Auglýsing

Í lok janúar voru 26.403 manns án atvinnu á Íslandi að öllu leyti eða hluta. Af þeim voru 21.809 að öllu leyti atvinnulausir og 11.780 þeirra höfðu verið á atvinnu í sex mánuði eða lengur. þeim hefur fjölgað um 200 prósent á einu ári. Af þeim sem voru atvinnu­lausir höfðu 4.508 verið án atvinnu í meira en eitt ár, sem er aukn­ing um 155 pró­sent frá því í jan­úar í fyrra. Þeim sem hafa verið atvinnu­lausir í sex til tólf mán­uði hefur fjölgað um 240 pró­sent á einu ári. 

Atvinnuleysi er mun hærra hérlendis en á hinum Norðurlöndunum. Það er í fyrsta skipti síðan að mælingar hófust sem það gerist. Í Evrópusambandinu er atvinnuleysi 7,5 prósent. Í Bandaríkjunum 6,3 prósent. Samanlagt atvinnuleysi hér er 12,8 prósent samkvæmt Vinnumálastofnun og 8,2 prósent samkvæmt Hagstofu Íslands.

Alls eru 19.947 einstaklingar á örorku á Íslandi samkvæmt mælaborði Tryggingastofnunar. Til viðbótar eru 3.150 einstaklingar á endurhæfingarlífeyri. Í höfuðborginni Reykjavík voru 1.057 að þiggja fjárhagsaðstoð til framfærslu á árinu 2019. Áætlað er að þeir hafi verið 1.376 í fyrra að jafnaði á mánuði og spár gera ráð fyrir að meðalfjöldi notenda fjárhagsaðstoðar fari upp í 1.852 á mánuði á yfirstandandi ári. Þeim sem þiggja þá aðstoð hefur mun samkvæmt því fjölga um 75 prósent á tveimur árum. Atvinnuþátttaka á Íslandi hefur aldrei mælst minni en í fyrra og fór undir 80 prósent í fyrsta sinn í sögunni. 

Samanlagt eru, miðað við meðaltalsfjöldann sem fékk fjárhagsaðstoð hjá Reykjavík í fyrra, því 50.876 einstaklingar atvinnulausir, á örorku, endurhæfingarlífeyri eða að þiggja fjárhagsaðstoð hjá stærsta sveitarfélagi landsins hjá þjóð sem taldi alls 368.590 manns um síðustu áramót. 

Ungt og erlent fólk í fátækt

Atvinnuleysið bitnar sérstaklega illa á ungu fólki og erlendum ríkisborgurum. Alls voru 2.449 manns á aldrinum 18 til 24 ára atvinnulausir í janúar, sem er 103 prósent fleiri en í sama mánuði í fyrra. 

Alls voru 51.367 erlendir rík­­is­­borg­­arar skráðir á Íslandi í byrjun des­em­ber 2020. Í lok síð­asta mán­aðar mæld­ist atvinn­u­­leysi á meðal þeirra um 24 pró­­sent, enda 8.794 erlendir atvinnu­leit­endur án atvinnu, á meðan að almennt atvinn­u­­leysi í land­inu var 11,6 pró­­sent. Að teknu til­liti til þeirra sem voru á hlutabótum var heild­ar­at­vinnu­leysi erlendra rík­is­borg­ara nálægt 26 pró­sent. Rúm­­lega 40 pró­­sent allra sem voru atvinn­u­­lausir að öllu leyti voru því erlendir rík­­is­­borg­­ar­­ar.

Auglýsing
Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, greindi frá því í byrjun febrúar að könnun sem hún gerði í nóvember og desember 2020 sýndi að um fjórð­ungur launa­­fólks á erfitt með að láta enda ná saman sem stendur og fimmt­ungur þess getur ekki mætt óvæntum útgjöld­­um. Þeir sem eru atvinn­u­­lausir eiga erf­ið­­ast með að láta enda ná sama og fleiri í hópi þeirra hafa þegið mat­­ar- eða fjár­­hags­að­­stoð og líða efn­is­­legan skort en í öðrum hóp­­um.  

Fjár­­hags­­staða inn­­flytj­enda er verri en þeirra sem telj­­ast til inn­­­fæddra Íslend­inga. Þeir eiga erf­ið­­ara með að láta enda ná sam­an, líða frekar efn­is­­legan skort en inn­­­fæddir og hafa þegið mat­­ar- og/eða fjár­­hags­að­­stoð í meira mæli. Þeir eiga líka margir hverjir erfiðara með að skilja kerfin, sækja sér bjargir og eru ekki með sama félagslega net í kringum sig og flestir innfæddir. 

