Við getum litið björtum augum til ársins 2021. Fyrstu afurðir sögulegra vísindaafreka, þrautseigju og alþjóðasamstarfs eru lent á Íslandi með einkaþotu í formi sendingar bóluefnis gegn SARS-CoV-2 og munu koma samfélaginu á réttan kjöl á ný. Því ber að fagna.
Sigur fyrir nýsköpun
Kreppur leysa nýja krafta úr læðingi og það hefur COVID19 kreppan sannarlega gert. Tveimur dögum eftir að upplýsingar um erfðaefni SARS-CoV-2 hafði verið komið á netið til alþjóðasamfélagsins var búið að hanna fyrsta bóluefnið gegn COVID19. Vísindamenn innan fyrirtækja, stofnana og háskóla hafa unnið myrkranna á milli við að auka skilning okkar á veirunni og þróa bóluefni og lausnir sem gagnast mannkyninu öllu. Samstarfið sem við tók var “sigur fyrir nýsköpun, vísindin og alþjóðasamvinnu” er haft eftir Dr Uğur Şahin forstjóra Biontech og konu hans Dr Özlem Türeci, hvoru tveggja börn tyrkneskra innflytjenda í Þýskalandi. Þau eiga stóran þátt í þróun nýrrar gerðar COVID19 mótefnis sem fengið hefur markaðsleyfi í Evrópu og Pfizer lyfjafyrirtækið dreifir undir vökulli tækni íslenska fyrirtækisins Controlant sem fylgist með hitastigi og flutningi bóluefnisins um allan heim.
COVID19 bóluefnin eru sannarlega dæmi um vísindi sem eru komin í vinnu og munu hafa ótrúleg samfélagsleg og efnahagsleg áhrif á komandi ári. Auðna tæknitorg sinnir tækni-og þekkingarfærslu á Íslandi og fagnaði nýverið tveggja ára afmæli sínu sem tengiliður eða brúin á milli íslensks vísindasamfélags og atvinnulífsins. Einkennisorð Auðnu eru einmitt “Komum vísindum í vinnu”.
Besti bandamaðurinn
Þríeykið, stjórnvöld og Íslensk Erfðagreining eiga heiður skilið fyrir að vera samstíga aðgerðum. Stjórnmálamenn hafa fæstir dottið í þann pytt að hundsa vísindin heldur treyst þeim, þó ekki sé það sársaukalaust. Þó vísindin séu ekki óskeikul eru þau okkar besti bandamaður, það ætti bóluefnaátakið að hafa fært sönnur á.
Heimskreppan er umbyltandi í eðli sínu og samfélagið hefur tekið stafrænt stökk inn í framtíðina. Heimurinn er ekki samur eftir og það hefur átt sér stað uppstokkun í forsendum flestra fyrirtækja, hvort sem um er að ræða tækni, ferla, markaði eða viðskiptamódel. Þeir sem ekki bregðast við sitja eftir. Þess eru merki bæði hér á landi og erlendis að fyrirtæki á öllum sviðum eru að keyra upp vísinda- og nýsköpunarstarfsemi hjá sér, áhersla á nýsköpun og endurmat er öllum nauðsyn til að komast á skrið eftir efnahagsleg áföll af völdum COVID19. Nýsköpun er ekki lengur innskot í ræðum á tyllidögum, hún er orðin forsenda fyrir atvinnustarfsemi.
