Í desember sl. kom út skýrsla utanríkisráðuneytisins sem ber heitið „Áfram gakk“. Lýsir hún allvel þróun þessa málaflokks og þeirri stefnu sem núverandi ráðherra hefur fylgt eftir. Við lestur hennar og ekki síður viðbragða við henni dúkkar enn einu sinni upp ólík sýn ýmissa hagaðila. En í grundvallaratriðum birtist í skýrslunni lýsing á þróun málaflokksins og því ber að fagna.
Það er hins vegar ekki að spyrja að fréttunum hjá Félagi atvinnurekenda frekar en fyrri daginn þegar framkvæmdastjóri þeirra er inntur álits á skýrslunni, sjá umfjöllun Kjarnans 24. janúar sl. Er þar stefna stjórnvalda í tollamálum kölluð tvískinnungur og að í skýrslunni sé „[…] skautað létt yfir tollvernd íslensks landbúnaðar […]“.
Nú er ég raunar sammála því að í skýrslunni sé einmitt „skautað létt yfir tollvernd landbúnaðar“ og vil máli mínu til sönnunar benda á fáeinar staðreyndir. Á bls. 23 í skýrslunni eru taldir upp fríverslunarsamningar sem Ísland er aðili að. Í töflunni er hins vegar ekki nefndur einn einasti fríverslunarsamningur um landbúnaðarvörur sem Ísland hefur gert samhliða þeim fríverslunarsamningum sem EFTA hefur gert við einstök ríki eða ríkjahópa.
Fríverslunarsamningar um viðskipti með landbúnaðarvörur
Eftir því sem næst verður komist er hér um að ræða um 20 samninga, sá elsti við Tyrkland frá 1991. Um er að ræða sjálfstæða samninga sem hvert EFTA-land um sig gerir sjálfstætt samhliða almennum fríverslunarsamningi. Hvergi í fyrrnefndri skýrslu, „Áfram gakk“, né á vefsvæði íslenska stjórnarráðsins er að finna yfirlit um þessa samninga og fæstir verið þýddir á íslensku. Því má segja að mönnum sé nokkur vorkunn að þekkja ekki til þeirra. Tvímælalaus lagaskylda hvílir þó á íslenska ríkinu bæði að þýða þessa samninga sem og að birta í C-deild Stjórnartíðinda eins og gert hefur verið um suma þeirra, sbr. 4. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Til upplýsinga þá taka þessir samningar alls ekki einvörðungu til vara sem ekki eru framleiddar á Íslandi. Þessum tollfríðindum eru ekki gerð skil í skýrslunni.
Raunveruleg tollvernd gagnvart ESB
Rökræður um umfang tollverndar íslensks landbúnaðar minna einatt helst á för snigilsins upp sleipa brekku, hann rennur jafnharðan niður aftur. Rétt er það að tollar eru lagðir á flestar búfjárafurðir (mjólk og kjöt) sem flokkast í tollakafla 02, 04, 1601 og 1602. En þá er þetta líka nánast upp talið. Vörur sem t.d. innihalda allt að 60% kjöt eru margar án tolla. Á dögunum settist ég niður með íslensku tollskrána og bókstaflega taldi þau tollskrárnúmer sem bera toll annars vegar samkvæmt „bestu kjarareglu“ WTO (Most Favoured Nation, MFN, þ.e. kjör sem öllum aðildarlöndum WTO bjóðast) og hins vegar gagnvart ESB. Þrír samningar liggja til grundvallar fríverslun með búvörur milli ESB og Íslands:
• Í fyrsta lagi Fríverslunarsamningur ESB og Íslands frá 1972,
• í öðru lagi samningur á grundvelli 19. gr. og Bókunar 3 í EES samningnum frá 1. mars 2007 um landbúnaðarvörur og
• í þriðja lagi samningur (sem telst raunar uppfærsla á þeim fyrri) um landbúnaðarvörur sem tók gildi 1. maí 2018.
Á grundvelli þessara samningar hefur ESB tollfrjálsan aðgang fyrir 84% af búvörum í köflum sem taka til ætra búvara (85% í köflum 1, 2 og 4-24) meðan almenn kjör (MFN) veita tollfrelsi fyrir um 50%. Þar að auki er búið að festa tollverndina fyrir stærstan hluta vara í kafla 02, 40% lægri en almenn kjör veita. Rétt hefði verið að gera grein fyrir þessu í svo umfangsmikilli skýrslu þegar þar að auki liggur fyrir ákveðinn „birtingahalli“ á samningunum.
Rökrétt samband stefnu og aðgerða
Að mínu mati felst enginn tvískinnungur í stefnu stjórnvalda varðandi að viðhalda tollvernd á landbúnaði en sækja fram í sjávarútvegi – stefna stjórnvalda tekur mið af augljósri staðreynd; mismunandi aðstæður sem leiða af landfræðilegri legu landsins. Íslenskur sjávarútvegur nýtur einstakrar stöðu sökum ríkra fiskimiða í norðanverðu Atlantshafi og nálægðar við fiskimiðin – sú staða er fordæmalaus samanborið við önnur ríki.
Íslenskur landbúnaður stendur hins vegar frammi fyrir áskorunum vegna landfræðilegrar legu. Veturinn er lengri og sumarið styttra en á meginlandi Evrópu og veðurfar oft á tíðum óstöðugra. Skilyrði til búrekstrar eru því að mörgu leyti auðveldari í öðrum ríkjum samanborið við Ísland. Langtímastefna sem byggir á raunverulegum aðstæðum og endurspeglar aðstöðumun bænda á ólíkum svæðum er skynsamleg og raunsæ.
Öllum má því vera ljóst hver stefnan er. En það að sífellt sé látið að því liggja að tollvernd búvara hér á landi skeri sig úr frá öðrum þjóðum þegar hið sanna er að um mjög fáar vörur er ræða, minnir meira á einhverskonar tvískinnung en lýsingu á einföldum staðreyndum.
Höfundur er hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni.