Út er komin athyglisverð bók eftir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur: Spegill fyrir skuggabaldur. Ólína gerir grein fyrir verkinu í formála og spyr hvað sé að á Íslandi, þegar ætterni og flokksvísi skipti meira máli fyrir starfsframa en geta og gjörvileiki. Þetta eigi ekki síst við um störf hjá hinu opinbera þar sem sérhagsmunagæsla stjórnmálaflokka blómstrar. Hún leitar svara við þessari spurningu og skiptir bókinni í fjóra hluta, þar sem hún fjallar um þekkt dæmi úr samfélaginu þar sem ráðningarbanni (berufsverbot) hefur verið beitt. Í raun er misbeiting valds þungamiðja þessarar úttektar Ólínu.
Strax í fyrsta hluta bókarinnar (Vald peninganna, 31 síða) kynnist lesandinn ógnvekjandi valdi peninganna þegar slengt er framan í hann setningunni: „Drullaðu þér burt!“. Byrjunin minnir einna helst á upphaf hinnar magnþrungnu spennumyndar: Níkitu eftir Luc Besson frá árinu 1990, með hinn góðkunna Jean Reno í hlutverki hreinsarans Viktors. Lesandinn situr límdur í sætinu fram að lokamínútu, en kaflanum lýkur á orðunum: „Ég held að það sé nokkuð ljóst að Már Guðmundsson er á leiðinni í fangelsi!“
Hún er líka mögnuð, lýsing Ólínu á því þegar ríkasti maður landsins, Þorsteinn Már Baldvinsson, hótar seðlabankastjóra. Ekki fer á milli mála hver það er sem stjórnar landinu, ekki síst þegar forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, í skóm Lady Macbeth, ákveður að breyta sögunni með sinni eigin stjórnarskrá og tekur afstöðu gegn þjóðinni með því að verja þennan gjörning.
Ólína fylgir þessari frásögn vel eftir í næstu köflum á eftir, þar sem hún afhjúpar tengsl fjármagnseigenda við fjórflokkinn svokallaða. Þarna er sagt frá tveimur aflaskipstjórum sem Þorsteinn Már hefur lagt í einelti með atvinnubanni. Sú frásögn minnir á meðferðina sem Helgi Benediktsson, útgerðarmaður frá Vestmannaeyjum, mátti sæta af hendi Bjarna Benediktssonar, dómsmálaráðherra. Maður hélt í einfeldni sinni að slík aðför tilheyrði annarri veröld. Aðstoðarmaður Bjarna var Gunnar Pálsson, faðir Kjartans, fyrrum framkvæmdarstjóra Sjálfstæðisflokksins, sem Jónas frá Hriflu kallaði stórdómara, en hann tók gjarnan að sér verk af þessu tagi fyrir Bjarna. Í frásögn Ólínu er ráðherrann, Kristján Þór, hins vegar aðstoðarmaðurinn. Fyrsta hluta bókarinnar lýkur svo á bréfi Bjarna Jónssonar, þar sem lýst er hlutskipti manns sem hefur verið án atvinnu í 366 daga.
Annar og þriðji hluti bókarinnar (Stjórnsýslan, 61 síða og Pólitíska valdið, 62 síður) eru meginkaflar bókarinnar. Þeir eru ekki alveg eins öflugir og fyrsti hlutinn, en skilgreina eigi að síður vel um hvað atvinnubann (berufsverbot) og spilling snúast og tekin mörg athyglisverð dæmi af einstaklingum til þess að skýra frásögnina.
