Svar við bréfi Viðars

Foreldrar stúlku sem æfði körfubolta hjá Brynjari Karli Sigurðssyni í nokkur ár svara grein Viðars Halldórssonar, prófessors í félagsfræði, um heimildarmyndina Hækkum rána.

Páll Melsted og Jóhanna Jakobsdóttir
Páll Melsted og Jóhanna Jakobsdóttir
Auglýsing

Sæll Viðar. Í nýlegri grein á Kjarnanum birtir þú faglegt mat þitt á heimildamyndinni Hækkum rána. Málið er okkur nátengt enda eigum við dóttur sem hefur æft hjá Brynjari Karli í nokkur ár eins og kemur fram í myndinni. Dóttir okkar byrjaði í körfubolta í Stjörnunni og æfði á sama tíma fimleika þar.

Munurinn var sláandi, hún fékk að heyra frá fimleikaþjálfara að hún yrði aldrei góð af því hún væri innskeif. Þetta var öll endurgjöfin, engin valdefling um hvernig hún gæti unnið í þessari áskorun og ekki rætt við okkur foreldrana, enda voru fyrirmælin frá fimleikadeildinni skýr um að sitja ekki á áhorfendapöllum heldur halda sig á bak við glervegg. Í körfunni var þessu gjörólíkt farið. Foreldrar voru eindregið hvattir til að mæta á æfingar og reyndar ætlast til að foreldrar mættu á sunndagsæfingar. Brynjar Karl lagði mikla áherslu á að þátttaka foreldra er mikilvægur þáttur í þjálfun barna.

Áherslan var á að bæta sjálfa sig frekar en að einblína eingöngu á ytri árangur og lokaniðurstöðu eins og titla og verðlaunapeninga. Að hennar sögn var hún næstlélegust í upphafi en fann sig meira í körfunni af því Brynjar Karl bar virðingu fyrir þeim sem leggja sig fram óháð getu eða hæfileikum. Hún náði eftir þrotlausa vinnu að bæta sig. Sem foreldrar tókum við eftir hröðum bætingum, ekki í körfubolta, heldur í skóla og samskiptum en hún hafði verið lítil í sér áður og látið aðra krakka stjórna sér um of. Í kjölfarið hefur hún axlað meiri ábyrgð á eigin námi þar sem venjur úr körfunni heimfærast á önnur verkefni í lífinu.

Auglýsing

Þegar við lásum grein þína þá hringdu einhverjar viðvörunarbjöllur. Það tók smá tíma fyrir okkur að staðsetja þær því þetta voru ekki viðvörunarbjöllur foreldra. Greinin þín er sett fram með tilvísun í fræðilega þekkingu þína og þú skrifar undir sem prófessor í félagsfræði og ert með félagsfræði íþrótta sem sérsvið. Það voru vísindalegu viðvörunarbjöllurnar sem hringdu hjá okkur, enda störfum við bæði á sviðum vísinda en búum líka að því að þekkja vel til málsins.

Vandamálið er að til að draga ályktanir aflaðir þú þér ekki gagna. Við þykjumst ekki þekkja fræðasviðið þitt um félagsfræði íþrótta en við þekkjum gögn. Í greininni eru settar fram staðhæfingar sem ekki eru studdar gögnum og eina ástæðan fyrir því að við vitum það, en ekki þú, er að við vorum á staðnum. 

Strax í upphafi greinar er þjálfunin skilgreind sem afreksvæðing, öll önnur umfjöllun er með þessa greiningu sem útgangspunkt. Á foreldrafundum var strax í upphafi lögð áhersla á að ekki væri um afreksstefnu að ræða heldur eljustefnu, svipuð dæmi og þú nefnir voru nefnd á foreldrafundum sem víti til varnaðar. Þar eruð þið Brynjar Karl sammála.

Okkur er sama um körfubolta. Hópíþróttir eru að okkar mati ákveðinn gerviheimur og vilja gjarnan þróast út í það að vera „show business“. Að því leyti eru þær tilgangslausar fyrir börn og unglinga ef ekki á að nýta þær sem uppeldistæki. 

Kjarninn í eljustefnunni er að einstaklingurinn vinni í að bæta sjálfan sig. Þannig nær hann innri árangri með því að takast á við eigin áskoranir. Áherslan er ekki á ytri árangur eins og afreksstefnan sem þú lýsir. Afleiðing eljustefnu er hins vegar oft ytri mælanlegur árangur. Þess vegna eru sumir, þegar þeir sjá eingöngu ytri árangurinn, fljótir að draga þá ályktun að í raun hafi afreksstefna verið í gangi frá upphafi. Þessu hefðir þú áttað þig á ef þú hefðir safnað gögnum, t.d. með viðtali, stuttri fyrirspurn eða einfaldlega tekið eftir því sem fram kom í myndinni.

Þú lýsir þessari meintu afreksstefnu sem skilur eftir sig „sviðna jörð“ og er „ómannúðleg þar sem eingöngu þeir hæfustu lifa af, og nánast öllum er sama um þá sem ekki ná í gegn“. Samkvæmt þessu hefði dóttir okkar átt að gefast upp í Stjörnunni. Harðar yfirlýsingar þínar og magnað myndamál virka betur en að horfa á gögnin. Hvaða börn hætta í íþróttum vegna þess að til of mikils er ætlast af þeim og hvaða börn hætta af því til of lítils er ætlast til af þeim? Þetta eru verðugar rannsóknaspurningar. Það má ekki gleyma börnum sem hætta af því þau fá ekki áskoranir og verkefni við hæfi. Þekkt er að stúlkur eru sjaldnar til vandræða þó þeim sé ekki sinnt (í skóla eða íþróttum) þannig þær hætta jafnvel þó hvorki þær né aðrir átti sig að þær hafi ekki fengið áskoranir við hæfi. Sömu vandamál er að finna innan menntakerfisins þar sem lítið er um sérrúræði fyrir nemendur sem þyrftu eða vilja meiri áskoranir.

Í kringum 2015 þá er starfsmaður Körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar og aðstoðarþjálfari Brynjars Karls að reyna að pressa á yfirþjálfarann til að ráða betri þjálfara til að þjálfa eldri stúlkur. Yfirþjálfarinn sagði að það þýddi alls ekki af því stelpur hættu hvort eð er allar. Þetta er umhverfið sem dóttir okkar var að fara inn í. Viðhorfið var að ekki þýddi að ráða hæfan þjálfara af því stelpur hætta hvort eð er.  

Það er rétt að þessi þjálfun hentar ekki öllum rétt eins og hefðbundin þjálfun hentar ekki öllum. Í raun er umhugsunarvert að stefnan í íþróttamálum sé svo fábreytileg að allir eigi að vilja það sama. Í hefðbundnu umhverfi hefði dóttir okkar hætt af sjálfu sér. Er hún ekki jafnmikilvæg og stúlkur sem hentar annað en henni? Vorið 2017 kom upp sú hugmynd að fá fleiri þjálfara til að sinna hópnum og skipta honum eftir því hvort stúlkurnar og fjölskyldur vildu halda áfram á sömu braut eða fá hefðbundnari þjálfun. Ekki var um að ræða tillögu að skipta eftir getu eða hæfileikum heldur vilja. Ekki var fyrirfram ákveðið að þetta myndi leiða til þess að hópnum yrði skipt ef allir hefðu viljað halda áfram þá hefði það orðið niðurstaðan.  Sú hugmynd að fólk hefði val og ákveddi hvað það vildi féll ekki vel í kramið hjá öllum foreldrum og Stjörnunni. Þetta leiddi til þess að leiðir Brynjars Karls og Stjörnunnar skildu. Um sumarið færði svo rúmur helmingur stúlknanna sig yfir til ÍR. Í ÍR var samhliða þessu starfræktur flokkur með hefðbundnu sniði fyrir þær fjölskyldur sem það vildu. Í greininni nefnir þú að yfirlýsing frá Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hafi verið send í kjölfar þess að hópurinn færði sig um set en í raun kom þessi yfirlýsing út um mitt haust eftir að stúlkurnar og foreldrar þeirra vöktu athygli á því að þeim væri meinað að keppa við drengi. Engar yfirlýsingar voru sendar til foreldra um málið, sem teljast þó hagsmunaaðilar í málinu. Í yfirlýsingunni voru settar fram alvarlegar ásakanir. Foreldrahópur átti fund með yfirstjórn Stjörnunnar til að kanna hvað væri hæft í þeim og fékk þau svör að ekkert væri hæft í þeim. Þetta hefðir þú vitað hefðir þú kannað málið og aflað gagna áður en þú dróst ályktanir.

Sem foreldrum er okkur umhugað um að ala upp góða og gegna þjóðfélagsþegna. Það er margt sem er að í samfélaginu okkar sem má bæta, t.d. viðhorf til kvenna í íþróttum. Það er ekki síst í gegnum börnin okkar sem við byggjum betra samfélag.

Þú afgreiðir það sem þær hafa lært á einfaldan hátt sem „ömurlegheit“ og „töffaraskap og gamaldags karlmennsku“. Ef þú þekktir þær, þá vissirðu t.d. að stúlkur úr þessum hópi hafa ítrekað þorað að standa upp fyrir skólafélögum sem verða fyrir aðkasti. Bekkjarfélagar sem eru að takast á við kvíða hafa valið þær til að vera sá litli hópur sem hlustar fyrirlestra þeirra í skólaverkefnum. Þeim er treyst (og hafa reynst traustsins verðar) fyrir þessu ábyrgðarhlutverki að bera virðingu fyrir þeim sem er takast á við sínar áskoranir enda þekkja þær það sjálfar.

Hvernig samræmist það hugmyndafræði „gamaldags karlmennsku“ að viðurkenna kvíða og takast á við hann í öruggu umhverfi þar sem allir styðja þig og vilja hjálpa þér að ná árangri? Töffaraskapur í huga stúlknanna er gera það sem er rétt jafnvel þó það sé erfitt. Það er töffaraskapur að standa upp fyrir skólafélaga sem verður fyrir aðkasti. Það er töffaraskapur að vera 30 stigum undir í leik, sem er löngu tapaður, en gefa allt í hann þar til klukkan glymur. 

Þú talar um ofþjálfun og meiðsli. Þú fullyrðir í fjölmiðlum: „Þarna var gríðarleg sérhæfing, gríðarlega miklar æfingar. Þarna voru morgunæfingar og seinnipartsæfingar, æfingar voru langar og alls konar greiningarfundir með miklu álagi, líkamlegu og andlegu.“ Það er alrangt að mikil sérhæfing hafi verið í gagni. Engin stúlka var æfa eina stöðu umfram aðra. Æfingar voru fjölbreyttar: tækniþjálfun, spil, leikfræði, hugarþjálfun, styrktarþjálfun, einbeitingarþjálfun/núvitund. Öllu komið fyrir á 8-10 tímum á viku (æfingar 4x í viku frá 10 ára). Þú virðist gefa í skyn að stúlkan sem átti við alvarleg meiðsli að stríða hafi hlotið þau vegna ofþjálfunar. Það er rangt. Sérstaklega var lögð áhersla á styrktarþjálfun til að koma meðal annars í veg fyrir krossbands- og hnévandamál sem rannsóknir hafa sýnt eru tíðari hjá konum. Þegar börn stækka fylgja því oft verkir, sérstaklega í hnjám og fótum og æfingaálagi var stýrt og fullt tillit tekið til þess hjá hverri stúlku fyrir sig. Stúlkur sem æfðu aðrar íþróttir samhliða gátu mætt á færri æfingar eða tekið þátt að hluta eftir því sem við átti. Við þekkjum það á eigin skinni að dóttir okkar fékk vægan heilahristining og var frá æfingum í 2 mánuði. Hún var aldrei pressuð til að harka af sér. Þvert á móti fékk hún stuðning í gegnum það og minnt á lífsspekina: „Ef þú getur ekki gert það sem þú vilt gera verður þú að vilja gera það sem þú getur gert.“ Hvaða klínísku mælingar notaðir þú til að greina ofþjálfun?

Viðar, þér urðu á mistök. Öllum verða á mistök. Í þessari grein viljum við bara benda þér á þessi mistök sem þú gerðir sem fræðimaður. Stundum er hægt að leiðrétta þau en það er alltaf hægt að læra af þeim. Dóttir okkar er sérfræðingur í mistökum, hún veit að næsta skrefið er að viðurkenna þau fyrir sjálfum sér. 

Við hvetjum þig til að sinna fræðimennsku þinni af alvöru og ræða við okkur. Raunin er reyndar sú að þér ætti að bera skylda sem fræðimaður að taka okkur og aðra foreldra og þjálfara í viðtal, mæta á æfingar og liðsfundi og fylgjast með foreldrahópnum áður en þú greinir foreldrahópinn sem sértrúarsöfnuð með faglegu mati þínu. Annað eru léleg vísindi sem ekki stæðust ritrýni í nokkru vísindatímariti. 

Endilega hittu okkur á Háskólatorgi við tækifæri. Við lofum að mæta ekki með Kool-Aid.

Jóhanna Jakobsdóttir er lektor í líftölfræði við Háskóla Íslands og Páll Melsted er prófessor í tölvunarfræði við sama skóla, en það kemur málinu ekkert við. Dóttir þeirra er Gréta Björg Melsted.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Eðlilegt að draga þá ályktun að verðið hafi hækkað vegna áhuga á útboðinu“
Forsætisráðherra segir að það bíði næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort selja eigi fleiri hluti í Íslandsbanka. Salan hafi verið vel heppnuð aðgerð.
Kjarninn 23. júní 2021
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Miklar sveiiflur hafa verið á virði rafmyntarinnar Bitcoin síðasta sólarhringinn.
Kínverjar snúa baki við Bitcoin og verðið fellur
Verð rafmyntarinnar Bitcoin hefur lækkað umtalsvert á undanförnum dögum en náði sér aðeins á strik síðdegis í dag. Kínverjar hafa reynt að stemma stigu við viðskiptum með myntina þar í landi og nýlega var fjölda gagnavera sem grafa eftir myntinni lokað.
Kjarninn 22. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar