Það er flókið að setja verðmiða á margt í lífinu, eiginlega flest ef út í það er farið. Hvert er raunverulegt virði hlutanna? Stundum fer það eftir framboði og eftirspurn og því hvað fólk er tilbúið að greiða fyrir. Það má líka spyrja hvort sé yfirleitt hægt að setja verðmiða á margt sem kannski skiptir okkur mestu máli: Líf og dauða, heilsu, vellíðan, náttúru og umhverfi.
Hvers virði er er til dæmis fljót sem rennur úr Vonarskarði og niður í sjó innan sama sveitarfélags og hefur frá því að land byggðist skipt byggðinni? Var hér áður fyrr verulegur farartálmi á ferðalögum fólks en í nútímanum brúað og rennur að mestu óáreitt framhjá lífi okkar sem þeytumst yfir það fram og til baka og veitum því án efa mismikla eftirtekt. Er það þá einhvers virði? Er hægt að setja verðmiða á það eins og vörur sem við kaupum í búð eða pöntum á netinu? Er hægt að verðleggja hlutdeild þess í lífi okkar og tilveru?
Þegar þetta er ritað bendir ýmislegt til að Einbúavirkjun í Skjálfandafljóti fari inn á aðalskipulag Þingeyjarsveitar. Hún hefur farið í gegnum hefðbundin ferli umhverfismats þar sem m.a er fjallað um áhrif á vernduð hraun, samfélagsáhrif og svo mætti áfram telja, af fólki sem hefur það að starfi að meta og gefa álit um slíkt. Fyrirhuguð framkvæmd var kynnt á opnum fundi í Bárðardal 22. janúar 2018, fyrir rétt rúmum þremur árum, og frummatsskýrsla kynnt í september 2019. Þar segir m.a.:
„Bárðardalur hefur yfirbragð rólegs hefðbundins landbúnaðarlandslags og heildarsvipurinn er í góðu jafnvægi. Bæir eru margir í dalnum og ekki langt á milli þeirra. Svæðið hefur ekki sérstöðu á landsvísu eða svæðisvísu vegna landslagsmynda, náttúruminja eða sérstaks menningarlandslags. Yfirbragð svæðisins telst hafa miðlungs gildi fyrir fjölbreytileika og upplifun, þar sem ekki er um að ræða landslag með sérstaka eða mikilfenglega eiginleika, eða einstök kennileiti sem skera sig úr landslagsheildinni vegna sérstöðu sinnar. Svæðið telst hafa lágt verndargildi“.
Samkvæmt Látra Björgu er Bárðardalur besta sveit „þó bæja sé langt í milli“. Hvers er að dæma? Hefur farið fram einhver umræða um þetta eða framtíðarsýn og ásýnd samfélagsins meðal íbúanna eða skiptir þetta okkur engu máli?
Markmið sameiningar
Nú standa yfir sameiningarviðræður Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps og í samstarfi þeirra sveitarfélaga er framfaraverkefnið Nýsköpun í norðri. Þar hafa sveitarstjórnir sveitarfélaganna tveggja sett sér markmið um að nýtt sveitarfélag verði þekkt og eftirsótt fyrir frábært mannlíf og einstaka náttúru. Þar er einnig talað um að til þess að svo megi verða sé mikilvægt að samspil verndunar náttúru og verðmætasköpunar atvinnulífs sé skýrt. Nú þekki ég ekki umræðuna sem fram hefur farið innan sveitarstjórnar en er ekki eðlilegt að samtal eigi sér stað meðal íbúa og sveitastjórnar um kosti og galla framkvæmda sem þessara? Því vissulega eru þeir til staðar eins og gefur að skilja.
Er ekki líka eðlilegt að velta fyrir sér kostum og göllum, eða tækifærum og ógnunum, sem felast í virkjun Skjálfandafljóts sem er ein fárra jökuláa sem enn er óvirkjuð á landinu og lagt er til að verði í verndarflokk samkvæmt Rammaáætlun 3? Er ekki líka eðlilegt að sú umræða sé tekin á þann hátt að fólk geti velt upp þessum kostum og göllum og rætt þá fram og aftur eins og veðrið? Við erum jú ekki alltaf sammála um veðrið frekar en þessi stóru mál en einhvern veginn náum við að geta rætt veðrið án þess að samfélagið þurfi að skipa sér í fylkingar eða jafnvel stríðandi fylkingar.
Svona framkvæmd hefur talsverð áhrif á ásýnd dalsins stuttu fyrir ofan Goðafoss sem er friðlýstur. Finnst okkur það að hafa virkjun eða hafa ekki virkjun í fljótinu vera einhvers virði? Í áliti Skipulagsstofnunar frá síðasta sumri er sagt að framkvæmdir raski eldhrauni sem almennt nýtur verndar nema brýnir almannahagsmunir krefjist annars. Um hvaða almannahagsmuni erum við að tala hér og hvers virði teljum við þá vera? Ekki virðist vera svo yfirvofandi orkuskortur í landinu að svona virkjun skipti þar máli. Er hér kannski um að ræða hagnað orkufyrirtækis frekar en brýna almannahagsmuni? Krapasöfnun er algengt vandamál í virkjunum hér norðanlands ekki hvað síst í rennslisvirkjunum. Er þetta áhættusöm framkvæmd hvað það varðar eða er það tilraunarinnar virði?
Það er mín skoðun að við sem samfélag eigum og þurfum að geta tekið umræðuna og vegið kosti og galla framkvæmda sem þessara frá mörgum hliðum og á málefnalegan og yfirvegaðan hátt. Hvers virði er samfélagið ef við getum það ekki? Er mannlífið enn frábært og náttúran einstæð ef farið verður í framkvæmd af þessu tagi án vandaðrar umræðu?
Höfundur er bóndi.