Hér er það fyrst og fremst tvennt sem ég vil nefna sem hefði mátt hnykkja betur á, í ljósi þess sem síðar er fjallað um. Á blaðsíðu 66 útskýrir Ólína muninn á umboðsmanni Alþingis og úrskurðarnefnd jafnréttismála. Þar lýsir hún því hvernig umboðsmaður tekur fyrir kærur frá einstaklingum, og metur sjálfur hvort og hvernig hann bregst við, auk þess sem hann getur hafið sjálfstæðar rannsóknir á stofnunum ef honum sýnist svo. Úrskurðarnefndin tekur hins vegar einungis fyrir mál þar sem grunur leikur á kynjamismunun. Ólína kærir Háskólann á Akureyri (bls. 171) fyrir að hafa gengið fram hjá sér við stöðuveitingu til umboðsmanns Alþingis eftir að hæfisnefnd hafði metið hana hæfasta. Ekkert kom út úr þeirri kæru annað en persónulegt bréf frá umboðsmanni. Þegar hún var hins vegar sniðgengin við ráðningu í starf þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum (bls. 84) kærði hún til úrskurðarnefndar jafnréttismála. Það mál vinnur hún. Málin eru sambærileg. Í báðum tilvikum er Ólína beitt atvinnubanni vegna pólitískra skoðana sinna og greinilegt að hún og fleiri leita til úrskurðarnefndar jafnréttismála (bls. 71-72) vegna getuleysis umboðsmanns Alþingis. Það leiðir af sjálfu sér að karlar hafa ekki um þennan kost að velja og leiðir þessi mismunun til úlfúðar milli kynja, sem varla hefur verið ætlun löggjafans. Þó er það ekki alveg ljóst.
Á heimasíðu embættis umboðsmanns segir m.a. um ráðningar:
Þegar stjórnvöld takast það á hendur að ráða einstakling til starfa hjá opinberum stofnunum verður verklag við ráðningarferlið að taka mið af þeirri grundvallarreglu stjórnsýsluréttar að velja skuli hæfasta umsækjandann til starfans. Jafnframt er gerð krafa til þess að ferlið stuðli að því að réttaröryggi þeirra sem sækja um störf hjá hinu opinbera sé tryggt. Þar sem ákvörðun um skipun, setningu eða ráðningu í opinbert starf er stjórnvaldsákvörðun verður þannig að haga meðferð þessara mála svo að hún fullnægi kröfum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins.
Ekki er beinlínis fjallað um það hvernig auglýsingum skuli háttað, en gera verður ráð fyrir að leitað sé að hæfasta einstaklingnum, að ekki sé auglýst eftir ákveðnum einstaklingum, og hlutverk og eðli starfsins komi skýrt fram í auglýsingu. Í framhaldi verður að álykta að niðurstöðurnar séu mælanlegar og gegnsæjar, en ekki byggðar á persónulegu mati.
Þetta var ekki yfirlýstur tilgangur Alþingis með stofnun embættis umboðsmanns. Embættið tók til starfa í ársbyrjun 1988, langt á eftir sambærilegum embættum á hinum Norðurlöndum, og hafði þá verið til umræðu í 30 ár. Embættið tekur mið af danska embættinu en ekki því sænska sem er mun eldra og hefur saksóknaravald. Aðeins tveir aðilar hafa gegnt embætti umboðsmanns Alþingis: Gaukur Jörundsson og Tryggvi Gunnarsson, sem hefur setið frá 1998, eða í 22 ár. Greinilegt er að Alþingi vill lágmarka afskipti af ráðningum og umbætur á stjórnsýslunni, sbr. framgöngu Ásgeirs Jónssonar í seðlabanka (bls. 126) og útvarpsstjóra Páls Magnússonar, sem rak vel á annað hundrað starfsmenn (bls. 92). Tryggvi hefur nú ákveðið að hætta eftir 33 ár í starfi við embættið. Það er ekki öllum gefið að sitja svona lengi í aðgerðarlitlu embætti og verður forvitnilegt að sjá hvort einhver breyting verði á því með nýjum herrum.
Hitt atriðið sem hefði mátt útskýra nánar er Landsdómsmálið, einkum þátt Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þ.v. formanns Samfylkingarinnar (SF). Ólína vísar til þess að þingnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að kæra yrði fjóra ráðherra. Jafnframt vísar hún til þess að rannsóknarnefnd Alþingis hafi ekki talið unnt að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu á grundvelli laga um ráðherraábyrgð, sem kveði á um að viðkomandi ráðherra málaflokks sé sá sem teljist ábyrgur gagnvart landsdómi og að þeir þingmenn sem hafi samþykkt að kæra Geir Haarde en ekki Ingibjörgu Sólrúnu hafi orðið fyrir atvinnubanni (bls. 118-122).
