Þjóðgarðar og hálendið hafa verið í brennidepli í vetur í ljósi stjórnarfrumvarps um Hálendisþjóðgarð sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Umræðan hefur verið lífleg og oft á tíðum hörð, sem sýnir hversu mikið er í húfi. Sem formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs þykir mér skipta máli að sú umræða yfirfærist ekki með villandi hætti yfir á þann þjóðgarð sem hefur verið til staðar í meira en áratug.
Um þessar mundir er eitt ár liðið frá því ég tók að mér það hlutverk að leiða stjórn þjóðgarðsins. Það er mikil ábyrgð sem fylgir því verkefni enda um einstakan þjóðgarð að ræða sem hefur m.a. verið samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO á grundvelli stórbrotinnar náttúru. Lærdómskúrfan hefur verið brött. Verkefnin eru fjölmörg og ýmis snúin álitaefni sem þarf að taka afstöðu til.
Tvennt er mér efst í huga eftir að hafa kynnst starfi Vatnajökulsþjóðgarðs: Faglegt starf þeirra mörgu sem starfa í þjóðgarðinum og síðan stjórnkerfi þjóðgarðsins, sem er að mörgu leyti óvenjulegt, talsvert flókið en jafnframt framsækið.
Fagmennska í fyrirrúmi
Það fer fram einstakt faglegt starf hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Á opinberum vettvangi og í ýmsum hópum á samfélagsmiðlum hefur verið vísað til landvarða og þjóðgarðsvarða sem einstaklinga í „lögguleik“ sem allt vilji banna. Raunveruleikinn gæti ekki verið fjær þeirri mynd.
Hjá þjóðgarðinum hef ég kynnst öflugu starfsfólki, vel menntuðu og víðsýnu, með ástríðu fyrir starfinu sínu. Vissulega er eftirlit einn hluti af starfssviði landvarða en gestagjafa- og fræðsluhlutverkið er mun stærri þáttur í starfinu. Viljinn til að fræða og skapa andrúmsloft þar sem gestir upplifa að þeir séu velkomnir er leiðarljós í starfseminni.
Samstarf og samráð er alltaf það sem stefnt er að. Þannig hefur starfsfólk t.d. lagt mikla áherslu á samráð við hagaðila í ferðaþjónustu við fyrstu skrefin í innleiðingu atvinnustefnu og hefur nálgast það krefjandi og flókna verkefni af mikilli auðmýkt og vilja til að læra af reynslunni.
Valddreifing með skýrum leikreglum
Á meðan starfsfólk þjóðgarðsins sinnir daglegum verkum þá er það stjórn þjóðgarðins, í samvinnu við alls fjögur svæðisráð, sem leggur stóru línurnar. Á okkar borði er m.a. stjórnar- og verndaráætlun og innleiðing atvinnustefnu í samræmi við þau markmið sem sett eru í lögum og reglugerð um þjóðgarðinn. Þetta tveggja laga stjórnkerfi er eitt af því sem gerir Vatnajökulsþjóðgarð sérstakan sem ríkisstofnun. Fyrirkomulagið er í takti við alþjóðlega þróun, þar sem sífellt meiri áhersla hefur verið lögð á valddreifingu og þátttöku hagaðila við stjórnun verndaðra svæða.
Í ljósi þess að um nýjung er að ræða í íslenskri stjórnsýslu hefur tekið tíma að stilla saman strengi. Fyrirkomulagið þýðir að talsverðan tíma getur tekið að afgreiða mál. Það þarf þó ekki endilega að vera slæmt því samtalið er mikilvægt. Og í langflestum tilvikum næst á endanum niðurstaða í góðri samvinnu starfsmanna, svæðisráða og stjórnar. Í þeim álitamálum sem djúpstæðari ágreiningur hefur gert vart við sig hefur þó afhjúpast ákveðin óvissa um hvaða reglum ber að fylgja og hvernig best sé að haga flæði upplýsinga milli svæðisráða og stjórnar þjóðgarðsins. Þar sem fyrirmyndir skortir er ekki alltaf augljóst hverjar leikreglurnar eru og þetta hefur valdið vandræðum.
Augljósasta dæmið er deilan um Vonarskarð, sem talvert hefur verið vitnað til í umræðum um frumvarp um Hálendisþjóðgarð. Hér er mikilvægt að draga lærdóm af ferlinu, bæði fyrir stjórnvöld og fyrir núverandi stjórn og svæðisráð Vatnajökulsþjóðgarðs, til að forðast að fleiri mál lendi í samskonar skotgröfum og hefur því miður verið raunin í þessu tiltekna máli. Vonarskarðsmálið þýðir þó ekki að þessi tegund dreifðs stjórnkerfis geti ekki virkað. Fyrir okkur er það einfaldlega brýning um mikilvægi þess að skerpa á verklagi og gera leikreglur skýrari, skilvirkari og gegnsærri.
Harmleikur almenninga
En hvers vegna þurfum við yfir höfuð þjóðgarða? Af hverju var Vatnajökulsþjóðgarður stofnaður? Af hverju er þörf á að huga að framtíð hálendisins til lengri tíma?
Þeir sem hafa lesið sér til um stjórnun náttúruauðlinda og umgengni mannkyns við náttúruna þekkja margir hugtakið „Harmleikur almenninga“ sem er eignað vistfræðingnum Garrett Hardin en hann birti grein undir þessu nafni í tímaritinu Science árið 1968. Hugtakið nær utan um þann vanda sem við lendum oft í þegar aðgengi að sameiginlegum náttúruauðlindum lýtur engri stjórn og er opið öllum. Á meðan fólkið er fátt miðað við þær auðlindir sem eru tiltækar þá eru engin vandamál. Þegar fólkinu fjölgar og ásóknin eykst breytist staðan. Ef engar reglur gilda um umgengni við auðlindina skapast hætta á ofnýtingu og á endanum tapa allir.
Þessi vandi er grunnurinn að því að nauðsynlegt getur verið að hafa samræmda stjórnun og stýringu á svæðum eins og hálendi Íslands. Það er einfaldlega samfélagslega mikilvægt verkefni að finna leiðir til að tryggja að útivist, ferðamennska og önnur umsvif innan þjóðgarðsins séu í sem mestum samhljómi við náttúruna. Stefnan er að hámarka jákvæða upplifun gesta og efnahagslegan ábata í grannbyggðum en lágmarka neikvæð áhrif á náttúru, víðerni og viðkvæm vistkerfi. Þessi jafnvægisdans er kjarninn í sjálfbærri þróun.
Hvað erum við sammála um?
Ég held að allir Íslendingar eigi það sameiginlegt að okkur þykir vænt um hálendið okkar. Íslensk náttúra stendur hjarta okkur nærri og frelsið til að upplifa og njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða er okkur dýrmætt. Það er því fullkomlega eðlilegt að við tökumst á um hvernig best sé að haga verndun og nýtingu hálendisins. Þar skiptir máli að raddir sem flestra hópa fái að hljóma og að við tökum okkur tíma til að hlusta á ólík sjónarmið með opinn huga, skilja þau og finna leið til að beina sjónum að þeim þáttum sem við getum sameinast um.
Reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði getur veitt dýrmæta leiðsögn.
Höfundur er formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.