Hvernig geta íbúar í sömu götu, ásamt gróðurhúsi, brugghúsi og skrifstofu í hverfinu unnið saman í hringrásarhagkerfinu? Matarleifar frá íbúunum, og malt, humlar frá brugghúsinu eru úrvalsefni í moltu sem hægt er að nota í gróðurhúsi sem framleiðir mat fyrir skrifstofufólkið. Gróðurhúsið getur þess vegna verið í skrifstofuhúsinu sjálfu. Hringrásarhagkerfið snýst um samvinnu, sjá tækifærin í kringum sig, hagræða rekstri, nýta hráefnin betur og lengur, minnka akstur og fækka kolefnissporum. Hringrásarhugsun í matvælaframleiðslu gæti skipti sköpum í baráttunni við hlýnun jarðar.
Út um allan heim er fólk og fyrirtæki að tileinka sér þessa hugsun og nýta betur það sem finnst í nágrenninu, finna hráefni og úrgang sem hægt er að nýta í jarðgerð, orkuframleiðslu, matvælaframleiðslu og fleira. Slík samvinna skilar sér margfalt; minni sóun, minni mengun betri rekstur og betri nýtni.
Okkar fjölgar hratt á sama tíma og loftlagsvandinn eykst. Það eru fleiri munnar að metta á meðan gerð er sú krafa að matvælaframleiðendur dragi úr loftlagsáhrifum sínum. Eitt mikilvægasta skrefið í þessa átt er að búa til samvinnufélög í matvælaframleiðslu sem geta nýtt hráefni og úrgang sem fellur til. Á Íslandi geta bændur, fyrirtæki í sjávarútvegi, matvæla- og drykkjaframleiðendur, sprotafyrirtæki og fleiri unnið saman til þess að nýta betur allan lífrænan úrgang í matvælaframleiðslu, dýrafóður, jarðgerð, metangas, lífdísil og til áburðar. Möguleikarnir eru óþrjótandi.
Kaffikorgur úr eldhúsinu, og soðið bygg og malt úr brugghúsinu í bland við trjáflísar er fyrirtaks hráefni í jarðgerð. Heitt vatn frá sundlauginni hitar upp moltuna eða þörungaræktina. Moltan er notuð sem jarðvegsbætir í gróðurhúsinu þar sem ræktaðar eru ýmsar matjurtir. Koldíoxíð sem myndast í jarðgerðinni er notað í þörungarækt.
Jarðgerð er mikilvægt loftlagsmál
Það er mjög mikilvægt loftlagsmál að nýta lífrænan úrgang í stað þess að urða hann. Með því að urða lífrænan úrgang verða umbreytingar í honum sem leiða til mengunar vegna sigvatns, hauggass og hitamyndunar; sigvatn getur lekið út í umhverfið og mengað grunn- og yfirborðsvatn. Við urðun á lífrænum úrgangi myndast metan sem getur leitt til eld- og sprengihættu, gróðurskemmda, lyktar- og loftmengunar. Metan er 20 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð, er sem sagt hættuleg gróðurhúsalofttegund en með jarðgerð í stað urðunar komum við í veg fyrir þessa mengun. Það sparast um eitt tonn af koldíoxíðígildum fyrir hvert tonn sem fer í jarðgerð frekar en urðun. Þessi kolefnisjöfnun eykst enn frekar þegar tekst að nýta moltuna í matvælaframleiðslu og landgræðslu, en þannig tökum við koltvíoxíð og bindum það við lífmassa í náttúrunni. Lífræn efni og næringarsölt glatast ekki heldur mynda jarðvegsbæti, náttúrulegan áburð sem er auðvelt og ódýrt að framleiða.
Það eru margir mikilvægir kostir við jarðgerð í samvinnu við matvælaframleiðslu. Það dregur úr mengun vegna flutnings, brennslu eða urðunar heimilisúrgangs, sorpflutningar dragast saman og kostnaður vegna sorpeyðingar minnkar. Jarðgerð gefur fleiri möguleika á að vinna að umhverfismálum og bera persónulega ábyrgð, og veitir fólki, ekki síst börnum, skilning og þekkingu á náttúrulegu hringferli lífrænna efna.
Hringrásin er hagkvæmari
Smærri félög og fyrirtæki ættu að líta í kringum sig og leita að samstarfsaðilum – samnýta krafta sína og sækja ekki vatnið yfir lækinn. Þetta gerir náttúran með undraverðum og fallegum hætti: blómin bjóða upp á hunang fyrir flugur í skiptum fyrir frædreifingu, smærri fiskar fylgja stærri – þeir litlu fá vernd og fæði en þeir stóru húðhreinsun, þetta er kallað hjálparatferli eða samlífi, allir fá eitthvað fyrir sinn snúð.
Með samvinnu og nágrannatengslum í matvælaframleiðslu er verslað og unnið saman í héraði, peningar haldast innan svæðisins sem kemur að góðu fyrir allt nærsamfélagið. Þetta gerðu íslenskir bændur á upphafsdögum samvinnuhreyfingarinnar með góðum árangri og það er áhugavert að skoða kraftinn og verðmætasköpunina sem varð til á Íslandi á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.
Nýr og vistvænni matur
Hringrásarhagkerfið reynir á hugvit og sköpun. Frumkvöðlar út um allan heim eru að þróa hugmyndir og tæknilausnir og reyna að vinna með það sem finna má í nærumhverfinu. Það er mögulegt að rækta ýmsar tegundir af sveppum og þörungum úr lífrænum úrgangi sem síðan er hægt að nýta í ýmiskonar matvælaframleiðslu, til að mynda kjötlausar vörur, sem er hratt vaxandi markaður.
Kjötframleiðsla hefur meiri áhrif á loftslagið en önnur matvælaframleiðsla og mannkyn þarf að draga úr kjötneyslu hið snarasta og leita á ný mið og framleiða nýjar tegundir af matvörum. Af þeim gróðurhúsalofttegundum sem berast út í andrúmsloftið af mannavöldum og valda hlýnun og loftslagsbreytingum er hlutur kjötframleiðslu um 14-18%. Þess vegna þarf að minnka kjötátið en ýmsar kjötlausar vörur geta komið í stað kjöts, eins og kjötlausir hamborgarar, sem njóta nú sívaxandi vinsælda. Það eru óþrjótandi möguleikar með sveppi og þörunga, slík matvælaframleiðsla þarf ekki mikið pláss, getur farið fram í þéttbýli og nýtt sér hráefni úr nærumhverfinu. Það er kall tímans að reyna draga úr stórfelldum flutningum á matvörum milli landa og heimshluta og þessi tækni er svar við því. Gróðurhús, gróðurrækt sem hluti af íbúðum og atvinnuhúsnæði, þar sem fólk ræktar sitt eigið grænmeti, er orðinn sjálfsagður hluti í húshönnun og arkitektúr. Hversu fallegt væri það nú ef Smáralind væri eitt risavaxið gróðurhús samhliða verslunarrekstri?
Baráttan við hamfarahlýnun er krefjandi og grafalvarleg – en hún er líka spennandi áskorun. Að hugsa hlutina upp á nýtt, skapa eitthvað nýtt og rækta nágrannatengslin .
Lítum okkur nær, hugsun hlutina upp á nýtt og ræktum nágrannatengslin.
Höfundur er samskiptastjóri Terra.