Flestir sérfræðingar eru sammála um að efnahagslega muni Bretland líða fyrir Brexit. Í leyniskýrslu sem bresk yfirvöld létu gera, en var lekið árið 2018, var áætlað að hagvöxtur myndi lækka á bilinu 2-8% á ári í að minnsta kosti 15 ár eftir útgöngu Breta. Hærri talan gerði ráð fyrir að Bretar myndu ganga út án samings en sú lægri ef hagstæðir samningar myndu nást. Sambærilegar spár birtust í nýlegu hefti The Economist. Það er að vísu alltaf erfitt að spá fyrir um framtíðina en nánast allir hagfræðingar eru sammála að breska hagkerfið muni hökta næstu árin.
„Singapore við Thames“ eða „Singapore á sterum“ voru tvö af þeim hugtökum sem stundum voru nefnd í umræðu í aðdraganda Brexit. Frjálshyggjumenn hafa löngum dreymt um einhvers konar tollfrjálsa viðskiptaparadís á bökkum Thames, í líkingu við Singapore. Hugmyndin er að Bretlandi yrði lágskattaparadís með litlum réttindum launþegafélaga þar sem alþjóðleg fyrirtæki eins og Google, Amazon og Facebook gætu þrifist. Þessar hugmyndir eru að mestu leyti andvana fæddar eftir samkomulag Breta við Evrópusambandið. Þar eru ákvæði sem koma í veg fyrir hugsanleg félagsleg undirboð Breta. Þar að auki er lítil stemmning í Íhaldsflokknum fyrir þessum hugmyndum enda óvíst að slíkar hugmyndir myndu mælast vel fyrir hjá breskum almenningi. Breska stjórnin liggur undir ámæli vegna mikilllar útbreiðslu COVID-19 í landinu og nýjustu kannanir gefa til kynna að Íhaldsmenn muni eiga undir högg að sækja í næstu kosningum. Það er því ekki líklegt að flokkurinn leggi í róttækar aðgerðir eins og einhvers konar efnahagslegt frísvæði á bökkum Thamesárinnar.
Fríverslunarsamningar skipta æ minna máli
Brexit-sinnar töluðu fjálglega um hina miklu möguleika sem „frjálsir“ fríverslunarsamningar við lönd um allan heim myndu færa Bretum. En pössuðu sig á að nefna ekki að meira en helmingur af viðskiptum Breta er við lönd Evrópusambandsins. Helst var á þeim að skilja að nánast öll lönd heims stæðu í biðröð við að gera viðskiptasamning við Breta. Það væri nánast formsatriði að klára þessa samninga. En hvernig er staðan núna fjórum árum eftir að Brexit var samþykkt? Eini nýi fríverslunarsamningurinn sem Bretar hafa gert á þessum tíma er við Japan. Síðan hafa þeir tekið yfir samninga við 59 lönd sem þeir voru hvort sem er með innan ESB. Þar að auki tóku þeir líka yfir bráðabirgðasamning við Kanada. Eini nýi samningurinn sem er í burðarliðnum er við Ástralíu. Þess má geta í þessu samhengi að ESB er með viðskiptasamninga við 78 lönd eða landsvæði og er í viðræðum um 30 slíka samninga til viðbótar.
Hins vegar bólar ekkert á fríverslunarsamningum við stórveldin Bandaríkin og Kína. Reyndar eru Bandaríkin með jákvæðan vöruviðskiptajöfnuð við Bretland þannig að það er lítið sem ýtir á Bandaríkjamenn varðandi slíkan samning. Síðan bætir kjör Joe Biden í embætti Bandaríkjaforseta ekki samningsstöðu Íhaldsmanna. Verði hins vegar af samningum við Bandaríkjamenn þurfa Bretar að öllum líkindum að fallast á kröfu Bandaríkjanna um verulega aukinn innflutning á kjöti. Klórþveginn kjúklingur og hormónakjöt hefur hins vegar ekki heillað neytendur og yfirvöld í Evrópu hingað til. Það kann því enn að vera langt í land að samningar við Bandaríkin og Kína verði að veruleika.
