Ég heyri skothvellina og drunurnar frá flugeldakökunni sem þeytir marglitum skoteldum á loft, hverjum á fætur öðrum og rýfur þannig kvöldkyrrðina á þessu hægláta vetrarkvöldi. Veðrið er yndislegt og stillt þó frost sé úti og héla á rúðum bílanna. Taktföst skothríðin með tilheyrandi goshljóðum þagnar á endanum og við tekur niður frá bílvélum og einstaka bílflaut.
Það er 30. desember og brjóstsviðinn sem byggst hefur upp í maganum eftir hamslaust kjötát og rjómaþamb yfir jólin fer loksins dvínandi innra með mér. Þar sem ég ligg hugsi upp í rúmi skammt frá opnum glugganum sem færði mér flugeldatónverkið rennur á mig þörf til þess að stinga niður penna, eða öllu heldur taka upp símann og pikka inn eitthvað gáfulegt með vísifingri hægri handar. Ég verð jú að senda eitthvað frá mér. Það eru nú einu sinni áramót á næsta leyti og samkvæmt lögmálum íþyngjandi hjarðhegðunar er það tíminn sem flestir þeir sem taka þátt í stjórnmálum ryðjast fram á ritvöllinn.
Flestir skrifa einhverskonar snöggsoðna samantekt af árinu sem er að líða. Nefna sorgir og sigra mannsandans á tímum farsóttar og leita logandi ljósi að einstaka viðburðum, fréttum eða áföngum sem krydda annars bragðlausan textann. Eflaust er þessi tilraun mín jafn bragðlaus, en þið takið vonandi viljann fyrir verkið.
Fyrirsögnin
Fyrirsögnina skrifaði ég strax. Það er þó ekki venjan hjá mér. Ég er enn litaður af þeim tíma er ég vann sem blaðamaður og þá vandi ég mig á að fá innblástur frá textanum og skrifa fyrirsagnir og millifyrirsagnir þegar meginmálið var komið á blað, en ekki núna.
Mér gramdist tal þeirra og fyrirlitning sem einkenndist af hluttekningarskorti. Í stutt augnablik langaði mig að dúndra pylsunni með öllum sínum fjórum tegundum af sósu af alefli í átt að þeim. Það fyrirtæki sem ég sjálfur fer fyrir réri lífróður eins og svo mörg önnur og sem kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þarf vart að fjölyrða um þá hræðslu og örvæntingu sem litað hafði líf mitt það sem af var ári. En ég sat á mér, skolaði pylsunni niður með kókómjólkinni með tilheyrandi soghjóðum, stóð ákveðið upp frá borðinu og hélt ferð minni áfram um nær ferðamannalausar náttúruperlur Suðurlands.
Náð og miskunn
Umræður samlanda minna voru mér þó áfram ofarlega í huga og ekki síst þar sem ég þekkti til margra þeirra ferðaþjónustuaðila sem nýttu alla sína krafta til þess að fleyta sér og sínum áfram á íslenska ferðasumrinu. Slæm tilfinning mín um að einhverjir þeirra myndu enda sem viðskiptatækifæri sjálfumglöðu félaganna á pylsusjoppunni ollu mér hugarangri.
Ég hafði fengið fregnir af því að bankarnir væru tregir til þess að lána fyrirtækjum sem ættu í rekstrarvanda þrátt fyrir þær tilslakanir sem seðlabankinn hafði veitt til útlána. Á akstri mínum var mér hugsað til allra þeirra sem á torgum höfðu kallað eftir minni umsvifum hins opinbera í gegnum tíðina. Nú kölluðu þessir sömu aðilar eftir björgunarpakka og voru jafnvel undir náð og miskunn kvalara sinna komnir. Ríkið varð að koma til bjargar sem stuttu áður hafði verið rót alls ills.
Sem samfélag vorum við að ganga í gegnum náttúruhamfarir og efnahagslægðin var sú dýpsta í sögunni. Á tímum sem þessum vissi ég að skaðinn af íþyngjandi aðhaldsaðgerðum myndi leggjast þungt á samfélagið og kostnaðurinn af þeim á endanum verða margfaldur. Í byrjun mars hafði ég gert mér grein fyrir því að ástandið yrði hreint út sagt skelfilegt. Einhverjir nefndu að líklega myndi draga úr komu ferðamanna en ég tók mun dýpra í árina og lýsti þeirri skoðun minni að hjól ferðaþjónustunnar myndu brátt stöðvast og yrðu botnfrosin þar til bóluefni kæmi til skjalanna. Ef ekki kæmi til veruleg hjálp tæki við gósentíð fyrir hrægamma og samviskulausa götustráka.
Í kjallaranum
Ferðin um Suðurlandið endaði sem vel heppnuð hringferð þó svo síma- og netfundir hafi truflað samveru fjölskyldunnar endrum og sinnum. Er heim kom gat ég ekki gleymt þeirri ónotatilfinningu sem sat eftir í huga mínum og gerir enn. Það er oft sagt að við Íslendingar séum með gullfiskaminni en stóráföllum gleymum við þó seint.
Hrunið og eftirköst þess eru þar á meðal. Í kjölfar þess högnuðust margir á óförunum og margt hefði betur mátt fara. Sjálfur missti ég íbúðina mína og eftir nám byrjaði ég minn búskap að nýju í kjallaranum hjá foreldrum mínum. En sagan þarf ekki að endurtaka sig. Því hef ég stutt og barist fyrir aðgerðum sem allar draga úr högginu.
Má þar nefna starf með styrk, framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta og lengingu bótatímabils, greiðsluskjól fyrirtækja, neyðarlán vegna tekjufalls, frestun fasteignagjalda, styrki til íþrótta- og tómstundastarfs og áframhaldandi uppbyggingu af hálfu hins opinbera þ.m.t Reykjanesbæjar. Allt eru þetta aðgerðir sem miða að því að halda hjólunum gangandi og milda fjárhagslegan og samfélagslegan skaða.
Ég vil einnig viðra þá hugmynd að ríki og lífeyrissjóðir stofni sjóð sem leggi tímabundið hlutafé inn í fyrirtæki svo tryggja megi öflugri viðspyrnu er hjarðónæmi verður náð. Til þess að við náum fullum styrk má það ekki gerast að fólk og fyrirtæki missi móðinn. Höldum öllu „money for nothing” liðinu frá partýhaldi á nýju ári.
Seinni hálfleikur
Ég reisi mig upp frá koddanum. Senn munu ýlurnar á gamlárskvöld flauta til seinnihálfleiks. Mig langar að ljúka pistlinum með einhverju baráttuljóði eftir alþýðuskáld en finn ekkert nógu kraftmikið fyrir tilefnið.
Þess í stað set ég broskarl með sólgleraugu sem tákn um hækkandi sól 😎, mynd af sprautu 💉 sem tákn um komu bóluefnis, íslenska fánann 🇮🇸 sem tákn um stolt og þrautseigju og síðast en ekki síst bikar með von um að við spilum seinnihálfleik með sömu samheldni, óeigingirni og báráttu eins og einkenndi þann fyrri 🏆.
Gleðilegt nýtt ár.
Höfundur er framkvæmdastjóri Keilis og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ.