Til er eining sem mælir orkunýtni þjóða í hagfræðilegu samhengi. Hún er kölluð orkukræfni (energy intensity) og segir til um hlutfallið á milli orkunotkunar og vergrar landsframleiðslu (GDP), mælt í kWst á móti bandaríkjadollara (USD). Því lægra sem sú tala er, þeim mun betri er orkunýtni þjóðarinnar. Á síðunni Our World in Data (ourworldindata.org), sem rekin er af sérfræðingum við Oxfordháskóla, eru m.a. birtar tölur tengdar orkunotkun heimsins. Tölurnar í þessari grein eru fengnar af þeirri síðu.
Íslendingar nota 4,1 kWst af rafmagni á móti hverjum USD í landsframleiðslu. Orkukræfni okkar er því 4,1 kWst/USD. Samsvarandi tala er rétt rúmlega 1,3 kWst/USD fyrir Svíþjóð og Noreg, en 0,7 kWst/USD fyrir Danmörku. Talan er jafnvel enn lægri fyrir Sviss og Írland, sem þó eru með svipaða eða hærri landsframleiðslu en Ísland. Þessar þjóðir eru sem sagt með miklu meiri landsframleiðslu miðað við orkunotkun heldur en Íslendingar, eða með öðrum orðum: Þær nýta orkuna sína miklu betur til að skapa verðmæti.
Fullyrðingar um að orkugjafar okkar Íslendinga séu undirstaða velmegunar eru ekki beinlínis rangar í þessu samhengi, en nýting okkar á allri orkunni sem við framleiðum og notum er hins vegar með því allra versta sem sést meðal þjóða. Þarna kemur orkustefna síðustu áratuga berlega í ljós, þar sem stefnan var að selja orkuna á hrakvirði hverjum sem vildi opna stóriðjuver hér á landi. Sú stefna hefur skilað sér illa í aukinni landsframleiðslu, og auðvelt er að ímynda sér að hægt hefði verið að nýta miklu betur fjármunina sem fóru í alla þessa orkuöflun.
Orkukræfni Íslendinga óx stöðugt á tveimur áratugum, frá 1990 til 2010. Það þýðir að á þessum árum óx orkunotkun okkar miklu hraðar en efnahagur. Dregið hefur úr aukningunni frá toppinum árið 2010 en það gengur hægt. Frá 1990 hefur þessu hins vegar verið algjörlega öfugt farið hjá langflestum öðrum þjóðum. Þær þjóðir hafa aukið orkunýtni sína á meðan Íslendingar hafa orðið sífellt meiri orkusóðar. Er það ekki umhugsunarefni fyrir þjóð sem segist vera ein algrænasta þjóð í heimi þegar kemur að raforkuframleiðslu? Er kannski svolítið grá slikja yfir græna litnum?
Þessi þróun er í algjörri andstöðu við sjónarmið sjálfbærrar þróunar, sem kallar á betri nýtingu náttúruauðlinda. Aukin raforkuframleiðslu orkufrekrar þjóðar eins og Íslendinga yrði vart kölluð annað en rányrkja gagnvart náttúrunni. Væri ekki skynsamlegra og umhverfisvænna fyrir okkur að auka nýtni orkunnar í stað þess að krefjast sífellt meiri virkjana og orkuöflunar?
Höfundur er jarðfræðingur, rithöfundur og stjórnarmaður í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og Hagþenki.