En öll þessi umræða um fríverslun er nokkuð villandi og aðeins lítill hluti af heildarmyndinni. Nútímaviðskipti eru svo miklu meira en viðskipti með hefðbundndar iðnaðarvörur. Þjónustuviðskipti skipta æ stærra máli í alþjóðaviðskiptum. Undir þjónustuviðskipti falla meðal annars fjármálaþjónusta ýmiskonar, skemmtanaiðnaðurinn, ferðaþjónusta, hugbúnaðargerð, netþjónusta ýmiskonar. Brexitsamningurinn nær ekki nema að mjög takmörkuðu leyti yfir slík viðskipti. Það er því á engan hátt hægt að bera EES-samninginn saman við Brexit. Megin rökin fyrir EES samningnum eru hindrunarlaus viðskipti, þ.e. ekkert heilbrigðis eða tolleftirlit með vörum á landamærum. Það sparar til dæmis íslenskum útflytjendum sjávarafurða milljarða á ári. Þess utan leyfir EES þjónustu viðskipti yfir landamæri sem fríverslunarsamningar heimila ekki, fyrir utan allt frelsi fólks til að velja sér land til að stunda nám og stofna og reka fyrirtæki, og fá sjálfkrafa viðurkenningu á starfsréttindum sínum. Þau rök EES-andstæðinga í Noregi, sem einnig hafa aðeins heyrst í umræðunni hér á landi, að Brexit samningurinn geti komið í stað EES standast því enga skoðun.
Samkeppnisforskot Breta í fjármálageiranum er horfið
Bretar hafa hingað til borið ægishjálm yfir önnur lönd ESB í fjármálageiranum. Á margan hátt nutu þeir sérstöðu innan Evrópusambandsins og nýttu sér það til hins ýtrasta. En nú hefur þessu samkeppnisforskoti verið kippt frá breskum bönkum og tryggingafyrirtækjum. Ljóst er að bæði störf og tekjur munu færast frá London til annarra fjármálamiðstöðva vegna Brexit. Það er hins vegar ekki enn ljóst hve skellurinn verður stór. Samkvæmt endurskoðunarfyrirtækinu Ernst&Young þá hafa þegar tæplega 10 þúsund störf færst yfir til Frankfurt, Amsterdam og Parísar. Ráðgjafafyrirtækið Oliver Wyman gaf nýlega út skýrslu og miðað við mismunandi forsendur þá gætu störfin sem tapast í framtíðinni verið á bilinu 3.500 til 35.000. Þótt það sé minna en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir strax eftir kosningarnar árið 2016 þá er þetta samt mikið áfall fyrir fjármálageirann í landinu. Þess má geta að veltan í kauphöllinni í Amsterdam í síðasta mánuði var meiri en veltan í kauphöllinni í London. Það er í fyrsta skipti sem það gerist og er góð vísbending um þá breytingu sem er að eiga sér stað á fjármálamarkaði í Evrópu.
Innflytjendur auðvelt skotmark fyrir Brexit-sinna
Innflytjendamál skiptu líklegast mestu máli í Brexit-kosningunum. Þar spiluðu Brexit-sinnar á hræðslu almennings við óheftan innflutning fólks frá stríðshrjáðum löndum Afríku og Mið-Austurlanda. Enda stóð flóttamannastraumurinn frá Mið-Austurlöndum til Evrópu sem hæst í aðdraganda Brexitkosninganna árið 2016. En hver er sannleikurinn varðandi innflytjendur í Bretlandi?
Innri markaður Evrópusambandsins hefur aukið á hreyfanleika vinnuafls enda er slíkur hreyfanleiki mikilvægur fyrir hagvöxt. En nettó innflutningur fólks til Bretlands á árunum 2000-2014 var lægri en til landa eins og Ítalíu, Spánar, Frakklands og Þýskalands. Þar að auki er prósentuhlutfall innflytjenda frá löndum utan ESB mun hærra í Bretlandi en í öðrum ESB löndum. Því til viðbótar hafa innflytjendur í Bretlandi upp til hópa verið með hærra menntunarstig og hafa yfirleitt aðlagast bresku samfélagi vel. Þeir hafa því ekki verið byrði á samfélaginu heldur mikilvægir þjóðfélagsþegnar og greitt mun meira í skatta og skyldur en sá kostnaður sem hefur fylgt innflytjendum í mörgum öðrum löndum.
Á árunum 2008-2014 féllu ráðstöfunartekjur bresks almennings hins vegar umtalsvert. Einkum voru það þeir sem voru með lægstu tekjurnar sem fóru illa út úr hruninu. Ofan á þetta bættist húsnæðisskortur sem hefur hrjáð Bretland í langan tíma. Samkvæmt opinberum tölum hefur framboðið ekki staðið undir eftirspurn í yfir 35 ár. Þetta hefur þýtt að fólk í milli- og lágstéttum hefur átt í erfiðleikum að koma þaki yfir höfuðið eða þurft að standa undir stighækkandi húsaleigu. Þrátt fyrir að litlar sem engar rannsóknir styðji þá kenningu að þetta sé innflytjendum að kenna þá varð þessi þjóðfélagshópur auðvelt skotmark.
Heilbrigðiskerfið í Bretlandi byggir töluvert á erlendu vinnuafli. Um 14% af starfsfólki innan NHS voru á síðasta ári erlendir ríkisborgarar. Mikið af heilbrigðisstarfsfólki frá A-Evrópu hefur hins vegar snúið aftur heim eftir Brexit og nú er svo komið að það vantar um 100 þúsund manns í ýmsar stöður innan NHS. En með Brexit féll niður frjáls flutningur starfsfólks milli landa og nú þarf að sækja um atvinnuleyfi fyrir alla erlenda ríkisborgara sem hyggjast starfa í Bretlandi. Þetta er ekki síður högg fyrir 1,3 milljónir breskra ríkisborgara sem búa og starfa í ESB-löndum. Fjölmargir þeirra, meðal annars Stanley Johnson fyrrum Evrópuþingmaður Íhaldsmanna og faðir Borisar Johnson núverandi forsætisráðherra Bretlands, hafa nú afsalað sér breskum ríkisborgararétti og fengið evrópskan í staðin. Stanley Johnson er til dæmis orðinn franskur ríkisborgari.
Erlend fjárfesting hefur minnkað
Efnahagslegar niðurstöður brotthvarfs Breta úr Evrópusambandinu eru smám saman að koma í ljós. Einkum er það þjónustugeirinn sem mun líða fyrir þessar breytingar enda er hann ekki nema lítill hluti af því samkomulagi sem Bretar og ESB hafa náð. Um 80% af þjóðarframleiðslu Breta kemur frá þjónustuviðskiptum þannig að um miklar upphæðir er að ræða. Þegar hafa um 10 þúsund störf tapast í fjármálahverfinu í London. Dublin, Frankfurt og Amsterdam eru að styrkja sig sem evrópskar fjármálamiðstöðvar.
En það er ekki bara þjónustugeirinn sem hefur fundið fyrir breytingum. Þrátt fyrir að almennar iðnaðarvörur falli undir samninginn er ljóst að öll pappírsvinna og önnur vinna við tollskoðun mun hægja á öllum ferlum. Erlend fjárfesting í breskum fyrirtækjum sem framleiða íhluti fyrir evrópska bíla hefur til dæmis fallið um 80% undanfarin þrjú ár. Einnig hafa bílaframleiðendur ákveðið að færa samsetningarverksmiðjur sínar frá Bretlandi til landa innan ESB. Nýjasta dæmið er nýr Land Rover-jeppi sem nefnist Ineos Grenadier og hefur verið framleiddur í litlum mæli í Wales. Nú á hins vegar að stórauka framleiðsluna, reisa nýjar verksmiðjurnar í Frakklandi og loka verksmiðjunni í Wales. Það grátbroslega við þann flutning er að aðaleigandi fyrirtækisins er milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe, sem var einn af helstu fjárhagsbakhjörlum Brexit-sinna. En Íslendingar þekkja Ratcliffe aðallega sem umsvifamikinn eiganda laxveiðiáa á Norðausturlandi.
Höfundur er með M.Sc. gráðu í Evrópufræðum frá London School of Economics, hefur kennt Evrópufræði við Háskóla Íslands og hefur starfað að Evrópumálum í 26 ár.