Aldrei hefur reynt á Landsdóm og hefur það ýtt undir óábyrga hegðun stjórnmálamanna í gegnum tíðina. Hins vegar er þessi fyrsti dómur og afleiðingar hans persónugerðar, og snúast þar af leiðandi ekki um það sem máli skiptir. Landsdómsmálið umhverfðist í grímulausa pólitík, verður bitbein íhalds og vinstri afla og ýtir enn frekar undir óábyrga hegðun stjórnmálamanna, sbr. skipun Sigríðar Á. Andersen í Landsrétt (bls. 65) en kostnaður skattgreiðenda vegna hennar nemur nú yfir 150 miljónum króna.
Landsdómsmálið á sér ekki neina hliðstæðu nema ef vera skyldi eiðrofsmálið 1942 þegar Ólafur Thors sveik Hermann Jónasson og breytti stjórnarskránni þrátt fyrir loforð um annað. Eiðrofsmálið snerist um persónulegt vantraust milli Hermanns og Ólafs en ekki um stjórnarskrárbundið ranglæti. Í ríkisstjórn tveggja eða þriggja flokka eru það formenn þeirra sem bera ábyrgð á efnahagsstefnunni sem birtist í fjárlagafrumvarpi. Í framhaldinu leggja þeir til breytingar á tekjuöfluninni til að ná fram sameiginlegri pólitísku stefnu ríkisstjórnarinnar. Sagan er skýrt dæmi um þetta en einnig má vísa í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (RNA). Samkvæmt RNA var efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar meginorsök Hrunsins 2008. Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar fyrir RNA kemur einnig fram að Ingibjörg Sólrún hafi borið ábyrgð á þessum flokki. Jafnframt kemur þar fram að Ingibjörg Sólrún sendi fulltrúa sinn, Össur Skarphéðinsson, á hinn afdrifaríka fund um fall Glitnis í Seðlabankanum, sem Björgvin vissi ekkert um, og var í nánu sambandi við Geir Haarde, forsætisráðherra, um málið á meðan á fundinum stóð. Samt felur hún sig á bak við lagakróka í rannsóknarskýrslunni og heldur því fram að hver ráðherra beri ábyrgð á sínum málaflokki. Hér bregst Alþingi og hefði mátt kryfja þetta atriði aðeins betur, en ekki sér fyrir endann á afleiðingum Landsdómsmálsins og þeirra drengskaparbrota sem Ingibjörg Sólrún hefur orðið ber af. Þarna hefði mátt tengja tilraun þingmanna til að draga landsdómskæruna til baka og hvort þeim þingmönnum hefði verið hótað atvinnubanni (bls. 120) en Sigmundur Ernir Rúnarsson var einn þeirra (bls. 123) sem Ólína tekur sem dæmi um þingmann sem fékk ekki vinnu upp úr því. Eins hefði mátt setja spurningamerki við ráðningar þingmannanna Einars K. Guðfinnssonar og Katrínar Júlíusdóttur (122) hjá hagsmunasamtökum en slíkar ráðningar eru dæmi um grófa spillingu sem t.d. umboðsmaður Evrópusambandsins fylgist grannt með þótt hann hafi svipaðar heimildir og umboðsmaður Alþingis til þess.
Í fjórða hluta (Vísindasamfélagið og fjölmiðlar, 48 síður) eru rakin nokkur dæmi um það hvernig menn eru ritskoðaðir innan háskóla og fjölmiðla. Þessi kafli er sérstaklega athyglisverður og vel unninn þar sem háskólar og fjölmiðlar eru vagga lýðræðisins. Hér ber að nefna umfjöllun um mál Þorvaldar Gylfasonar, en það teygir anga sína til útlanda rétt eins og mál Nóbelskáldsins forðum. Þar fjallar Ólína um mikla heift sem alið er á í garð Þorvaldar. Þá er mál Jóhanns Haukssonar ekki síður athyglisvert. Jóhann var rekinn frá Fréttablaðinu fyrir geta þess að Bjarni Benediktsson, dómsmálaráðherra, hefði njósnað um pólitíska andstæðinga sína. Njósnum Bjarna er lýst í máli Halldórs Laxness (bls. 152) sem Ólína tekur einnig fyrir af mikilli skerpu og vísar í traustar heimildir máli sínu til stuðnings. Bjarni Benediktsson var, sem dómsmálaráðherra, yfir skattkerfinu og giltu lög um þagnarskyldu til hans. Það virðist samt ekki hafa flækst fyrir honum og vekur spurningar um hvort mál Laxness hafi verið einstakt eða hvort upplýsingar um fleiri Íslendinga hafi farið þessa leið. Sambærilegar lýsingar á beitingu skattkerfisins í þágu Sjálfstæðisflokksins nú dögum má sjá í bók Jóhanns: Þræðir valdsins, og ævisögum Einars Kárasonar um þá Jón Ólafsson og Jón Ásgeir. Þá má einnig nefna grein eftir undirritaðan um skattsvik í aðdraganda hrunsins: skattsvik í boði hverra?
