Í mörg herrans ár hefur fagfólk bent á vanda drengja í skólakerfinu. Árið 1997 lögðu nokkrir þingmenn, m.a. Svanfríður Jónasdóttir og Siv Friðleifsdóttir, fram þingsályktunartillögu „Staða drengja í grunnskólum“ sem kvað á um að stofna nefnd sem skoði stöðu drengja í grunnskólanum. Þar segir: „Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem leiti orsaka þess að drengir eiga við meiri félagsleg vandamál að etja í grunnskólum en stúlkur og námsárangur þeirra er lakari. Jafnframt því að greina orsakir aðlögunarvanda drengja verði nefndinni falið að benda á leiðir til úrbóta.“ Í stuttu máli, hef ekki hugmynd hvort af þessu varð en margt bendir til að svo hafi ekki verið. Mér fróðari menn verða að svara því.
Enn bent á vandann
Undanfarin áratug eða svo hefur fagfólk bent á lélega lestrargetu drengja og lesskilning þeirra. Sama um stöðu þeirra í skólakerfinu. Endurtekið efnið. Meðal annars byggt á rannsóknum erlendis frá. Margir ráðherrar menntamála hafa farið og komið. Enn er staða drengja slæm og samkvæmt tölum sem til eru lagast ekkert. Fer versnandi ef eitthvað er. Greiningum fjölgar og lyfjanotkun hegðunarlyfja eykst eins og bent hefur verið á í gegnum talnabrunn embætti landlæknis.
Menntastefnu til ársins 2030 leggur Menntamálaráðherra stoltur fram við hvert tækifæri og vitnar til sem framþróun í skólakerfinu. Gott og vel. Hvergi er minnst orði á vanda drengja. Hvað þá að taka eigi á vandanum. Drengir telja samt um helming nemenda í grunnskólakerfinu. Vandi drengja virðist ekki koma þjóðinni við. Kannski þurfum við að bíða önnur 30 ár eftir að ráðherra menntamála leggi við hlustir. Ekki er svo með öllu illt...því ráðherra menntamála lagði við hlustir þegar kynlífsfræðsla í grunnskólanum var gagnrýnd.
Fámennur hópur
Áhugamenn um kynfræðslu í grunnskólum létu í sér heyra. Vantar femínískt sjónarhorn inn í fræðsluna eftir því sem næst verður komist. Áhugafólkið hitti ráðherra í hjartastað. Kynfræðsla í grunnskólanum er sögð arfaslök. Veit ekki hvort það hafi verið sérstaklega rannsakað. Hafi það verið gert veit ég ekki hvar sú eða þær rannsóknir voru birtar. Kynfræðsla og uppbygging hennar byggist meðal annars á lestri. Hvað gerist þegar helmingur þeirra sem njóta kynfræðslunnar getur ekki lesið sér til gagns? Er ekki ljóst að eitthvað fer ofan garð og neðan.
Hvað þarf til
Mun seint teljast sérfræðingur í lestrarkennslu barna en mér fróðara fólk bendir á vandann. Alþjóðleg próf benda á vandann. Ásókn drengja í framhaldsnám bendir á vandann. Líðan drengja í grunnskólanum bendir á vandann. Allt bendir í sömu átt, drengir eiga við vanda að etja. Íslenska þjóðin þarf að lyfta Grettistaki til að efla læsi og lesskilning drengja. Lestrarþjálfun er á ábyrgð foreldrar rétt eins og skólans sem kennir lestæknina. Fræðimenn hafa bent á gagnreyndar aðferðir og á það ber að hlusta.
Þegar í grunnskólann kemur ættu foreldrar að skrifa undir samning við skólann að þeir sjái um þjálfun lestursins heima fyrir. Skólinn og foreldrar eiga að setja sameiginlega markmið með lestrarkennslu nemenda, drengja og stúlkna. Þegar skólinn og foreldrar vinna að sömu markmiðum getur varla neitt annað en gott komið út úr því fyrir nemanda. Standi foreldrar ekki við samning ætti skólinn að kalla þá inn til viðræðna um markmiðin sem voru sett fyrir barnið. Allt í þágu barnsins, lestrargetu þess og framvindu í námi. Foreldrar þurfa að axla ábyrgð á barni sínu þegar að lestri og námi kemur.
Ekkert bakland
Finna má börn sem hafa ekki það bakland sem þarf til að sinna lestrarþjálfun. Þá þarf skólinn að taka til sinna ráða og þjálfa þá. Skólakerfið má ekki skilja nemendur eftir þjálfunarlausa. Slíkt hefur afleiðingar.
Fyrir nokkrum árum voru til staðar lestrarömmur og -afar. Þá var fólki á lífeyrisaldri gert kleift að koma inn í skólann og þjálfa börn í lestri. Það væri vel ef slíkt kerfi væri tekið upp að nýja og að eldra fólkið hefði áhuga á að vera þjálfari í lestri.
Höfundur er M.Sc. M.Ed.