Undanfarnar vikur hefur farið fram umræða um tillögur að framlengingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2040. Tillögurnar fylgja meginlínum gildandi aðalskipulags um gæði og þéttleika byggðar en gerðar eru nauðsynlegar breytingar vegna Borgarlínu auk þess sem lagt er til að landnotkun verði breytt á nokkrum svæðum.
Eitt þessara svæða er reitur M22 – Hallar í hlíðum Úlfarsfells þar sem lagt var til að fella á brott heimild til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis ásamt því heimila grófari atvinnustarfsemi en gert hafði verið ráð fyrir til þessa.
Allir fulltrúar í íbúaráði hverfisins, sem skipað er fulltrúum úr meirihluta og minnihluta borgarstjórnar auk fulltrúa grasrótarsamtaka og íbúa hverfisins, skiluðu inn sameiginlegri umsögn þar sem fram kom skýr vilji ráðsins um að skilmálar núgildandi aðalskipulags skuli halda gildi sínu í stað þeirra tillagna sem lagðar voru fram í drögum að breytingum sem snúa að reit M22.
Að teknu tilliti til athugasemda íbúaráðsins sem og annara hagsmunaaðila í borgarhlutanum liggur beint við að endurskoða áformin enda slíkt í anda þess samráðs sem hafa ber að hafa í tengslum við svo mikilvæga breytingu. Ekki síst þar sem umsagnirnar falla almennt vel að heildarhugmyndafræði aðalskipulagsins um blandaða, þétta og mannvæna byggð. Því er rétt að falla frá umræddum breytingum á reit M22 í Úlfarsárdal þannig að núgildandi skilmálar um blandaða byggð íbúða og þrifalega atvinnustarfsemi verði áfram í gildi á reitnum.
Eðlilegt er að skoða nánar skipulag fyrir svæðið í tengslum við gerð hverfisskipulags fyrir hverfið. Það skipulag verður unnið í breiðu samráðsferli eins og öll hverfisskipulög hingað til. En í þessu máli var afstaða íbúa skýr og á hana verður hlustað.
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og varaformaður skipulags- og samgönguráðs.
Freyr Gústavsson, fulltrúi Viðreisnar í íbúaráði Grafarholts og Úlfarsárdals og formaður ráðsins.