Undanfarið höfum við séð að kosningavetur er fram undan. Stjórnarflokkarnir munu á næstunni útmála það hve miklu þeir hafa áorkað í breiðu samstarfi þriggja flokka. Og að sjálfsögðu munu þeir útdeila einhverjum ölmusum til þeirra fjölmörgu landsmanna sem hafa farið halloka í COVID-fárinu. Aðgerðir stjórnarinnar hafa nær eingöngu snúið að fyrirtækjum og í mörgum tilfellum gjöfum til auðmanna á Íslandi.
Stór hluti stjórnarandstöðunnar mun einhenda sér í að finna leiðir til að leiðrétta það óréttlæti sem skapast hefur gagnvart alþýðu þessa lands vegna aðgerða stjórnvalda í farsóttinni. Lausnirnar verða væntanlega hækkun atvinnuleysisbóta, lagfæring á kjörum öryrkja og aldraðra – eða réttara sagt leiðrétting á kjörum þeirra til samræmis við aðra launþega í landinu. Samheiti þessara aðgerða gæti verið að útrýma fátækt á Íslandi.
Lopapeysan sem dagaði uppi
Skondnar uppákomur hafa birst okkur síðustu daga. Steingrímur Sigfússon, sem nú er að kveðja vinnustaðinn sinn til fjölmargra ára, sagði um daginn eitthvað á þá leið að Vinstri grænir væru nú orðnir ábyrgur og stjórntækur flokkur og hættir að ganga í lopapeysum. Í framhaldinu bauð hann Sósíalistum að ganga í VG – það yrði vel tekið á móti þeim.
Í tilefni þessa datt mér í hug að segja mætti: Lopapeysan dagaði uppi og þegar Steingrímur lítur til ljóssins í baksýnisspeglinum, þá verður hann að steintrölli í fínu jakkafötunum sínum, með fallegt bindi, í hvítri skyrtu og á gljápússuðum skóm. Um leið og þetta flaug um hug minn skammaðist ég mín niður í tær – má maður virkilega hugsa svona – hvað þá setja það á blað?
Stjórn litlausra málamiðlana
Rétt er að líta yfir árangur núverandi ríkisstjórnar – skírskotun til hægri og vinstri. Því miður er það nær ófrávíkjanleg regla að viðkomandi ráðherra ræður sínum málaflokki.
Þannig getur Bjarni Ben geymt gögnin um skattaundanskot og peninga í skattaskjólum í harðlæstri skúffunni í skrifborðinu sínu – kannski þarf hann ekki einu sinni að læsa henni. Hann getur einnig dregið það úr hömlu að efla skatteftirlit og lækka skatta hjá láglaunafólki og millitekjufólki – í stað þess að lækka þá hjá auðmönnum. Svo maður tali nú ekki um – hann getur lagst af öllu afli gegn réttmætum launakröfum kvennastétta – en það var nú ein rósin í hnappagöt ráðherranna í upphafi – að vinda ofn af því óréttlæti.
Kristján Júl deilir og drottnar yfir sjávarútvegsmálunum. Vinir hans fá að „eiga“ sinn kvóta og borga aðeins skít á priki fyrir afnot af þessari auðlind þjóðarinnar. Og svo er hann góður vinur vina sinna sem eiga um sárt að binda vegna þegar ráðist er á þá með „fjölmiðlafári“ og „fölskum“ ákærum.
Stóru málin sem VG vildu koma með inn í stjórnarsamstarfið voru heilbrigðismál og umhverfismál en mest áhersla var samt lögð á að Katrín fengi að vera fundarstjóri stjórnarinnar. Ég hef reyndar heyrt því fleygt að hún sé mjög góður sem slíkur.
Ýmsar lagfæringar hafa verið útfærðar í heilbrigðismálum en mun minna gert en búist var við. Að einhverju leyti má kenna COVID um lítinn árangur.
Fjármagn til umhverfismála og baráttunnar við loftslagsvána – sitthvað hefur áunnist þar. En þeir tveir þingmenn sem hafa sagt sig úr þingflokki VG nefndu þetta sem helstu ástæður þess: Of lítið væri gert í loftslagsmálum og einnig töldu þeir að meðferð á flóttabörnum væri ómannúðleg og ekki sæmandi íslenskri þjóð.
En hvað með Framsókn? Það eru sjálfsagt fleiri en ég sem velta þeirri spurningu fyrir sér. Kannski er ofurlítið sannleikskorn í ummælum Sigmundar Davíðs um að ríkisstjórnin hafi verið mynduð utan um stóla. Hann var eðlilega sár yfir að fá engan en Framsókn fékk aftur á móti þrjá þægilega stóla.
Samstarf ólíkra flokka sem tókst vel
Forvitnilegt er að rifja upp farælt tímabil Nýsköpunarstjórnarinnar (1944 – 46). Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Sósíalistar mynduðu stjórnina en mikið var rætt á þessum tímum um nýsköpun atvinnuveganna.
Stjórnin hafði mikinn gjaldeyri til fjárfestinga, svonefndan stríðsgróða. Hann myndaðist þegar seinni heimsstyrjöldin geisaði en þá safnaði íslenska þjóðin umtalsverðum fjárhæðum í erlendum gjaldeyri, því hátt verð fékkst fyrir fiskafurðir auk þess sem verulegar tekjur fengust vegna umsvifa setuliðsins. Á sama tíma var erfitt að flytja inn vörur vegna stríðsins og fyrir vikið hlóðust gjaldeyrisinnstæður upp í erlendum bönkum. Þessi fjárhæð nam 580,6 milljónum króna um mitt sumar 1945. Þetta var mikið fé á þeim tíma og samsvaraði næstum öllum tekjum ríkissjóðs á árunum 1945 – 47.
Á meðan stjórnin lifði ríkti mikið traust milli Ólafs Thors forsætisráðherra og Einars og átti það kannski mestan þátt í að samstarfið gekk svona vel. Stjórnin sprakk þegar ljóst var að Sjálfstæðisflokkurinn, Alþýðuflokkurinn og Framsókn vildu leyfa Bandaríkjamönnum að byggja herstöð á Miðnesheiði. Hófst þá dapurlegur tími í sögu þjóðarinnar. Reyndar voru auðmenn, sem þessir stjórnmálaflokkar voru fulltrúar fyrir á alþingi, býsna ánægðir – þeir skiptu bróðurlega með sér blóðpeningum þeim sem streymdu inn vegna hersetunnar.
Alls voru keyptir 30 Nýsköpunartogarar og fór stór hluti þeirra til Bæjarútgerða út um allt land – 5 til Reykjavíkur. Bæjarútgerðirnar fóru svo á hausinn ein af annarri á næstu áratugum. Fulltrúar auðvaldsins höfðu „góðar“ skýringar á því hvernig fór. Það vantaði sko hvatann til að standa sig vel – einkaframtakið var heillavænlegast. Þeir horfðu viljandi fram hjá því og forstöðumenn þessara útgerða voru ekki valdir sökum hæfileika sinna og dugnaðar – það réði mestu hvort þeir væru með rétt flokksskírteini upp á vasann.
Frelsi, jöfnuður, mannhelgi og samkennd
Skoðum nú stefnu Sósíalistaflokks Íslands. Markmið hans er samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. Þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu.
Sósíalistaflokkurinn er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Andstæðingar Sósíalistaflokksins eru auðvaldið og handbendi þess. Vettvangur Sósíalistaflokksins er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu.
Látum framþróun stýrast af hagsmunum almennings
Og áfram höldum við: Í starfi sínu leggur Sósíalistaflokkurinn áherslu á það sem sameinar fólkið í landinu; óréttlætið sem það mætir og viljann til að losna undan því. Öllum landsmönnum er velkomið að ganga til liðs við flokkinn, óháð kyni, uppruna, trú eða kynhneigð.
Sósíalistaflokkurinn vill að framþróun samfélagsins stýrist af hagsmunum almennings. Þess vegna þarf almenningur að ná völdum, ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn, hverfið, sveitarfélagið, þorpið – öll þessi svið eiga að vera undir valddreifðri stjórn þar sem hagsmunir fólksins eru í fyrirrúmi.
Sósíalistar eiga erindi á Alþingi
Þegar sumt fólk les stefnuskrána okkar hugsar það með sér: Þetta er svo glannalegt orðalag. Erum við ekki öll á sama báti hvort sem við heitum Bjarni Ben eða eitthvað annað. Og af hverju þarf stéttabaráttu og vinnudeilur – við verðum jú að finna raunhæfar lausnir með rólegum og yfirveguðum samræðum – öllu samfélaginu til heilla. Völd til almennings? Á nú þvottakonan að setjast í stól forstjórans? Fyrir nú utan það – af hverju þarf að sverta duglega, framsýna atorkumenn með því að kalla þá auðmenn.
Fyrir þá sem hugsa svona er réttast að kjósa Íhaldið eða Miðflokkinn. Þið hin ættuð að kjósa Sósíalista. Því með slíka stefnuskrá í höndunum eru fyrstu skrefin stigin og það fer eftir því hve Sósíalistar verða öflugir á þingi hvort markmiðin nást. Látum dapurlega frammistöðu núverandi stjórnar verða okkur víti til varnaðar.
Mín draumastjórn eftir næstu kosningar samanstendur af Sósíalistum, Samfylkingu og Pírötum. Að sjálfsögðu má bæta einum flokki við hvort sem það verður Flokkur fólksins, VG eða Framsókn – svo fremi að þeir nái manni á þing.
Höfundur er framhaldskólakennari.