And­­legt heilsu­far inn­­flytj­enda mæld­ist líka verra en inn­­­fæddra en lík­­am­­legt heilsu­far þeirra betra. Þá sýndi könn­unin að atvinn­u­­lausir inn­­flytj­endur sýni almennt meiri virkni og sveigj­an­­leika en inn­­­fæddir og að það eigi sér­­stak­­lega við atvinn­u­­lausar kon­­ur.

Stór hluti þessa hóps sem er í mestu erfiðleikunum er að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna þess að hann á ekki fyrir henni. 

Búum ekki til „réttu“ störfin

Þessi staða er afleiðing af ákvörðunum sem teknar voru undanfarin rúman áratug í efnahagsmálum, þótt COVID-19 hafi auðvitað ýkt hana gríðarlega. Á uppgangstímum síðustu ára var öll áhersla hérlendis lögð á að búa til þjónustustörf tengd ferðaþjónustu sem Íslendingar voru flestir ekki að mennta sig til að vinna, og mönnuðum þau með innfluttu vinnuafli í staðinn. Skammtímahagsmunir þeirra sem voru að hagnast voru teknir fram fyrir langtímahagsmuni íslensks efnahagskerfis. 

Nánast ekkert var gert sem neinu nemur til að stuðla að aukinni fjölbreytni í atvinnulífi þjóðarinnar, eða aðlaga það að þörfum og væntingum íbúana, á þessu tímabili. Við rekum nefnilega menntastefnu sem skilar okkur þúsundum sérfræðinga á hverju ári með milljóna-fjárfestingarkostnaði fyrir skattgreiðendur, en atvinnulíf sem gerir ekki ráð fyrir þeim nema að hluta. 

Skoðum tölur. Frá árinu 2008, þegar banka­hrunið varð, hefur það ein­ungis gerst tvisvar að fleiri Íslend­ingar flytji heim en burt innan alm­an­aks­árs. Það gerð­ist 2017 þegar 352 fleiri flutti til lands­ins en frá því og það gerðist árið 2020, þegar heimsfaraldur kórónuveiru lokaði heiminum. 

Hvorki Hag­­stofa Íslands né Þjóð­­skrá Íslands hafa safnað saman upp­­lýs­ingum um mennt­un­­ar­­stig þeirra Íslend­inga sem kjósa að flytja af landi brott. Því liggur ekki fyrir svart á hvítu hvort um sé að ræða lang­­skóla­­gengið fólk eða ekki.

En það er líklegt. Á meðal þeirra sem hafa viðrað þá skoðun í gegnum tíðina er Ásgeir Jónsson, núverandi seðlabankastjóri. Hann sagði í viðtali við Morgunblaðið í nóvember 2015 að vísbendingar væru um að margt háskólagengið fólk væri að flytja úr landi. Karl Sig­­urðs­­son, sér­­fræð­ingur hjá Vinn­u­­mála­­stofn­un, sagði svip­aða sögu við Morg­un­­blað­ið. Vís­bend­ingar væru um að margir finni ekki atvinnu sem henti námi þeirra og bak­grunni.

Þess vegna væru vís­bend­ingar uppi um svo­kall­aðan speki­leka. Þ.e. að vel menntað fólk frá Íslandi, sem íslenska ríkið hefði fjár­fest veru­lega í með fjár­fram­lögum til mennt­un­ar, væri að fara frá land­inu þrátt fyrir að efna­hags­lífið væri á fleygi­ferð upp á við flest þessara ára. Ísland væri ein­fald­lega ekki að búa til réttu störfin sem unga fólkið okkar væri að mennta sig fyr­ir.

Veðjuðu húsinu á eina atvinnugrein

Strax árið 2019 var þessi stefna farin að bíta í okkur. Þá lentu mörg ferðaþjónustufyrirtæki í vandræðum í kjölfar gjaldþrots WOW Air og Primera Air, sem leiddu til fækkunar í komu ferðamanna til landsins. Offjárfestingar gætti í greininni og augljóst var að þar þurfti að fara í gegnum leiðréttingarferli. Sumir þurftu að fá að fara í þrot, aðrir þyrftu að sameinast og ýmsir að endurskipuleggjast. En flestir ætluðu samt að þráast við og sjá hvort að árið 2020 myndi ekki bjarga þeim úr holunni. 

