Í upphafi árs er ágætt að skoða fjármálin og þá má ekki undanskilja lífeyrisframlagið sem nú eru 15,5% af mánaðarlegum heildarlaunum. Beint framlag okkar launafólks er samtals 15,5% sem skiptist þannig að 4% er til frádráttar útborguðum launum en atvinnurekandi skilar mánaðarlega 11,5% því til viðbótar. Lífeyrissjóðsframlagið var hækkað um 3,5% af heildarlaunum hjá öllum sem vinna samkvæmt kjarasamningi SA og ASÍ frá árinu 2016, til að tryggja jöfnun lífeyrisréttinda milli þeirra sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum og hinna sem starfa á almennum vinnumarkaði.. Launþegar á almenna markaðnum hafa þannig val um hvort þetta viðbótarframlag upp á 3,5% bætist að hluta eða öllu leyti við samtrygginguna eins og verið hefur með þau 12% sem áður voru lögfest, eða hvort við ráðstöfum þessari viðbót í tilgreinda séreign.
Tilgreind séreign er ný tegund séreignar sem er alveg ótengd hinum frjálsa séreignarsparnaði. Sjóðsfélagar verða sjálfir að taka ákvörðun um hvort þeir vilji að allt að 3,5% af skylduiðgjaldi sem þeim ber að greiða fari í samtryggingarsjóð eða í séreignasjóð sem nefnist tilgreind séreign.
Ef ekkert er valið fer allt framlagið í samtryggingu
Það er mikilvægt að skoða vel hvað hentar hverjum og einum í þessu sambandi og á heimasíðu lífeyrissjóðanna eru ágætar upplýsingar fyrir sjóðsfélaga til þess að auðvelda þeim að taka upplýsta ákvörðun fyrir sig.
Hafa ber í huga að allar fjárhæðir eru áætlun hvað ávöxtun varðar og miða við 3,5% ávöxtun en jafnframt að tilgreind séreign er sannarlega séreign sem erfist sem er kostur umfram samtrygginguna. Tilgreind séreign er einnig útgreiðanleg fimm árum fyrir hefðbundinn lífeyristökualdur, en þá verða áætlaðar fjárhæðir lífeyrisgreiðslna úr samtryggingu lægri að sama skapi ef 12% fer í samtryggingu og 3,5% í tilgreinda séreign.
Hér kemur vel fram í hverju munurinn felst og rétt að ítreka að þetta er áætlun miðað við 3.5% meðalávöxtun.
Hér er um verulega hagsmuni að ræða og því mikilvægt að hver og einn sjóðsfélagi sem fellur undir þessa kjarasamninga frá árinu 2016 skoði hvernig hann vill ráðstafa sínu framlagi en allt framlagið fer í samtryggingu ef ekkert er valið.
Höfundur er bókari, bæjarfulltrúi hjá Hafnarfjarðarbæ og stjórnarmaður í VR og LIVE.