Árið 2020 er ár sem mun seint renna úr manna minnum hér á Íslandi. Heimsfaraldur, jarðskjálftar, efnahagshrun, miklir húsbrunar og svo mætti lengi telja. En árið er ekki úti enn og nú í lok árs er enn einum hörmungunum bætt á þjóðina, Hálendisþjóðgarðsfrumvarpinu.
Þetta stóra og mikla mál sem snertir alla Íslendinga á einn og annan hátt um ókomna tíð hefur verið í brennidepli undanfarna daga eftir að frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra var kynnt og lagt til 1. umræðu á Alþingi. Markmið og yfirskrift málsins, „Stærsti þjóðgarður í Evrópu“, hljómar vissulega ekki illa og gæti nýst vel í markaðssetningu þessara ósnortnu víðerna, en ekki er allt sem sýnist.
Úlfur í sauðagæru
Þegar frumvarpið er lesið spjaldanna á milli kemur í ljós að ekki er allt með felldu, þar er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra fari með yfirstjórn þjóðgarðsins. Ráðherra skipar í stjórnir þjóðgarðsins og getur einnig neitað því að skipa menn í stjórnir, sem tilnefndir hafa verið af sveitarstjórnum, bændum, útivistarfélögum og náttúruverndarsamtökum. Ráðherra skipar einn fulltrúa í stjórnir án tilnefningar. Ráðherra skipar forstjóra garðsins. Einnig má lesa að ráðherra sé falið að setja reglugerðir um allt milli himins og jarðar innan þjóðgarðsins, eftir að frumvarp væri samþykkt og lögfest af Alþingi. Því tel ég eðlilegt að varpa þeirri spurningu fram, er raunverulegt markmið að stofna hér einræðisríki innan lýðveldisins Íslands?
En þetta frumvarp virðist ekki vera eini úlfurinn í sauðagæru, því að á hásæti Alþingis fyrir aftan pontu þingsalsins situr gamall úlfur og hefur setið þar um nokkurt skeið. Úlfur þessi sá sér ástæðu í síðustu viku að stíga upp af hásæti sínu og taka sér stöðu í pontu Alþingis, sem ekki hefur gerst í þónokkur ár. Þar reif hann af sér sauðagæruna, hellti sér yfir þingsalinn og kallaði stóran hluta landsmanna lýðveldisins „örlítinn grenjandi minnihluta“.
Eðli málsins samkvæmt var þessi stóri hluti landsmanna, sem er um allt land hneykslaður á þeim ummælum og lét í sér heyra. Einn talsmaður þeirra og fyrrum samstarfsmaður úlfsins skrifaði til að mynda grein í Morgunblaðið sem fjallaði um þessa endurkomu hans í pontu, sem virðist hafa hæft úlfinn beint í hjartastað. Þessu fannst umræddum úlfi tilefni til að svara í blöðum og ber þar fyrir sig að á hans heimaslóðum sé orðið grenjandi samheiti yfir „mikið“, og þetta tungutak notað reglulega þar. Sé þessi útskýring hans sett í samhengi við fyrri ummæli má þá skilja að hann telji stóran hluta landsmanna „örlítinn mikinn minnihluta“. Hvort það hljómi rétt í eyrum landsmanna skal ég ekki segja til um.
Við, fólkið sem raunverulega ferðumst um hálendi Íslands myndum kalla þetta utanvegaakstur af hálfu gamla úlfsins, væri þetta sett í myndlíkingu. Þá er tungutak sem við sami hópur notum, að þegar út í mýri er komið er hætt að spóla. En þá eru góð ráð dýr. Til eru björgunarsveitir sem tilbúnar eru að kasta til hans spotta og draga hann á þurrt. En hvaðan ætli björgunarsveitir séu tilkomnar? Jú, þær eru afkvæmi þess sama ferðafrelsis sem úlfurinn berst af hörku við að svipta samlanda sína um.
Höfundur er forsvarsmaður undirskriftarsöfnunar gegn Hálendisþjóðgarðsfrumvarpi.