Í upphafi þessa árs, raunar á fyrsta degi þess, birtist grein undir yfirskriftinni „Verndarstefna fyrir viðskiptafrelsi“ á vefritinu kjarninn.is. Hafandi lært ýmis grundvallar atriði í hagfræði á mínum sokkabandsárum verð ég að viðurkenna að heiti brauðrétturinn á nýársdag hrökk lauslega ofan í mig við lestur þessarar greinar. Höfundur greinarinnar, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), hefur í fjölda blaðagreina undanfarnar vikur boðað nauðsyn þess að innflutningstakmarkanir og tollar verði afnumdir á landbúnaðarvörur og lætur einskis ófreistað í þeirri vegferð sinni.
Strangari reglur um samstarf fyrirtækja í landbúnaði hér en annarstaðar innan EES
Eftirlætis „pikköpp“ lína framkvæmdastjórans er sú að með því að rýmka heimildir fyrir landbúnaðinn til að starfa saman og leita hagræðingar með samstarfi, sé verið að því sem hann kallar að „...vinda ofan af umbótum í frjálsræðisátt.“ Staðreyndin er hins vegar sú að líklega er hvergi á EES svæðinu jafn miklar hömlur lagðar á möguleika bænda og fyrirtækja þeirra til að vinna saman og skipuleggja markaðsfærslu búvara eins og hér á landi. Í því sambandi vísast til skýrslu lagastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (sjá skýrsluna hér). Í skýrslunni kemur m.a. fram að víðtækar undanþágur frá samkeppnisreglum gilda í Noregi (öðru EFTA-ríki, aðila að EES-samningum) og innan ESB (aðila að EES samningnum) fyrir framleiðendur landbúnaðarvara samanborið við þrönga undanþágureglu íslenskra búvörulaga. Í fréttatilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um skýrsluna segir að verið sé að vinna með niðurstöður hennar í ráðuneytinu.
Þetta er hins vegar ekki allt. Vegna COVID-19 heimsfaraldursins hefur framkvæmdastjórn ESB samþykkt beina fjárhagsstyrki til bænda auk frekari undantekninga frá samkeppnisreglum, sjá t.d. nánar hér. Á undanförnum misserum hafa hagsmunasamtök bænda bent á þann aðstöðumun sem er á milli norskra og evrópskra bænda annars vegar og íslenskra bænda hins vegar hvað þessi atriði varðar.
Einhliða tollaafnám skaðar þjóðarhag
Í umræðum um landbúnaðarmál er krafan um afnám tolla á búvörur að verða eins og slitin vinylplata. Aftur hefur ekkert þeirra landa sem við berum okkur saman við í lífskjörum tekið upp slíka stefnu, hvað þá að nokkrum hafi einu sinni dottið í hug að gera það einhliða án þess að tryggja sér neinn ávinning í staðinn. Skemmst er þess að minnast að frekari viðræður um þau mál innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization) hafa ítrekað rekið upp á sker.
Það er þekkt niðurstaða í hagfræði að velferð íbúa hvers lands er unnt að hámarka með réttum tollum á milliríkjaviðskipti (sjá t.d. H. Johnson The Review of Economic Studies , 1953 - 1954, bls. 142-153). Þetta er auðvitað grunnástæðan fyrir því hvað tollar og viðskiptahindranir eru þaulsetin í milliríkjaviðskiptum. Þótt vera megi að frjáls viðskipti séu í heildina hagstæðust er gallinn sá að aðrar þjóðir spila ekki samkvæmt þeim reglum. Ísland og íslensk þjóð hefði því verra af ef hún ætlaði einhliða að afnema innflutningstakmarkanir.
Er unnt að treysta á frjáls alþjóðaviðskipti?