Svo skall COVID-19 á og ljóst að ekkert yrði af þeim áformum. 

Ríkisstjórnin tók hins vegar þá ákvörðun að veðja húsinu á þessa einu atvinnugrein, í stað þess að fjárfesta í fólki og fjölbreytni. Allt var lagt undir til að halda ferðaþjónustunni lifandi í gegnum faraldurinn svo hægt yrði að byggja endurreisnina á baki hennar. Tugum milljarða króna var dælt til hennar í gegnum ýmis úrræði til að verja kennitölur og hlutafé svo hægt yrði að vekja fyrirtækin af svefninum þegar á þurfti að halda. Rauði dregillinn var dreginn út fyrir sum fyrirtækin, aðallega Icelandair Group, sem fékk allra fyrirtækja mest í allskyns fyrirgreiðslu. 

Auglýsing
Forsendur fjárlaga ársins 2021 gengu enda út frá því að 900 þúsund ferðamenn myndu heimsækja landið á því herrans ári. Þau áform eru nær örugglega ekki að fara að ganga eftir, jafnvel þótt varfærin skref verði stigin til afléttingar á sóttvarnaraðgerðum á landamærum 1. maí, líkt og ríkisstjórnin stefnir að. Í janúar voru brottfarir um Keflavíkurflugvöll til að mynda 4.362 talsins, og 28 prósent þeirra voru frá Póllandi. Alls dróst fjöldinn saman um 96,4 prósent milli ára. 

Allar líkur eru á því að veðmálið hafi ekki gengið upp. 

Fólk sat fyrir vikið eftir

Sáralítil áhersla hefur verið lögð á að skapa virkni fyrir þá tugþúsundir sem hafa nú lítið sem ekkert að gera, og enn minna á milli handanna. Meira að segja opinber fjárfesting hefur látið á sér standa og er langt undir þeim áætlunum sem kynntar hafa verið. Það gerist þrátt fyrir að uppsöfnuð þörf fyrir fjárfestingar í innviðum til að koma þeim í skikkanlegt horf sé 420 milljarðar króna. Þá á enn eftir að telja til sneypulega áherslu á nýsköpun og sprotastarfsemi árum saman, sem allir í þeim geira segja í tveggja manna tali að sé langt undir því sem þarf, en vilja helst ekki gagnrýna opinberlega vegna þess að það þykir af einhverjum sökum ekki viðeigandi þegar ráðherrarnir sjálfir eru ítrekað að hrósa sjálfum sér fyrir að gera mikið. 

Öll áhersla stjórnvalda virðist einfaldlega vera á að dæla fjármagni til afmarkaðs hluta atvinnulífsins og vona að hann taki við sér þegar um losnar. Á meðan er dauðafæri til að auka fjölbreytni, fjölga stoðunum, eggjunum, tækifærunum eða hvað sem við viljum kalla það, sleppt. 

Fullt af fólki hefur hagnast á COVID-19 ástandinu

Fjármagnseigendur hafa hins vegar hagnast verulega á kórónuveiruástandinu. Þeir sem eiga nægt viðbótarfé til að fjárfesta til að mynda í hlutabréfum hafa séð skattfrelsi fjármagnstekna hækka og hlutabréfaverð hefur hækkað um 84 prósent frá 23. mars í fyrra, án þess að nokkuð í undirliggjandi rekstri skráðra fyrirtækja útskýri þá hækkun. Í árslok 2019 átti sú tíund landsmanna sem var ríkust, alls tæplega 23 þúsund fjölskyldur, 86 prósent allra verðbréfa sem voru í beinni eigu einstaklinga. Allt bendir til þess að hinir ríku hafi orðið ríkari í heimsfaraldrinum.

Það sama á við um þann hluta þjóðarinnar sem hélt vinnu, og gat unnið heiman frá sér. Tekjuskattur hefur verið lækkaður, húsnæðisverð hækkaði um 7,7 prósent á höfuðborgarsvæðinu í fyrra, kaupmáttur launa þeirra sem eru enn í vinnu jókst um tæp sex prósent í fyrra og launavísitalan hækkað um rúmlega tíu prósent. Stýrivextir hafa hríðlækkað niður í 0,75 prósent, og eru þeir lægstu í sögunni. Það þýðir að þeir sem geta tekið sér lán fá þau nú mun ódýrara en nokkru sinni áður á Íslandi. Þar er að uppistöðu um fólk sem á eignir eða hélt vinnu að ræða, ekki atvinnulausa eða þá sem eru á örorku. Þessi nýju ódýru lán getur það notað til að kaupa sér betra húsnæði og greiða svo niður lánið með skattfrjálsri nýtinu á séreignarsparnaði, á meðan að þeir sem eiga erfitt með að ná endum saman taka út tugi milljarða króna af slíkum sparnaði til að fleyta sér í gegnum erfiðleikana, og borga svo skatta af því. Milli- og yfirstéttin fær svo allskyns skattaafslátt af þessu öllu saman. Skattfrelsi fjármagnstekna hefur verið aukið, tekjuskattur lækkaður og þeir 5,8 milljarðar króna sem hafa verið endurgreiddir af virðisaukaskatti síðastliðið tæpt ár hafa að uppistöðu endað í vasanum á þeim sem nýttu COVID til að kaupa sér nýtt eldhús eða gera upp gamla baðherbergið. 

Rétta leiðin?

Efnahagsendurkoman sem íslensk stjórnvöld hafa hlaðið undir verður mögulega K-laga. Það þýðir að þegar hlutirnir taka að fullu við sér á ný munu þeir sem þegar hafa hagnast fjárhagslega á COVID-aðstæðum halda áfram að hagnast á því. Þeir sem ástandið bitnaði verst á verða enn frekari eftirbátar en áður og líkur á jaðarsetningu þeirra til frambúðar, með tilheyrandi erfiðleikum og sársauka fyrir allt samfélagið, aukast stórkostlega. 

Ljóst er að sitjandi stjórnvöld telja sig hafa valið réttu leiðina í þessum aðstæðum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði til að mynda grein sem birtist í Morgunblaðinu í síðustu viku og bar heitið „Rétta leiðin“. Þar sagði meðal annars: „Leiðin fram á við felst í því að hlúa að einkaframtakinu og gera heimilum og fyrirtækjum kleift að sækja fram þegar léttir til. Við þurfum fleiri störf, meiri umsvif, aukna framleiðslu og framlegð. Kakan þarf að stækka. Án þess getum við ekki varið þá góðu opinberu þjónustu sem við höfum byggt upp. Rétta leiðin að þessu markmiði er að treysta á framtakssemi fólksins sem byggir Ísland. Það gerum við með því að hið opinbera skapi hvetjandi umhverfi, styðji við og standi með þeim sem vilja láta til sín taka. Sýnum í verki trú okkar á að framtíðin sé í reynd í okkar höndum. Það eina sem þarf er að treysta á fólkið sem byggir landið okkar. Veita því möguleika á að grípa tækifærin. Það hefur okkur reynst best í fortíð og þangað skulum við stefna til framtíðar.“

Þessi tækifæri virðast vera fyrir fólk eins og mig og Bjarna. Fólk sem hélt vinnu. Fólk sem að jafnaði stendur mun betur fjárhagslega eftir COVID-19 en fyrir. Fólk sem getur nýtt tækifærin sem skattkerfisbreytingar, endurgreiðslur á virðisaukaskatti, lægri fjármagnskostnaður og hærri laun færa þeim. 

Það má hins vegar slá því föstu að meirihluti þeirra sem eru að uppistöðu ekki í virkni í íslensku samfélagi sem stendur, þeir sem eiga í erfiðleikum með að ná endum saman, þeir sem synja sér um heilbrigðisþjónustu vegna þess að þeir eiga ekki fyrir henni, glíma við verra andlegt heilsufar og hafa verið atvinnulausir í lengri tíma, telji erfitt er að sjá hvaða tækifæri það eru sem verið er að bjóða þeim að grípa. 

Við erum að auka ójöfnuð. Það var pólitísk ákvörðun að gera það. Og nú blasa afleiðingarnar við. 

Alls 50.876 afleiðingar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Frá aðdáun til andófs í álfu strangra takmarkana
Í Eyjaálfu hefur „núllstefnan“ í baráttunni við kórónuveiruna skilað eftirtektarverðum árangri og engin smit hafa greinst í nokkrum ríkjum. Eftir að smitum fjölgaði í Ástralíu og útgöngubann var sett á fannst mörgum nóg komið.
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari