Í Vonarskarði í Vatnajökulsþjóðgarði hefur öll vélvædd umferð verið bönnuð að sumri frá árinu 2011 þegar fyrsta verndaráætlun þjóðgarðsins var staðfest. Æ síðan, hefur hópur útivistarfólks knúið á um opnun skarðsins fyrir þess konar umferð en náttúruverndarfólk viljað halda skarðinu sem griðlandi fyrir göngufólk. Þar sem nú hyllir í farsælt endatafl þessa máls er tilefni til að taka næsta skref í verndun Vonarskarðs og friðlýsa það formlega sem náttúruvé.
Náttúruverndarlög og friðlýsingarflokkar
Hið forna orð vé var notað yfir griðastað eða heiðinn helgistað. Vé voru afmörkuð með véböndum sem ekki mátti rjúfa, en þeir sem það gerðu voru kallaðir vargar í véum og lýstir friðlausir. Hugtakið vébönd er nú einkum notað til að afmarka einsleita hópa sem sinna samskonar störfum eða áhugamálum, svo sem þegar talað er um innan vébanda kirkjunnar eða knattspyrnusambandsins.
Í náttúruverndarlögum, sem samþykkt voru árið 2013 og tóku gildi 2015, eru skilgreindir alls níu mismunandi flokkar friðlýstra svæða og þeim raðað eftir eðli og verndarstigi. Flokkarnir taka mið af kerfi sem Alþjóðlega náttúruverndarsambandið IUCN hefur þróað í áratugi. Við setningu náttúruverndarlaga tóku umræddir flokkar ýmsum breytingum í meðförum Alþingis til aðlögunar að sérstökum aðstæðum hér heima. Í kerfi IUCN eru flokkarnir númeraðir með rómverskum tölum. Sá flokkur sem nýtur ströngustu verndar fær númerið I, hinn næsti númerið II og svo framvegis.
Þjóðgarðar raðast í flokk II og njóta samkvæmt því mikillar verndunar en fólk er þó hvatt til og velkomið í garðinn til að stunda ýmis konar heilsurækt og andlega upplyftingu, gæti það háttsemi og virði þær reglur sem þjóðgarðsyfirvöld setja. Þótt meginmarkmið þjóðgarða sé enn sem fyrr náttúruvernd hefur hlutverk þeirra í atvinnusköpun í nágrannabyggðum farið vaxandi hin síðari ár. Í þjóðgörðum eru innviðir byggðir upp og vélvædd umferð yfirleitt leyfð á vel skilgreindum og afmörkuðum leiðum.
Í stuttu og mikið einfölduðu máli er helsti munur á þessum tveimur flokkum, náttúruvéum og óbyggðum víðernum, sem báðir leggja áherslu á landfræðilegar heildir og upprunaleika, sá, að hinn fyrrnefndi horfir meira til verndar sérstæðs lífríkis en hinn síðari á vernd stórra náttúrlegra svæða, sem geta verið að stórum hluta auðnir eða berangur. Tilgangur beggja flokka er líka að tryggja möguleika núlifandi- og komandi kynslóða á að njóta einveru í náttúrlegu umhverfi, fjarri heimsins glaumi.
Enn hefur ekkert landsvæði á Íslandi verið formlega lýst náttúruvé eða óbyggt víðerni. Þetta sætir nokkurri furðu þar sem nú eru um átta ár síðan náttúruverndarlög voru samþykkt á Alþingi og ekki er hægt að halda því fram að engin svæði á Íslandi uppfylli þau skilyrði sem krafist er. IUCN nefnir Surtsey og Eldey á Reykjanesi sem möguleg svæði í flokki I (líklega Ia frekar en Ib), en nefndar eyjar eru í dag friðlýstar með öðrum hætti.
Náttúruvé og Vonarskarð
Hér beinast sjónir að náttúruvéum í skilningi náttúruverndarlaga en síðar gefst vonandi tækifæri til að fjalla um óbyggð víðerni.
Um náttúruvé segir í náttúruverndarlögum (45. gr.):
„Friðlýsa má svæði sem náttúruvé til að vernda náttúruleg þróunarferli, vistkerfi, fjölbreytni eða ákveðnar tegundir og/eða jarðfræðileg fyrirbæri sem eru sérstök eða einstök á lands- eða heimsvísu eða í Evrópu eða óvenju viðkvæm.
Friðlýsingin skal miða að því að standa vörð um náttúrulegt ástand svæðisins og þróun þess á eigin forsendum. Náttúruvé eiga að geta þjónað sem viðmiðunarsvæði fyrir vísindarannsóknir og vöktun.
Heimilt er að takmarka mjög aðgang að náttúruvéum og banna allar athafnir sem spillt geta markmiði verndarinnar.“
Eins og fyrr segir eru nokkur svæði á landinu þess eðlis að þau mætti auðveldlega, eftir landfræðilegri afmörkun, friðlýsa sem náttúruvé. Meðal þessara svæða, auk ofannefndra, eru Þjórsárver, hluti Hornstranda og norðanverðra Stranda og síðast en ekki síst Vonarskarð í Vatnajökulsþjóðgarði. Í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins (fyrst samþykkt 2011) er Vonarskarð skilgreint sem svæði sem nýtur aukinnar eða sérstakrar verndar umfram þá sem þjóðgarður gefur. Markmið þessarar auknu verndar er að tryggja enn betur en ella vernd einstakrar náttúru svæðisins.
Í Vonarskarði blandast á einstakan hátt litrík og fjölbreytileg háhitasvæði með örverugróðri sem ekki hefur fundist annars staðar, blómskrúð og mýrargróður sem dafnar í volgri jörð, laus við búfjárbeit, í meiri hæð yfir sjávarmáli (>900 m) en annars staðar þekkist hér á landi, fjölbreytilegar jarðmyndanir og hveraform, víðáttumikil vatnaskil Norður- og Suðurlands þar sem upptökukvíslar Skjálfandafljóts og Köldukvíslar blandast, bíða átekta eins og óvissar hvert halda skuli uns þær taka af skarið með stefnu til norðurs og suðurs. Um þetta töfraland í náttúru Íslands lykur hálfhringur Vonarskarðsöskjunnar með sínum litfögru og réttnefndu fjöllum: Skrauti, Kolufell, Rauðakúla, Deilir, Gjósta, Svarthöfði.
Vonarskarð er eitt af helstu djásnum Vatnajökulsþjóðgarðs í hjarta landsins. Friðlýsing þess sem náttúruvés yrði ævarandi bautasteinn um framsýni stjórnar þjóðgarðsins og ráðherra umhverfismála.
Sótt að Vonarskarði
En ekki hafa allir verið sammála um þessa sýn á framtíð Vonarskarðs. Í tæpan áratug hefur ríkt ófriður um vernd skarðsins. Hópur fólks sem stundar vélvædda útivist, einkum innan vébanda samtaka útivistarfélaga, SAMÚT, hefur um árabil krafist opnunar Vonarskarðs fyrir takmörkuðum akstri vélknúinna ökutækja. SAMÚT hefur, að því er virðist, látið að því liggja að samtökin styðji ekki stofnun Miðhálendisþjóðgarðs nema látið verði undan þessari kröfu.
Aftur á móti er þorri náttúruverndarfólks og breiður hópur útivistarfólks samþykkur því fyrirkomulagi sem nú ríkir varðandi vegslóða og fyrirkomulag akstursleiða í Vatnajökulsþjóðgarði og var komið á eftir umfangsmikið samráðsferli hagsmunaaðila, og vísindalega úttekt í kjölfar þess, árið 2013. Samráðið fólst meðal annars í því að hreinsað var til í flóknu slóðakerfi þjóðgarðsins sem orðið hafði til meðal annars með ólögmætum utanvegaakstri. Aðrar leiðir voru opnaðar og merktar. „Vonarskarðsdeilan“ svokölluð var sem sagt leyst fyrir átta árum!
Þetta er löng, flókin og heldur leiðinleg saga sem aðeins fáir kunna til hlítar og ekki er ástæða að fjalla um hér í smáatriðum. En því er þetta nefnt hér, í tengslum við umfjöllun um náttúruvé, að núverandi stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs lagði fram tillögu að nýrri lausn í málefnum Vonarskarðs.
Hugmynd stjórnarformannsins var þríþætt; alger lokun skarðsins eins og er nú, meðan jörð er auð og þíð að sumri og hausti, opnun fyrir akstri vélknúinna ökutækja um skarðið frá 15. ágúst að telja og í þriðja lagi svokölluð tilraunaopnun í tiltekinn árafjölda frá 1. september að telja. Greinilegt var að stjórnarformaðurinn aðhylltist tilraunaopnunina sem ýmsir hafa nefnt „sáttaleið“. Að mati þorra náttúruverndarfólks fólst þó engin sátt í því að einn hópur hefði sitt fram en annar og stærri hópur ekki. Allar hugmyndir um akstur í Vonarskarði draga verulega úr gildi Vatnajökulsþjóðgarðs, sem tekinn var á heimsminjaskrá UNESCO árið 2019, og ganga þvert á möguleika til að lýsa yfir stofnun fyrsta náttúrvés á Íslandi.
Akstur í hvaða formi sem er mun rjúfa vébönd Vonarskarðs sem haldið hafa í áratug.
Stór hluti vegslóðans sem áður lá um skarðið er horfinn með öllu, á hluta leiðarinnar er yfir erfiðar ár að fara og að lokum snarbratta, stórgrýtta brekku sem aðeins er á færi öflugra jeppa og vanra ökumanna. Akstur um Vonarskarð yrði sport fárra frekar en samgöngubót fyrir almenning. Í sjálfu sér hef ég ekkert við jeppasport að athuga en það er fráleitt markmið þjóðgarða. Varla hyggjast menn hefja nýja vegagerð í þjóðgarði sem er á heimsminjaskrá UNESCO?
Tilraunaakstur á vegleysum í Vonarskarði er líka arfaslæm hugmynd frá vísindalegu sjónarhorni. Í hverju felst tilraunin? Á að opna og sjá svo til með hvort náttúra garðsins bíði skaða, svo sem vegna nýrra hjólfara eða olíuleka? Hver verða tilraunaviðföngin eða viðmiðin? Hver á að taka svæðið út, fyrir og eftir tilraunina? Hvað kostar sannferðug úttekt sem krefst mikillar viðveru á hálendinu miðju. O.s.frv.
Náttúruvé í hjarta landsins
Nú berast þær fregnir að stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs hyggist falla frá öllum hugmyndum um akstur vélknúinna ökutækja í Vonarskarði og er það vel. Þrýstingur og lögfræðilegar greinargerðir hafa greinilega haft áhrif. Þessum langa og leiðinlega einleik sem SAMÚT hóf fyrir um áratug er því vonandi endanlega lokið svo stjórn þjóðgarðsins geti tekið upp þarfari starfa, svo sem að afmarka landfræðilega ólík hlutverk og verndarstig svæða í þjóðgarðinum, bæta flæði umferðar um hann og efla stjórnsýslu.
Ég hvet líka þjóðgarðsyfirvöld til þess að beita sér af fullum þunga fyrir heildstæðri vernd og friðhelgi Vonarskarðs til langrar framtíðar og að það verði lýst griðland að sumri og vetri, fyrsta náttúruvé Íslands.
Höfundur er áhugamaður um náttúruvernd.