Reynslan af COVID-19 hefur sýnt að svokölluð frjáls viðskipti tryggja ekki að lönd geti fengið vörur sem þær vilja og eru reiðubúnar til að greiða fyrir (Covid-grímur, hlífðarfatnaður og súrefnistæki í upphafi, og nú t.d. bóluefni). Hliðstæð hætta á markaðstruflunum er gagnvart landbúnaðarvörum og öðrum nauðsynjum.
Kreppur og milliríkjaviðskipti
Framkvæmdastjóri FA fullyrðir að leið ríkja út úr kreppu í gegnum tíðina hafi verið sú að afnema hömlur í viðskiptum og auka frelsi í milliríkjaviðskiptum. Þessi söguskoðun er í meira lagi hæpin. Bandaríkin og önnur vesturlönd komust t.d. ekki út úr Kreppunni miklu 1929 vegna þess að þau tóku skyndilega upp frjáls viðskipti, heldur setti gífurlegur ríkisrekstur í hildarleik síðari heimsstyrjaldar hagkerfi þessara landa í gang. Alþjóðaviðskiptastofnunin (eða öllu heldur forveri hennar GATT) var ekki stofnuð fyrr en 1947 að lokinni heimsstyrjöld. Í fjármálakreppunni 2008 voru alls kyns takmarkanir á frjáls fjármagnsviðskipti tekin upp og í kjölfar hennar voru miklu strangari takmarkanir settar á fjármálastofnanir en áður og flutningar fjármagns milli landa settar þrengri skorður.
Leiðir ríkja út úr kreppum hafa því jafnan verið flóknari en þarna er gjarnan látið liggja að. Er þar skemmst að minnast aðgerða sem gripið hefur verið til jafnvel hér á landi þar sem milljörðum hefur verið veitt til atvinnulífsins til að veita því viðspyrnu eftir það högg sem COVID-19 faraldurinn hefur valdið. Þær aðgerðir hafa í engu tekið tillit til þarfa landbúnaðarins sem hefur þó sannanlega orðið fyrir miklu höggi.
Enginn er að tala um bann við innflutningi
Í grein sinni fer framkvæmdastjóri FA yfir breytingar sem gerðar voru á búvörulögum nú stuttu fyrir jól þar sem horfið var til fyrra fyrirkomulags við útboð á tollkvótum og gengur svo langt að segja að tekið hafi verið „...stutt skref til móts við þá sem vildu láta banna innflutning alfarið – sem hefði verið brot á lögum og alþjóðasamningum.“ Hvergi hafa verið settar fram kröfur um að banna innflutning. Í umræðu um breytt fyrirkomulag útboðs á tollkvótum hefur einungis verið bent á ólíka undirliggjandi hagsmuni og í því sambandi vísað til röksemda sem t.a.m. framkvæmdastjórn ESB hefur sjálft vísað til í viðbrögðum sínum við COVID-19 heimsfaraldrinum.
Verndum störf og þjóðarhag
Staðreynd málsins er að íslenskur landbúnaður er hryggjarstykkið í atvinnulífi víða á landsbyggðinni. Þúsundir manna starfa við greinina, í Norðausturkjördæmi einu og sér sennilega nærri 1.000 manns. Bara svínakjötsframleiðsla og vinnsla svínakjöts í sama kjördæmi skapar álíka mörg störf og kísilver PCC BakkiSilicon hf. á Húsavík átti að gefa.
Öll lönd sem við berum okkur saman við í lífskjörum reka öfluga landbúnaðarstefnu þar sem margvíslegum stjórntækum ríkisins er beitt samhliða, s.s. tollum, beinum greiðslum, lagaheimildum til samstarfs á mörkuðum o.s.frv. Íslenskar landbúnaðarvörur eru hráefni í margfalt fleiri vörur en þær 300 sem framkvæmdastjóri FA heldur fram í grein sinni. Tökum frekar höndum saman um að efla hag landbúnaðarins og höfum það sem sannara reynist að leiðarljósi í þeirri vegferð.
Höfundur er hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni.