrein og taka ekki mið af lífskjarasamningnum um krónutöluhækkun 1. janúar 2021.
Kjarakrafa LEB
Landssamband eldri borgara (LEB) auglýsti kjarakröfu sína með eftirfarandi auglýsingu: „Alþingismenn farið að lögum! Hækkið ellilífeyri um 15.750 kr.” Spyrja má: Hvaða lögum og hvers vegna nákvæmlega þessa hækkun? Eru það lögin um að ellilífeyrir hækki í samræmi við hækkun launa árlega 1. janúar? Hvaða ár er þá miðað við? Þar sem launavísitala eða önnur tilbúin vísitala fyrir árið 2020 liggur ekki fyrir 1. janúar 2021, þá er líklega miðað við óskilgreinda vísitölu ársins 2019, sem hefur verið ákveðin að sé 3,6%, sem hækki þá grunnbætur ellilífeyris, sem er kr 256.789.- um kr. 9.244.- á mánuði. Áður hafði ríkisstjórnin tilkynnt að ellilífeyrir myndi hækka í samræmi við aðrar hækkanir til viðbótar um 2.5%, eða samtals sömu upphæð og LEB bað um í auglýsingu sinni, að ellilífeyririnn skyldi hækka um 6,1% í kr. 272.539.- án skerðinga 1. janúar 2021!
Hefði ekki átta að krefjast þess, að ellilífeyrir myndi hækka til samræmis við hækkun launa 2019 og 2020, sem er áætlað að hafi verið um 17% eða um kr. 43.654.- á mánuði óskert, til um 12 þúsund ellilífeyrisþega og síðan til viðbótar hækkun samkvæmt lífskjarasamningnum.
Hækkun ellilífeyris er skert í samræmi við aðrar skerðingar umfram kr. 25.000.- á mánuði á móti greiddum fjármagnstekjum, s.s. lífeyrissjóðsgreiðslum, vaxtatekjum og öðrum fjármagnstekjum. Því yrði það lægri fjárhæð, sem myndi skila sér í vasa hinna 20 þúsund ellilífeyrisþega sem þiggja þessar skertu greiðslur frá almannatryggingum.
Desemberuppbótin
Ég hef leyft mér að segja, að eldri borgarar njóti ekki desemberuppbótar í samanburði við aðra samfélagshópa. Ráðherrar tilkynntu að öryrkjar fengju eingreiðslu til viðbótar við desemberuppbót kr. 50.000.- skattfrjálsa og ótekjutengda, sem er þakkarvert og hefur verið samþykkt á alþingi með öllum greiddum atkvæðum. En hvað um ellilífeyrisþega sem þiggja samsvarandi bætur frá almannatryggingum? Engin samsvarandi uppbót til þeirra.
Hin desemberuppbótin, sem samið var um á sínum tíma, að allir launþegar og bótaþegar ættu að fá, er skilgreind til ellilífeyrisþega kr. 58.097,- á mánuði. En er hún það? Nei, hún er tekjutengd til skerðingar vegna lífeyrissjóðsgreiðslna og annarra fjármagnstekna og er því ekki þessi uppbót nema til fárra. Skyldu samningarnir á sínum tíma hafa gert ráð fyrir þessum ótrúlegu skerðingum á uppbótum? Seinni desemberuppbót til öryrkja var 30% af greiddri tekjutryggingu á árinu 2020 og 30% af greiddri heimilisuppbót, en lækkaði í samræmi við fjölda mánaða sem viðkomandi fékk greitt. Desemberuppbótin miðaði við fulla tekjutryggingu var kr. 46.217.-. en ef viðkomandi var með heimilisuppbót bættist við kr. 15.621.-
Samþykkt kjarabarátta á landsfundi LEB 2020
Á landsfundi Landssambands eldri borgara, 30. júní 2020 var felld tillaga frá kjaranefnd og stjórn LEB, en samþykkt eftirfarandi tillaga með öllum greiddum atkvæðum, sem maður skyldi ætla að stjórn og kjaranefnd LEB ætti að vinna að: „Landsfundur LEB 2020 lýsir yfir miklum vonbrigðum með það hversu lítið hefur gengið að leiðrétta launakjör eftirlaunafólks, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar stjórnmálamanna fyrir síðustu alþingiskosningar. Lífeyrir frá almannatryggingum hefur ekki fylgt launaþróun síðustu ára eins og lög um almannatryggingar kveða á um. Á tímabilinu 2010-2019 hækkuðu lágmarkslaun um 92%, en á sama tíma hækkaði grunnupphæð ellilífeyris frá TR einungis um 61,6%. Skerðing á lífeyri frá almannatryggingum vegna annarra tekna er meiri en þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
Tekjur eftirlaunafólks eru að stærstum hluta frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum og því skiptir samspil þessa tveggja kerfa öllu fyrir kjör þeirra. En hin mikla skerðing almannatrygginga, sem byrjar strax og greiðslur frá lífeyrissjóðnum ná 25 þús. kr. á mánuði, setur meirihluta eftirlaunafólks í þá stöðu að ávextirnir af áratuga lífeyrissparnaði hrökkva skammt til framfærslu. Í ofanálag vinnur þetta kerfi markvisst gegn því að fólkið geti bætt kjör sín af eigin rammleik með öflun viðbótartekna.
Þegar skerðing almannatrygginga leggst við tekjuskattinn og útsvarið, verður niðurstaðan grimmir jaðarskattar, sem leggjast á eftirlaunafólk og öryrkja og valda því að þau öldruðu halda í besta falli eftir 27 til 35 krónum af hverjum 100 krónum sem þau hafa í aðrar tekjur. Engum öðrum þjóðfélagshópum er ætlað að búa við slíka skattheimtu, enda er hún óboðleg og óásættanleg.
Landsfundur LEB 2020 skorar á stjórnvöld að taka strax afgerandi skref til að leiðrétta kjör eftirlaunafólks. Hækka verður lífeyri a.m.k. til jafns við lágmarkslaun og líta sérstaklega til þess hóps aldraðra sem er verst settur. Jafnframt verður að hækka almenna frítekjumarkið úr 25 þúsund krónum á mánuði í 100 þúsund krónur á mánuði sem fylgi svo vísitölubreytingum. Launuð vinna eldri borgara valdi ekki skerðingu greiðslna frá Tryggingarstofnun ríkisins.
Hafin verði vinna við uppstokkun á regluverki lífeyristrygginga, sem komið er í ógöngur vegna óhóflegra tekjutenginga og hárra jaðarskatta.”
Höfundur er formaður kjararáðs félags eldri borgara í Rangárvallasýslu.