Nú fyrir stuttu var viðtal við Tryggva Hjaltason í Ísland í dag. Í viðtalinu fór Tryggvi yfir það sem hann hefur verið að rannsaka og benda á seinustu ár, slæma stöðu drengja í íslenska menntakerfinu. En nú var hljóðið í honum enn þyngra og eru allar niðurstöður á þá leið að staða drengja fari versnandi á öllum stigum menntakerfisins. Ef ekki verður ráðist í miklar breytingar er útlit fyrir mikinn persónulegan og efnahagslegan skaða í okkar samfélagi í framtíðinni.
Nokkrar punktar varðandi stöðu íslenskra drengja í menntakerfinu:
- 34,4% drengja geta ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla. Það er tvöfalt hærra hlutfall en hjá stúlkum og aukning um 10% frá 2009.
- Ísland er eina Norðurlandaþjóðin þar sem drengir mælast eftir á í öllum Pisa greinum.
- Drengir eru tuttugu sinnum líklegri til að vera settir á þunglyndislyf en börn á hinum Norðurlöndunum. 15% drengja fara á hegðunarlyf.
- Brottfall úr menntaskólum er mjög hátt. 31% drengja hafa fallið úr námi á fyrstu fjórum árunum eftir innritun og Ísland hefur eitt hæsta hlutfall brottfalls drengja af öllum vesturlöndum þegar horft er til aldursins 25-34 ára.
- Hlutfall karla af nýnemum í háskólanum er 32%, var 37% tveimur árum áður.
Drengirnir okkar eru sem sagt að koma úr grunnskóla með sífellt lakari menntun, er ávísað þunglyndis- og hegðunarlyfjum í gríðarlegu magni strax ungum að aldri, falla í miklum mæli úr námi og eru í ört minnkandi minnihluta þeirra sem sækja sér háskólamenntun.
Hér hef ég ekki einu sinni byrjað á að fara yfir þá skerðingu á lífsánægju sem felst í skertu valfrelsi, skertri getu til þess að láta til sín taka á hinum ýmsu sviðum lífsins og áhrifum á líðan. Ein augljós vísbending um slíkt er sú staðreynd að óhemju hátt hlutfall íslenskra drengja eru á þunglyndislyfjum.
Ég held að það sé öllum ljóst að ef við takmörkum starfsmöguleika sirka eins og af hverjum sex Íslendingum (karlar verandi um helmingur landsmanna) hefur það gríðarleg efnahagsleg áhrif. Til að setja hlutina í smá samhengi dróst landsframleiðsla Íslands saman um rúm 10% á árinu 2020 í kjölfar Covid, sem er stærðarinnar högg. Ofur einföldun er að ímynda sér að einn af hverjum tíu hafi ekki unnið handtak á árinu. Það er því auðvelt að sjá að sú ákvörðun að takmarka starfsmöguleika eins af hverjum sex Íslendingum ekki bara í eitt eða tvö ár eins og Covid heldur áratugum saman hlýtur að hafa stór áhrif á efnahaginn. Það hefur ekki bara áhrif á þá einstaklinga sem hafa færri atvinnutækifæri heldur á þjóðfélagið allt því við missum af hugviti þeirra og tækninýjungum, missum af skatttekjum sem kynni að hljótast og fleira og fleira.
Okkur bíður ærið verkefni en það verður að taka þennan slag af fullri alvöru. Við verðum að átta okkur á þeim efnahagslegu og persónulegu áhrifum sem þessi staða hefur í för með sér. Þetta er ekki málefni sem á að vera á óskalista yfir verkefni í framtíðinni, menntun eru undirstaða hagkerfisins okkar.
Höfundur er Pírati og býður sig fram í prófkjöri Pírata í Reykjavík 2021.