Þjóðir, líkt og einstaklingar, verða sterkari þegar þær vinna saman. Ég held reyndar að flestir geri sér grein fyrir því og á þessum tímapunkti væri hægt að velta fyrir sér hvort þetta sé grein um almenna skynsemi. Kannski svona hentugur listi með spakmælum á borð við: „Það er gott að drekka vatn þegar maður er þyrstur“ eða „grímur draga úr smithættu“. Hið síðarnefnda vefst vissulega fyrir fáeinum en vert er að minna á mikilvægi þess sem hljómar sjálfsagt þegar heimsfaraldur kann að draga fram ýktari viðbrögð á meðal fólks.
Til marks um hversu skrítinn þessi tími er hafa yfirvöld svo gott sem lokað landamærunum til þess að við getum lifað eins öruggu og frjálsu lífi og kostur er á. Það er enda skiljanlegt þegar raunveruleg ógn blasir við okkur utan landamæra. En hættan er sú að við lítum á tímabundna smithættu sem ástæðu til að loka á samstarf við mikilvæga bandamenn, í nafni sjálfsbjargarviðleitni.
Evrópusambandið tryggir bóluefni
Síðustu mánuðir hafa verið kraftaverki líkastir. Fyrirtæki og stofnanir erlendis hafa búið til bóluefni gegn COVID-19 á einungis nokkrum mánuðum og kappkosta að framleiða nógu mikið af því fyrir allt mannkynið á eins stuttum tíma og hægt er, svo að kveða megi faraldurinn niður. Það gerir bóluefnið að einni eftirsóttustu vöru veraldar og því ekki sjálfsagt að örþjóð, eins og Ísland, fái yfir höfuð sinn skammt. Blessunarlega erum við með annan fótinn inni í Evrópusambandinu (ESB) í gegnum samninginn um Evrópska Efnahagssvæðið (EES). Það hefur gert nágrannaþjóðum okkar kleift að semja um bóluefnaskammta handa Íslendingum, vel umfram það sem okkur vantar.
Ýmsir efasemdarmenn um evrópusamstarf hafa velt því upp hvort það hafi verið mistök að treysta á ESB við gerð þessara samninga, í ljósi þess að þjóðir á borð við Bandaríkin og Bretland hafi tryggt sér stóra skammta strax á meðan hægar gengur í Evrópu. Slíkt er skiljanlegt. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir þjóðina að hér verði bólusett fljótt og vel og ESB hefði átt að geta samið betur en raun ber vitni.
Göngum alla leið í ESB
Síðustu áratugi hefur Ísland tilheyrt EES og því hálfpartinn hluti af Evrópusambandinu. Margir óttuðust að með aðild að EES myndu þjóðareinkenni Íslands dvína, við þyrftum að greiða dýru verði fyrir aukið viðskiptafrelsi og að í því fælist of mikið valdaframsal. Raunin hefur þó aðeins verið jákvæð. Hagsæld Íslendinga hefur aukist mikið og staða okkar batnað á alþjóðavísu. Nú síðast hefur þetta bandalag tryggt okkur nægt magn bóluefnis gegn hættulegum heimsfaraldri. Almennt er ávinningurinn af samstarfi við ESB af hinu góða.
Með EES erum við með annan fótinn inni í ESB. En með fullri aðild og báða fætur inni myndi staða okkar styrkjast enn frekar og tryggja okkur Íslendingum meiri ávinning og ákvarðanavald að auki. Samstarfið við ESB og þau tækifæri sem það býður upp á eru ekki sjálfgefin. Þess vegna megum við ekki leyfa þeim sem kjósa að draga úr samstarfi við ESB að stýra umræðunni. Við komumst í gegnum heimsfaraldurinn einmitt með því að starfa með vinum okkar handan sjóndeildarhringsins og vera þjóð meðal þjóða.
Höfundur er stofnfélagi Viðreisnar, varaborgarfulltrúi og fyrrv. formaður Ungra Evrópusinna.