Að lokum spyr Ólína hvað sé til ráða fyrir þá sem verða fyrir atvinnubanni, en þeir eru örugglega fleiri en menn grunar, og hver lærdómurinn af bókinni er. Þar vísar hún m.a. til tillagna Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur um miðlæga ráðningarstofu hins opinbera undir þinglegu eftirliti vegna getuleysis umboðsmanns Alþingis til að taka á þessum málum. Þetta er svipað form og Frakkar gripu til eftir fall Vichy-stjórnarinnar en tilurð þeirrar stjórnar og undirlægjuhættur hennar við nasista hefur verið rakið til spillingar og kunningjastjórnsýslu innan þriðja lýðveldisins 1870-1940. Nú verða allir sem hyggjast sækja um vinnu hjá hinu opinbera í Frakklandi að gangast undir sérstakt próf (Concours). Eva Joly fór t.d. í svona próf og fékk vinnu sem rannsóknardómari, eins og frægt er orðið. Hún hefði aldrei getað látið sig dreyma um það án þessa fyrirkomulags. Hér hefði Ólína mátt vísa í nýju stjórnarskrána, einkum 96. grein hennar, en hún leysir mikinn vanda, og hefði líklega ekki komið til Landsdómsmálsins, hefði Alþingi virt þjóðarviljann:
96. grein. Skipun embættismanna
Ráðherrar og önnur stjórnvöld veita þau embætti sem lög mæla.
Hæfni og málefnaleg sjónarmið skulu ráða við skipun í embætti.
Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með 2/3 hlutum atkvæða til að hún taki gildi.
Ráðherra skipar í önnur æðstu embætti, eins og þau eru skilgreind í lögum, að fenginni tillögu sjálfstæðrar nefndar. Velji ráðherra ekki í slíkt embætti einn þeirra sem nefndin telur hæfasta er skipun háð samþykki Alþingis með 2/3 hlutum atkvæða.
Forseti Íslands skipar formann nefndarinnar. Um nánari skipan hennar og störf skal mælt fyrir í lögum.
Í lögum má kveða á um að í tiltekin embætti megi einungis skipa íslenska ríkisborgara. Krefja má embættismann um eiðstaf að stjórnarskránni.
Þetta er athyglisverð bók fyrir margra hluta sakir og ættu allir að lesa hana a.m.k. fyrir kosningarnar í haust. Hún er vel unnin og frásögnin skipuleg. Ólína heldur lesandanum vel við efnið. Nokkrar gloppur eru þó í nafnaskrá en prentvillur fáar og strjálar. Ólína hefur viðað að sér miklu magni heimilda sem hún gerir góð skil og gott að þessum upplýsingum sé haldið til haga á einum stað. Hún er samt ekki að viðra neinn nýjan sannleik. Þjóðin hefur lengi vitað af þessum ósköpum. Bókin setur þennan veruleika hins vegar í nýtt og víðara samhengi. Þess vegna vakna líka margar spurningar að lestri loknum. Hvað ætla yfirvöld að gera? Hvernig geta þau látið sem ekkert sé? Hvað um nýju þingmannsefnin? Er þetta þjóðfélagið sem á þeim brennur? Spjótin beinast einnig að verkalýðshreyfingunni, einkum BSRB og BHM. Af hverju hafa þau bandalög látið ráðningar og uppsagnir hjá hinu opinbera afskiptalausar og hvernig ætla þau nú að bregðast við?
Höfundur er hagfræðingur og sagnfræðingur.