Samkvæmt því sem segir hér í frásögn Kjarnans.is hefur Gylfi Zoega skilning á því að menn hrökkvi við þegar rætt er um sölu bankanna frá ríkinu til einkaaðila og bendir á að:
„Mikil áhætta gæti skapast í rekstri kerfislega mikilvægra banka ef þeir eru í einkaeigu, sökum takmarkaðrar ábyrgð eigenda þeirra og tryggingar um að ríkið komi þeim til bjargar þegar illa gengur."
En Gylfi bendir einnig á hina hliðina:
„að ríkisrekstur bankanna gæti einnig aukið hættu á spillingu innan fjármálakerfisins, þar sem stjórnmálamenn gætu hlutast til í ákvörðunum um lánveitingar."
Og við sem munum eftir gömlu ríkisbönkunum (og frjálsa okurlánakerfinu sem starfrækt var neðanjarðar) getum bent á, að ekki var sá bankarekstur alheilbrigður, né til neinnar sérstakrar fyrirmyndar.
Þar voru sumir jafnari en aðrir og stundum guldu menn fyrir skoðanir sýnar. Hvort heldur sem um var að ræða skoðanir í stjórnmálum eða á einhverju öðru og komið gat fyrir að menn „voru teknir niður" og neitað um lánafyrirgreiðslu.
Einnig gat það líka gerst, að þegar þeir sem rétt voru staðsettir í kerfinu og rétt innmúraðir, en voru komnir upp að vegg í brölti sínu: að þá væru þeir einfaldlega „greiddir út" með almannafé, sem sem kom eftir dularfullum leiðum úr ríkissjóði.
Það eru sem sagt tvær hliðar á þessum peningi. Gamla ríkisbankakerfið var alls ekki gallalaust og al-„frjálsir" ríkisbubbabankar eru það ekki heldur. Því þarf að vanda til verka.
Lán sótt í banka
Í þessu sambandi rifjast upp saga af ungri konu sem fór í banka til að fá afgreitt húsnæðislán sem hennar beið. Var konunni vísað til bankastjóra í útibúi hins gamla Búnaðarbanka og er þangað kom, boðið til skrifstofu útibússtjórans, manns sem ekkert hafði í raun með málið að gera. Fyrir honum átti hún að bukta sig og beygja eftir að hafa beðið afgreiðslu til þess eins að eyða tíma sínum. Er hún gekk inn á skrifstofu útibússtjórans, heilsaði hann með þessum orðum: „Hverra manna ert þú góða mín?"
Konan sem var bæði skörp og stolt, svarað að bragði: „Hvað kemur það málinu við?"
Bankastjórinn sá að sér, sagði lítið meira, afgreiddi lánið og lét gott heita.
Á þessum árum var það þannig, að lán til íbúðarhúsabygginga í sveitum voru afgreidd í gegnum Búnaðarbankann. Sá banki var ekki viðskiptabanki konunnar þegar þetta var, en seinna var hún og hennar fjölskylda neydd til viðskipta við bankann vegna viðskipta sem greidd voru með víxlum sem ekki mátti selja nema í Búnaðarbanka(!), banka sem auk vaxta tók af upphæðinni ákveðna prósentu og lagði inn á bundinn reikning hjá sjálfum sér.
Þá upphæð var hægt að fá greidda út með föstu ástigi í ístaðið, blönduðu svipusveiflu og hótunum. Væri það hins vegar gert, var eins líklegt að þar með væri viðskiptum með Búnaðarbankavíxla lokið í þeim banka og alls ekki öruggt að aðrir bankar keyptu slíka víxla.
Önnur saga og eldri
Aðra sögu og til muna ljótari má lesa um í bók Njarðar P. Njarðvík „Spegill Þjóðar". Þar segir frá því í kaflanum „Veröld móður minnar" hvernig „bankastjóri gekk miskunnarlaust að" foreldrum Njarðar – en faðir hans rak netagerðarverkstæði – eftir að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafði fellt gengið um 42,6% og lét síðan samþykkja lög nr. 120 28. desember 1950, á Alþingi um afskriftir skulda útgerðarmanna um 98%. Faðir hans fékk m.ö.o. 2% af því sem útgerðin skuldaði og það ekki allt í einu, heldur með vaxtabréfum til 15 ára!
Þetta var „hrun" þessarar litlu fjölskyldu og því var ekki að heilsa að þáverandi forsætisráðherra trommaði upp með skrípasýningu sem hann kallaði „leiðréttingu". Öðru nær, því hér var kné látið fylgja kviði og bankastjórinn gekk miskunnarlaust að föður Njarðar og kom eigum hans í hendur flokksbróður síns úr Framsóknarflokknum. Eftir að faðir Njarðar lést notaði Framsóknarmaðurinn í bankastjórasætinu síðan tækifærið og kom ekkjunni endanlega á kné, sem þar með stóð uppi sem „allslaus 47 ára ekkja" árið 1957. Njörður vitnar síðan í lok kaflans í orð Jóns Hreggviðssonar: „Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti".
Niðurstaða
Það er sem sé að ýmsu að hyggja í bankamálunum og alls ekki víst að viðskipti við ríkisbanka séu „heilbrigðari" en við einkabanka. Veldur hver á heldur eins og þar stendur og svo mikið er víst, að Landsbankinn, sem var viðskiptabanki þeirrar sem hér sagði fyrr frá, beitti ekki sömu brögðum og Búnaðarbankinn gerði í sínum viðskiptum við ungu konuna. Konuna sem kunni ekki að meta ávarp bankastjórans.
Höfundur er fyrrverandi bóndi.