Bretland gekk formlega úr Evrópusambandinu fyrir rúmu ári síðan þann 31. janúar 2020. Samningurinn sem gerður var í lok síðasta árs var hins vegar um framtíðarsamskipti ríkjanna, svonefndur Viðskipta- og samstarfssamningur ESB við Bretland. Hann felur í sér að engir tollar eða innflutningskvótar verði á flestar vörur sem fluttar verða á milli Bretlands og Evrópusambandsins. Hins vegar tryggir samningurinn ekki áframhaldandi ferðafrelsi né aðgang breskra fjármálafyrirtækja að innri markaði ESB, auk þess sem Norður-Írland verður áfram bundið af tollareglum ESB og lögsögu Evrópudómstólsins.
Þegar rýnt er í samninginn er ekki ljóst hvað Bretar græða á því að ganga úr Evrópusambandinu. Flækjustigið á flutningi á vörum hefur stóraukist, breski fjármálamarkaðurinn hefur ekki lengur sama möguleika á hinum samevrópska markaði, starfsréttindi á milli landa eru ekki lengur tryggð, breskir nemendur hafa ekki lengur aðgang að Erasmus skiptiprógramminu, evrópsk fiskiskip fá áframhaldandi leyfi til að veiða á breskum miðum og hið svokallaða frelsi að setja sér sín eigin lög er mjög takmarkað. Evrópusambandið tapar einnig á útgöngu Breta. Bretland var ekki bara þriðja fjölmennasta ríki sambandsins heldur líka boðberi frjálslyndra sjónarmiða í verslun og viðskiptum, bæði innan og utan ESB. Norrænu ríkin, Írar, Eystrasaltsríkin og Holland litu mjög til forystu Breta á þessu sviði. Nú hafa þessi lönd misst mikilvægan bandamann og þetta truflar ákveðið valdajafnvægi innan sambandsins. Það má því færa góð rök fyrir því að engin græði á Brexit!
Hins vegar er ljóst að meirihluti Breta, þótt tæpur væri, samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016 að segja skilið við sambandið. Allir voru sammála að virða bæri þetta lýðræðislega ferli. Það var aftur á móti ljóst að það væri þrautin þyngri að finna lausn á því hvernig samskipti Bretlands og Evrópusambandsins ættu að vera í framtíðinni. Á tímabili leit út fyrir að ekki næðust neinir samningar og svokallað ,,Hard-Brexit“ yrði raunin. Sem betur fer náðust þó samningar á síðustu stundu enda hefði skapast ófremdarástand á flestum sviðum í samskiptum Breta við Evrópusambandið ef harðlínuleiðin hefði verið farin. Ekki síst fyrir breskan almenning. En samt voru aðilar í breska Íhaldsflokknum sem voru tilbúnir að láta sverfa til stáls í aðildarviðræðunum.
Helstu rök þessara harðlínu Brexit-sinna voru að Bretar ættu að ná aftur völdum í sínu landi, hvað svo sem það kostaði í efnahagslegu tilliti. En hvað þýðir að ná aftur völdum? Eiga Bretar til dæmis að geta sett lög án nokkurs tillit til alþjóðlegra skuldbindinga landsins í til dæmis loftlagsmálum eða í vörnum gegn peningaþvætti? Eða að breska þingið gæti afnumið ýmsa löggjöf meðal annars varðandi réttindi fólks á vinnumarkaði því þau hefðu verið sett vegna evrópskra staðla. Var líka verið að halda því fram að lönd eins og Frakkland, Þýskaland, Svíþjóð, Danmörk og Finnland væru ekki sjálfstæð ríki? Staðreyndin er hins vegar sú að gamla ímyndin að þjóðþing geti sett löggjöf algjörlega án nokkurs tillit til aðstæðna í heiminum er orðin ansi veikburða. Svo má ekki gleyma því að ESB hefur aðeins yfirþjóðlegt valdsumboð í ákveðnum málaflokkum sem snerta innri markaðinn, efnahagssamband og tollabandalag. Stóru fjárhagslegu málaflokkar hvers þjóðríkis fyrir sig, eins og heilbrigðis- mennta, skatta og varnarmál, eru utan valdssviðs ESB. Bretar hafa því fullt forræði í þessum málum hvort sem þeir eru innan eða utan ESB.
Ljóst er að viðskiptasamningur Breta við Evrópusambandið gerir ráð fyrir að Bretar viðurkenni samevrópskar upprunareglur og breskar vörur þurfa að standast evrópska staðla. Málamiðlun í fiskveiðimálum þýðir einnig að franskir, breskir og hollenskir sjómenn fá áfram að veiða á breskum miðum í tæp 6 ár. Eftir það þarf að semja á hverju ári og ljóst að Bretar munu líklega áfram veita frönskum, hollenskum og belgískum sjómönnum aðgang að sínum miðum. Ástæðan er sú að breskir sjómenn fá markaðsaðgang fyrir sínar vörur án tolla í krafti slíks samkomulags. Slíkur aðgangur er nauðsynlegur því 80% af afla breskra sjómanna er selt yfir á meginlandið. Þar að auki þurfa Bretar að sætta sig við að alþjóðlegur gerðadómur mun skera úr um ágreining sem hugsanlega kemur upp varðandi þennan nýja viðskiptasamning.
Það er því nokkuð ljóst að þessi sjálfstæðisrök hvað mjög marga þætti varðar voru afar veikburða og eru því nánast jafn innantóm og strætóloforð Brexit-sinna um 350 milljónir punda aukalega á viku til heilbrigðismála í Bretlandi. Alþjóðlegt regluverk á sviðum viðskipta og mannréttinda hefur, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, fest mjög marga þætti í sessi og svigrúm Breta til að breyta þessum alþjóðlegum leikreglum er mun minna en Brexit-sinnar hafa haldið fram. Það er veruleikinn sem blasir við er lýðskruminu linnir.
Bændur og skólafólk tapa á Brexit
Breskir bændur kusu upp til hópa með Brexit. En núna eru tvær grímur farnar að renna á marga af þeim. Greiðslur frá Evrópusambandinu í gegnum sameiginlegum landbúnaðarstefnuna eru hættar að berast og tekjur margra bænda, sérstaklega í hefðbundnum landbúnaði, hafa fallið um allt að 50%. Brexit-sinnar lofuðu að innlendir styrkir myndu bæta þetta tekjutap upp en lítið hefur bólað á þeim fjármunum frá stjórn Íhaldsmanna. Einnig vofir yfir að fríverslunarsamningar við mikil landbúnaðarlönd utan Evrópu auki enn á samkeppni breskra bænda við innflutning, sérstaklega verði samningurinn við Bandaríkjamenn að veruleika.
Skólafólk í Bretlandi er með böggum hildar eftir að ljóst var að landið myndi ekki taka þátt í Erasmus menntasamstarfi ESB lengur. Bretar hafa verið mikilvægur aðili í þessari samvinnu frá upphafi þess árið 1987. Á hverju ári hafa um 200 þúsund Bretar, þar af 15 þúsund háskólastúdentar, tekið þátt í Erasmus samstarfs- og skiptiverkefnum. Þess má geta að Bretland hefur verið vinsælasta samstarfsland Íslands í Erasmus. Á undanförnum árum hafa til dæmis 366 íslenskir háskólanemendur og kennarar farið til Bretland en einnig hafa 363 breskir háskólastúdentar og kennarar komið til Íslands á sama tíma.
Staðan á N-Írlandi og Skotlandi er viðkvæm. Íbúar þessara tveggja landssvæða voru mjög andvíg Brexit. Sérstaklega var mikilvægt að tálmanir myndu ekki rísa á landamærum Írlands og N-Írlands. Það hefði verið raunveruleg hætta á því að átök myndu brjótast út á nýjan leik milli trúarhópa ef slíkt hefði gerst. Friður hefur ríkt á N-Írlandi frá árinu 1998 þegar aðilar náðu samkomulagi sem hefur verið kennt við Föstudaginn langa. Sumir hafa spáð því að Brexit muni að endingu leiða til sjálfstæðis Skotlands og sameiningar N-Írlands við lýðveldið Írland. Of snemmt er að spá um slíkt. Það er þó athyglisvert að landssvæði N-Írlands er í raun enn innan innri markaðar Evrópusambandsins þrátt fyrir að móðurlandið sé gengið úr skaftinu. Það verður því áhugavert hvernig ríkisstjórnir Bretlands og Írlands leysa ýmis praktísk mál sem óhjákvæmilega munu koma upp vegna þessarar stöðu.
Staða Gíbraltar er einnig mjög snúin. Fáir íbúar þessa landssvæðis á suðurodda Spánar vilja sameinast Spáni. En mikill meirihluti íbúanna var samt á móti Brexit. Á síðustu stundu náðu ríkisstjórnir Spánar og Bretlands samkomulagi. Það felur meðal annars í sér að Gíbraltar verður hluti af Schengen svæðinu! Það er mjög athyglisvert því Bretland (og þar með Gíbraltar) hefur aldrei verið hluti af Schengen-svæðinu þótt landið hafi tekið þátt í hluta Schengen-samstarfsins. Sú sérkennilega staða er því komin upp að þótt Gíbraltar sé hluti af Bretlandi þá þurfa breskir ríkisborgarar að framvísa vegabréfi við komuna til Gíbraltar en ekki íbúar Evrópusambandsins. Ríkisborgarar Íslands, Noregs og Liechtenstein þurfa ekki heldur að framvísa vegabréfi því þessi lönd eru hluti af Schengen-samkomulaginu! Það er líka tímanna tákn að það eru ekki breskir tollverðir eða lögreglumenn sem gæta landamæra Gíbraltar og Spánar heldur eru það evrópskir starfsmenn Frontex, landamæraeftirlitsstofnunar Evrópusambandsins!
Höfundur er með M.Sc. gráðu í Evrópufræðum frá London School of Economics, hefur kennt Evrópufræði við Háskóla Íslands og hefur starfað að Evrópumálum í 26 ár.