Vísindaleg nýsköpun
Vísindin og ný þekking munu hjálpa okkur aftur á fætur, ekki bara með bóluefni heldur hvers konar nýsköpun. Árið sem er að líða var metár í fjárfestingum í líftækni og lífvísindum og ótrúlega mikil gróska er á þessu sviði á Íslandi, Íslensk erfðagreining hefur lyft grettistaki í vörnum okkar við heimsfaraldri ásamt starfsfólki heilbrigðiskerfisins og skilað mikilvægum upplýsingum um SARS-CoV-2 veiruna til alþjóðasamfélagsins. Kerecis með aðsetur á Ísafirði, Reykjavík og Virginíu nýtir fiskroð til sáragræðslu og tvöfaldaði veltu sína á árinu. ORF Líftækni, staðsett í Grindavík og í Kópavogi er í kjörstöðu til að gera kjötræktun víða um heim sjálfbæra á næstu árum, Controlant gegnir lykilhlutverki í öryggi lyfja- og bóluefnisflutninga úti í heimi, Alvotech í Vatnsmýrinni er framvarðasveit í framleiðslu líftæknilyfja á heimsvísu. Oculis augnlækningafyrirtækið, sem frumkvöðlar meðal lækna og lyfjafræðinga á Íslandi stofnuðu, telst nú á meðal 10 bestu líftæknifyrirtækja í Sviss. Ýmis fyrirtæki í smáþörungaræktun blómstra á útnesjum og upp til heiða með aðstoð jarðhitans og innlent þróunarstarf undanfarinna ára á sviði sótthreinsunar og sóttvarna hefur augljóslega aldrei verið mikilvægara.
Að baki öllum þessum vænlegu fyrirtækjum liggja margra ára jafnvel áratuga rannsóknir og þrautseigir frumkvöðlar sem hafa borið gæfu til að fá til liðs við sig nauðsynlegt fjármagn og nauðsynlega viðbótarþekkingu eftir því sem verkefnin þróast og sem vöxturinn kallar á. Vísindaleg nýsköpun og djúptækni eru ekki háð sömu sveiflum og ferðaþjónustan, sjósókn eða stóriðja og getur því haft sveiflujafnandi áhrif á efnahagslífið. Fyrrnefnd fyrirtæki hafa byggst upp á rannsóknum og þróun og ná fyrir vikið í fremstu röð í heiminum á sínu sviði. Vísindalegur grunnur þeirra, meðferð þekkingar og markviss hugverkavernd veitir þeim mikilvægt samkeppnisforskot þar sem ekki er tjaldað til einnar nætur.
Bóluefni gegn stöðnun
Hjá Auðnu tæknitorgi greinum við þau tækifæri sem koma út úr vísindavinnu hér á landi, tryggjum hugverkavernd þegar það á við, veitum ráðgjöf og stuðning í samskiptum á milli þessarra heima vísinda og viðskipta sem tala ekki alltaf sama tungumál. Við vinnum að því ásamt vísindafrumkvöðlum að skapa ný tækifæri til fjárfestinga og verðmætasköpunar. Markmiðið er að samfélagið njóti ávaxta öflugs vísindastarfs hér á landi og að uppfinningar og þekking vísindamanna skili samfélagslegum ávinningi í formi starfa, samkeppnishæfni og framþróunar. Greiningartól okkar og reynsla gagnast atvinnulífinu og akademíunni við stefnumótun, vöxt og útrás. Auðna aðstoðar einnig fyrirtæki til að nálgast þá sérfræðiþekkingu sem býr í vísindasamfélaginu og getur nýst atvinnulífinu svo miklu betur.
Íslenskt hugvit byggt á vísindum og kraumandi frumkvöðlaeðli á fullt erindi út í heim, eins og dæmin sanna, þrátt fyrir fæðina. Mannkynið stendur frammi fyrir fjölmörgum stórum áskorunum og sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna verður ekki náð án þess að treysta á vísindin og koma þeim í vinnu. Við höfum merkilega margt fram að færa á því sviði!
Við hjá Auðnu tæknitorgi lítum björtum augum á árið framundan, vísindin eru langhlaup, en endalaus uppspretta nýsköpunar sem getur skilað farsæld og samfélagslegum áhrifum til framtíðar auðnist þeim að finna rétta farveginn til nýsköpunar. Auðna tæknitorg er farvegurinn fyrir vísindin til áhrifa í samfélaginu og varðar leiðina að verðmætasköpun og fjölbreyttara atvinnulífi sem eykur viðnámsþrótt samfélagsins við framtíðar áföllum.
Vísindin eru bóluefni gegn stöðnun – komum þeim í vinnu okkur öllum til hagsbóta. Gleðilegt nýtt ár!
Höfundur er framkvæmdastjóri Auðnu tæknitorgs ehf.