Kórónukreppan hefur greitt ferðaþjónustunni þungt högg þetta árið. Greinin var þegar í aðlögunarferli eftir fall WOW air snemma árs 2019 og 14% fækkun ferðamanna það ár frá metárinu 2018. COVID-19 faraldurinn og sóttvarnaraðgerðir vegna hans hérlendis sem erlendis umturnuðu rekstrargrundvelli greinarinnar og ljóst er að tekjur hennar verða afar rýrar enn um sinn. Útlit er fyrir að samdráttur vergrar landsframleiðslu í ár verði 8,6% í ár samkvæmt Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka frá september sl. og eru 2/3 þess samdráttar vegna minni útflutnings, sem svo aftur skýrist að stærstum hluta af kröppum samdrætti í ferðaþjónustu.
Opinberar spár eru meira og minna samhljóða um að árið 2021 verði hagvaxtarár og vísa þær gjarnan til endurreisnar ferðaþjónustunnar í því sambandi. Þar er þó ekki á vísan að róa þótt jákvæðar fréttir af þróun og dreifingu bóluefna undanfarnar vikur hafi aukið líkur á slökun landamæratakmarkana og vaxandi ferðavilja á heimsvísu á komandi fjórðungum. Þá hefur einnig verið á það bent að blendin blessun geti verið af því að ferðaþjónustan fái sinn fyrri sess sem stærsta útflutningsgrein Íslands með u.þ.b. 1/3 heildar útflutningstekna þjóðarbúsins árið 2019, svo dæmi sé tekið. Réttilega er bent á að það auki á hættuna á sveiflum í hagkerfinu að vera með fábrotna samsetningu útflutnings og þarf auðvitað ekki frekari vitnanna við um þá áhættu eftir þróun þessa árs.
Þurfum við og viljum við?
Þá má velta upp tveimur spurningum: Hvað gerist í hagkerfinu íslenska ef ferðaþjónustan nær takmarkaðri viðspyrnu á komandi misserum? Og væri ef til vill farsælla á endanum að leggja einhvers konar stein í götu greinarinnar, aftra því að hún nái fyrri umsvifum og beina fjármunum og mannauði landsins annað?Fyrri spurningunni er tiltölulega fljótsvarað að mati undirritaðs. Afturbati hagkerfisins verður til muna hægari án endurreisnar ferðaþjónustunnar á komandi árum. Sú uppbygging sem átt hefur sér stað í greininni er meira og minna öll ennþá til staðar. Gildir það jafnt um fasteignir, farartæki og innviði. Jafnvel enn mikilvægara er þó að mikill mannauður hefur myndast í greininni. Sú þekking, reynsla og viðskiptasambönd sem byggt hefur verið upp á liðnum áratug er góðu heilli enn tiltækt og ólíkt fastafjármunum er slíkum verðmætum í raun kastað á glæ að miklu leyti ef greinin nær ekki máli að nýju.
Í sem stystu máli mun það óhjákvæmilega velta að stórum hluta á því hvernig næsta ferðamannaár spilast hvort bati hagkerfisins eftir Kórónukreppuna verður hægur eða hraður. Það hefur svo áhrif á framvinduna í kjölfarið. Til að mynda verður rekstur hins opinbera fljótt þyngri ef vöxtur skatttekna lætur á sér standa á sama tíma og krepputengd útgjöld reynast langvinnari.
Þroskuð útflutningsgrein bætist í hópinn
Varðandi seinni spurninguna er svarið öllu flóknara. Víst er að stærð ferðaþjónustunnar í íslensku hagkerfi gerir það útsett fyrir áföllum á borð við það sem við glímum við þessa dagana. Þá má leiða að því líkur að ört vaxandi umsvif greinarinnar á síðasta áratug hafi í einhverjum mæli haldið aftur af nýsköpun og uppgangi annarra útflutningsgreina þar sem raungengi og raunvaxtastig i hagkerfinu var hærra fyrir vikið en ella. Allt er þetta þó vatn runnið til sjávar. Farsælla er líklega að horfa til greinarinnar með svipuðum hætti og sjávarútvegs þegar mestu áhrif Kórónukreppunnar eru um garð gengin. Með öðrum orðum virðist skynsamlegt að áherslan verði á hámörkun virðisauka á hvern ferðamann sem hingað kemur fremur en að keppast við að laða sem flesta hingað til lands með lágu verði. Ísland verður seint vel til þess fallið að keppa við lönd Suður-Evrópu og Suðaustur-Asíu um massaferðamennsku. Til þess er launakostnaður hérlendis einfaldlega of hár, sem endurspeglar að lífskjör hérlendis eru með besta móti á alþjóðavísu. Ímynd landsins sem áfangastaðar er hins vegar sterk. Ágætar líkur eru á að margir mun enn frekar en áður velja áfangastaði þar sem rúmt er um hvern og einn og hægt er að njóta náttúru og hreinleika í stað þess að umbera fjölmenni og ys borgarlífs eða sólarstranda. Vel gæti því farið á því að greinin sækti aftur í sig veðrið að svipuðum umsvifum og einkenndu hana um miðjan síðasta áratug en síðan tæki við hægur vöxtur þroskaðrar útflutningsgreinar.Nýsköpun og frekari uppbygging þekkingariðnaðar og sérhæfðra þjónustugreina er hins vegar efa lítið leiðin fram á við þegar lengra líður. Vonandi tekur slík starfsemi á endanum sæti sem fjórða meginstoðin undir útflutningstekjur þjóðarbúsins við hlið ferðaþjónustu, sjávarútvegs og iðnaðarframleiðslu. Til skemmra tíma litið liggur hins vegar lang greiðasti vegurinn til fjölgunar starfa og aukinnar hagsældar á nýjan leik að mínu mati um lendur ferðaþjónustunnar.
Höfundur er aðalhagfræðingur Íslandsbanka.