Þórður Snær Júlíusson gerði mér þann heiður að skrifa langa grein um nýútkomna bók mína „Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar“ síðastliðinn föstudag, degi efir útkomu hennar. Að einhverju leyti fannst mér grein Þórðar bera þess merki að vera skrifuð í nokkru hasti, svo að ýmislegt hafði þar skolast til sem mætti leiðrétta, en ég ætla samt að hlífa lesendum við sparðatíningi. Aðeins óþægilegt þótti mér hve tónn hennar var yfirlætislegur; þeir sem ekki hafa lesið bókina gætu fengið það á tilfinninguna að ég sjálfur vissi nær ekkert um viðfangsefni hennar en ritstjórinn hinsvegar allt; „Vi Alene Vide“ sögðu danskir konungar forðum í sinni rojal fleirtölu ef aðrir menn töldu sig hafa á réttara að standa um eitthvað málefni en þeir, og hefði það kannski verið passandi fyrirsögn á skrifi ritstjórans.
Eina athugasemd vildi ég samt fá að bera fram, en í grein Þórðar er klappaður sá steinn að skuldir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við hrun hafi verið um eða yfir þúsund milljarðar íslenskra króna, en svipuð staðhæfing hefur oft verið borin fram í Morgunblaðinu, og sögð fengin úr Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þórður Snær segir reyndar að JÁJ hafi oft gert athugasemd við þann útreikning, sem er kannski ekki skrýtið því að þessi upphæð virðist alröng. Ástæða þessa misskilnings liggur í nokkrum atriðum; þannig hefur verið bent á að ýmsar skuldir og ábyrgðir hafa í þeim reikningi verið tví eða fjórtaldar; skuld eins fyrirtækis er með ábyrgð í eignum annars í eigu sömu aðila; dótturfyrirtæki leggur fram veð í móðurfyrirtæki eða öfugt, og er þá sama lánið eða ábyrgðin tínd til á báðum stöðum og hækkar því í samlagningu sem því nemur. Einnig hefur verið bent á að að sumpart er verið að telja til skulda Jóns Ásgeirs lán fyrirtækja sem hann átti aðeins lítinn hlut í, kannski í kringum tíu prósent – varla væri sanngjarnt að telja allar skuldir Icelandair á ábyrgð einstakra hluthafa þess ágæta fyrirtækis? Ég ætla ekki að fara að jagast um svona reikningsdæmi, enda snýst þetta ekki um aðalatriði eða erindi minna bókarsskrifa, en vilji nú ritstjóri Kjarnans heldur hafa það sem sannara reynist vísa ég hér til þessarar úttektar Viðskiptablaðsins.
Ég veit að það er hálf hallærislegt að við, venjulegir launabaslarar eins og ég Þórður Snær, séum að rífast um, eins og það skipti máli, hvort einhver maður hafi skuldað tvöhundruð og fjörtíu milljarða, eða þúsund milljarða. En þar sem ýmsir menn í netspjalli og víðar um áðurnefnda Kjarnagrein, og það líka mér og bókinni hliðhollir, höfðu á orði að augljóst væri að Þórður Snær væri mér greinilega mun fremri sem viðskiptablaðamaður (og við slíkar staðhæfingar geri ég enga athugasemd) þá vildi ég koma þessari leiðréttingu á framfæri. Ef minn góði kennari Pálmi Pétursson í tólf ára bekk Æfingaskólans á liðinni öld hefði lagt fyrir mig reikningsdæmi þar sem rétt útkoma var 240 en ég hefði skrifað 1000, þá hefði hann gefið mér einkunnina núll. Og sama einkunnagjöf finnst mér vera passandi hér.
Höfundur er rithöfundur.