Í umræðu um stóriðju á Alþingi á fimmtudag (28. janúar) sagði málshefjandinn, Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins:
„Ég hef verið þeirrar skoðunar að okkar mesta framlag til loftslagsmála á heimsvísu hafi verið framleiðsla á umhverfisvænasta áli í heimi. Ég fullyrði að ekki er til grænna ál í heiminum en það sem er framleitt hér á landi með endurnýjanlegri orku.“
Raunar gæti þessi fullyrðing alveg eins átt við Noreg, en það er önnur saga.
Þegar við berum niður aðeins síðar í ræðu Bergþórs, þá segir hann: „Ekki ætla ég að standa hér og halda því fram að raforka skuli afhent fyrirtækjunum á útsöluprís,“ en segir sig skilja strategísk samningaútspil beggja aðila og dregur þá ályktun „að með heldur ákveðnum hætti sé gengið fram hvað það varðar að ná fram verðhækkunum í raforkusölusamningum eða viðhalda ósjálfbæru verði“.
Hér er þungt reitt til höggs og spyrja verður hverjir þessu óprúttnu aðilar eru sem vilja okra á helstu bjargvættum gegn hamfarahlýnun hér á landi, stóriðjuhringunum. Bergþór er ekki í vafa og segir: „Hópar sem margir hverjir hafa lítinn skilning á verðmætasköpun hafa gengið fram með þeim hætti að augljóst er að þeir vilja fyrirtækin, hið minnsta sum þeirra, í burt.“
Sennilega á Bergþór ekki við Rótarý í Stykkishólmi heldur náttúruverndarsamtökin vondu fyrir sunnan. Hann bætir við og segir:
„Auðvitað er hinum ýmsu félagasamtökum og einstaklingum frjálst að hafa allt á hornum sér gagnvart þessum mikilvægustu orkukaupendum landsins. En þegar skilaboð stjórnvalda virðast á löngum köflum vera þau að stuðningur við slíka starfsemi sé horfinn, þá versnar í því.“
Með öðrum orðum: Náttúruverndarsamtök sem skortir skilning á verðmætasköpun mega hafa málfrelsi en það má ekki leiða til að stuðningur ríkissjóðs við orkukaupendur minnki.
Kenningin er þessi: Handhafi hlutabréfs ríkisins í Landsvirkjun, sjálfur fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, er orðinn laumu-landverndari og hann hefur falið Herði Arnarssyni að fylgja slíkri stefnu, enda sé hann nú alræmdur fyrir óhóflegar arðsemiskröfur með þeim afleiðingum, að „mestar fréttir [hafi] borist af því að fyrirtækin kveinki sér undan uppfærðum raforkusölusamningum.
Þessi stefna sé óhæfa, enda séu álverin hér á landi „með hvað lægsta kolefnisfótspor álfyrirtækja í heiminum“.
Staðreyndin er sú að öll álver alls staðar í heiminum verða að hætta allri losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta skilja eigendur Fjarðaáls og Ísals í Straumsvík, Alcoa og Rio Tinto. Þeir hafa nú ásamt Apple og stjórnvöldum í Kanada hafið byggingu álvers í Montréal sem ekki brennir kolarafskautum til að bræða ál. Markmiðið er að nýta þessa nýju tækni til að byggja ný álver en ekki síður til að endurnýja þá tækni sem hefur verið nýtt í áliðnaði frá árinu 1886. Framtíðin er kolefnishlutleysi og til þess þurfum við kolefnisfrí álver, líkt og Líneik Anna Sævarsdóttir benti á í gær. Ekki bara á Íslandi heldur um allan heim.
Ekki skal vanmetinn áhugi Miðflokksmanna á loftslagsmálum en það er því miður misskilningur hjá Bergþóri að minna kolefnisspor álvera á Íslandi samanborið við álver í Kína geti talist viðunandi eða „umhverfisvænt“. Svo er ekki.
Í september sl. lýsti forseti Kína, Xi Jinping, því yfir að Kína stefndi á kolefnishlutleysi árið 2060. Þetta er fyrsta langtímaáætlun Kína í loftslagsmálum, og þýðir að árið 2060 mun losun koltvísýrings í Kína verða núll eða – sem er líklegra – dragast verulega saman, og að magn þess kolefnis sem er umfram núll-losun verði fjarlægt úr andrúmsloftinu með einhverjum hætti. Gefur auga leið að ný tækni til að bræða ál á eftir að kosta minna en að fjarlægja allt það kolefni sem núverandi tækni veldur.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.