Nei, þetta er ekki pistill um hversu margir geta verið í kirkju eða safni á sama tíma. Þetta er pistill um fjöldatakmarkanir á sambúð. Í dag birtu Píratar tillögu og beiðni um samráð um endurskoðun á hjúskaparlögum þannig að hjúskapur og skráð sambúð geti átt við um fleiri en tvo einstaklinga, skylda sem óskylda.
Fyrir um áratug var hjúskaparlögum breytt þannig að hjúskapur eða skráð sambúð væri á milli tveggja einstaklinga óháð kyni. Hér er bætt við að slíkur samningur sé óháður fjöldatakmörkunum af hálfu hins opinbera. Þrír í hjúskap? Af hverju ekki? Fjórar að ættleiða saman? Af hverju ekki? Fimm í sambúð sem bera sameiginlega ábyrgð á leigusamningi, af hverju ekki? Af hverju ætti ríkið að ákveða hverjir geti gert með sér slíka samninga?
Umræðan fer mögulega í sögulegar vangaveltur um fjölkvæni og inn á trúarlegar brautir. Barn á bara tvo líffræðilega foreldra og það stjórnar því hvað hjúskapur eða skráð sambúð felur í sér. Við erum hins vegar komin langt umfram þær takmarkanir. Börn eiga alls konar foreldra: Líffræðilega foreldra, fósturforeldra, nýjar mömmur og pabba eftir skilnað eða andlát, tvo pabba eða tvær mæður. Og af hverju ekki þrjár samkvæmt hjúskapar- eða ættleiðingarlögum?
Aukin þekking á kynvitund og kynhneigð undirstrikar fjölbreytileika mannfólksins. Það eru líka til sambönd milli tveggja eða fleiri einstaklinga sem eru ekki kynferðisleg á neinn hátt. Forsendur sambúðar eftir kynvitund eða kynhneigð koma löggjafanum ekki við.
Ríkisvarðar hefðir?
Við setjum ýmsar samfélagsvenjur í lög: Hvaða nafn fólk má bera, hvaða trúarsöfnuður er þjóðkirkja og hvernig það mátti ekki spila bingó á páskunum. Ef til vill eru þetta góðar og gildar hefðir en til hvers þurfa góðar hefðir lögverndun?
Tillaga um að hjúskapur og sambúð geti verið milli tveggja eða fleiri einstaklinga, óháð skyldleika, breytir í raun engum hefðum. Einungis er skilgreint að samningar milli einstaklinga um ákveðna ábyrgð, skyldur og réttindi geti verið milli fleiri en tveggja. Auðvitað ættu slíkir samningar að geta verið milli allra þeirra sem vilja gera slíkan samning – ekki takmörkum við aðra samninga við einungis tvo einstaklinga. Þrjár systur geta keypt saman hús en mega samkvæmt núverandi lögum ekki vera skráðar í sambúð í því húsi og geta ekki nýtt sér þau réttindi sem það hefði í för með sér.
Ég skil vel að þessi tillaga vefjist fyrir sumum, á sama hátt og einhverjum finnst enn flókið að hjúskapur geti verið milli tveggja einstaklinga óháð kyni. Það er skoðun og er fólki frjálst að haga sínum hjúskap samkvæmt þeirri sannfæringu sinni. Skoðun eins á hins vegar ekki að hafa áhrif á hjúskaparákvörðun annarra, hvað þá með hjálp ríkisvaldsins.
Ég vil hvetja öll til að segja skoðun sína á þessari tillögu, koma með ábendingar og athugasemdir. Það er hægt að gera með því að smella hér, þar sem jafnframt má finna nánari upplýsingar.
Höfundur er þingmaður Pírata.