Vísindalegt traust og vantraust

Magnús Jónsson veðurfræðingur skrifar um veiru- og fiskiráðgjöf.

Auglýsing

Páll heitinn Skúlason heimspekingur og rektor Háskóla Íslands sagði eitt sinn: „Ef menn eru ekki sífellt að gagnrýna kenningar, aðferðir og vinnubrögð í vísindum munu vísindin staðna og smám saman verða úr sögunni. Framfarir eru undir því komnar að menn efist um gildi ríkjandi kenninga, reyni að finna á þeim veika bletti. Þetta virðist raunar vera eitt helsta skilyrðið fyrir framförum á hvaða sviði sem vera skal.“ 

Algert traust

Á síðasta ári varð þjóðin í ríkum mæli vitni af vinnubrögðum vísindamanna í þessum anda í tengslum við þann heimsfaraldur sem hefur geisað mestan hluta ársins. Svokallað þríeyki og ýmsir í læknastétt o.fl. hafa aflað sér meira trausts meðal þjóðarinnar en flestir vísindamenn hafa áður náð að gera. 

Með efasemdum, viðurkenningu á óvissu og eigin mistökum, auðskildum upplýsingum og útskýringum um hvað sé vitað og hvað ekki á hverjum tíma og sífelldri endurskoðun á þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar, hefur þessi samhenti hópur sett ný viðmið þegar um vinnubrögð og miðlun vísindalegrar þekkingar er að ræða. Í lok október kom fram að um 95% landsmanna bæru fullt traust til þríeykisins og annarra sóttvarnaryfirvalda, þrátt fyrir að hér hafi verið um að ræða fordæmalaus og afar íþyngjandi áhrif tillagna þessara vísindamanna á daglegt líf þorra fólks. Man ég ekki eftir öðru sambærilegu trausti í samfélagi okkar.

Útbreitt vantraust

En þetta er því miður ekki alls staðar svona þegar um vísindi er að ræða. Síðustu átta sumur hef ég stundað handfæraveiðar N-lands. Á þessum tíma hef ég kynnst fjölda smábátaeiganda og fleiri sjómönnum, m.a. togaraskipstjórum. Þessi hópur manna á það sameiginlegt að bera almennt lítið traust til einnar stofnunar hér á landi. Skiptir þá litlu máli hvort um er að ræða margskonar mæliaðferðir hennar, útreikninga, upplýsingamiðlun eða ráðgjöf. Hér er um að ræða Hafrannsóknastofnun. 

Auglýsing
Að áliti fyrrnefndra sjómannanna skortir mikið á þekkingu vísindamanna á hegðan, samspili og eðli margra fiskistofna auk þess sem þau reiknilíkön sem notuð eru virðast ónákvæm eða byggja á meira en 50 ára gömlum tilgátuforsendum. Má í því sambandi nefna tengsl stærðar hrygningarstofna og nýliðunar sem og samspil stofnstærðar, veiða, fæðuframboðs og náttúrulegrar dánartölu. Þá heyrir það til undantekninga ef vísindamenn Hafró koma fram með útskýringar á því sem þeir bera á borð, hvort sem það eru þekkingarlegar forsendur, uppbygging og gerð reiknilíkana, efasemdir, óvissu í mælingum, skekkjumörk eða leiðréttingar. Mætti því oft halda að hér sé allt fullsönnuð vísindi eða endanlegur, óskeikull sannleikur.

Álit vísindamanna sjálfra

Þegar kemur að því að skoða einstaka stofna er efst á blaði hjá smábátakörlunum rannsóknir og ráðgjöf varðandi veiðar á grásleppu en þar ríkir svo algert vantraust meðal sjómanna að ég hef ekki hitt einn einasta grásleppusjómann sem telur yfirhöfuð neitt á þeirri ráðgjöf sem Hafró veitir byggjandi. Þegar þekkingargrunnur grásleppuráðgjafarinnar er skoðaður kemur m.a. eftirfarandi í ljós og er þá vísað til því sem vísindamennirnir segja sjálfir, sjá Fiskifréttir 2. mars 2019:

  1. Við vitum að hrognkelsið er á hafsvæðinu allt frá Grænlandi yfir til Íslands og þar fyrir norðan og síðan yfir Noregshaf til Barentshafs. En við vitum ekkert hvaða fiskar hrygna við Ísland og hverjir fara til Noregs.
  2. Við höldum að fiskurinn við Grænland komi til Íslands því líklega hrygna hrognkelsin ekki við austanvert Grænland, en það vitum við samt ekki fyrir víst. 
  3. Við vitum ekki heldur hve gamalt hrognkelsið verður eða hve lengi það dvelur í djúpsjó. Þá vitum vil ekki heldur hve hratt það vex.
  4. Við vitum líka mjög lítið um hænginn, rauðmagann.
  5. Við erum búin að komast að því núna (2019) að grásleppan hrygnir allt frá mars fram í ágúst og mun hún líklega hafa sama hrygningarmynstur næsta ár. Við vitum ekki hvaða áhrif þetta hefur á stofninn, vegna þess að veiðarnar eru mest stundaðar í apríl og mars, þannig að fiskurinn sem hrygnir í ágúst á miklu betri möguleika á því að ná hrygningu. Ekki er heldur vitað af hverju hrognkelsið hrygnir yfir svona langt tímabil.

En þetta er ekki allt. T.d. er ekki vitað hversu oft grásleppan hrygnir um ævina ef hún þá á annað borð hrygnir ekki bara einu sinni eins og loðnan. Þá fara stofnstærðarmælingar á þessum fiski eingöngu fram með svokölluðu togararalli á vorin, þrátt fyrir að lengstan hluta ævinnar sé grásleppan uppsjávarfiskur og komi aðeins niður að botni á grunnsævi til hrygningar. Á þessum gráslepputogveiðum veiðast að jafnaði færri en 1000 grásleppur alls á ári allt í kringum landið og er þetta magn látið skapa grunn að ákvörðun heildarstofnstærðar þessa stofns. Loks má svo benda á að litlar sem engar rannsóknir hafa farið fram á áhrifum flottrollsveiða á grásleppustofninn en vitað er að oft kemur gríðarlegt magn grásleppuseiða í flottroll sem m.a. er notað við veiðar á loðnu.

Heildarkvóti út í loftið

Þrátt fyrir þennan mjög svo takmarkaða þekkingargrunn var tekin ákvörðun um það árið 2013 að veita ráðgjöf um heildaraflamark á grásleppuveiðarnar (enn takmarkaðri þekking þá en nú). Fram að þeim tíma hafði verið látið nægja að stýra grásleppuveiðum með því að takmarka lengd vertíðar, fjölda neta og fjölda veiðileyfa. Í um hálfa öld fyrir 2013 hafði grásleppuafli hér við land sveiflast frá um 3.000 tonnum og upp tæp 12.000 tonn á vertíð. Að áliti flestra grásleppuveiðimanna sem ég hef heyrt í hefur ráðlagður heildakvóti á grásleppu frá 2013 verið beinlínis út í loftið. Því hefði allt eins mátt nota veðurathuganir sem forsendur við þá aðgerð, svo notuð séu orð sjómanns með 40 ára reynslu af grásleppuveiðum.

Lokaorð

Síðasta grásleppuvertíð opinberaði rækilega hversu fátækleg þekking var lögð til grundvallar fyrirfram ákveðnu heildaraflamarki þess árs, þ.e. um 5.200 tonn. Sjaldan eða aldrei hafa grásleppukarlar fyrir Norður- og Austurlandi kynnst öðrum eins mokaflabrögðum og sl. vor og sjaldan hefur grásleppan veiðst jafnmikið í þorskanet við Suðurland sem meðafli. Þar sem grásleppan byrjar að veiðast við Austurlandið snemma árs færir hún sig vestar eftir því sem lengra líður á vorið. Allt þetta varð til þess að útgefinn heildarkvóti var að mestu upp veiddur áður en veiðar gátu hafist fyrir alvöru á Vestfjörðum og við Vesturland. Þegar sjávarútvegsráðherra stöðvaði fyrirvaralaust veiðarnar 2. maí sl. var enn mokveiði við Norðurland en Vestlendingar og fleiri sátu upp með grásleppulausa vertíð og tilheyrandi stórtjón. Og nú liggur fyrir að sami ráðherra vill lögbinda kvótasetningu á hvern bát fyrir þennan stofn. Á grundvelli hvaða þekkingar og ráðgjafar verður það byggt?

Höfundur er veðurfræðingur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar