Sigurður E. Guðmundsson heillaðist ungur af hugsjón jafnaðarstefnunnar, enda alinn upp á fátæku alþýðuheimili í Reykjavík í miðri heimskreppu. Reyndar má ýkjulaust segja, að ævistarf hans hafi snúist um að hrinda hugsjóninni í framkvæmd. Sem forstöðumaður Húsnæðismálastofnunar ríkisins var það hans daglega viðfangsefni að greiða fyrir aðgengi fólks að mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Í stað þess að fara að „njóta lífsins“ að loknum farsælum starfsferli, lét hann rætast æskudraum sinn um að sökkva sér niður í nám og rannsóknir í félagsvísindum. Árangurinn af því er þessi: Sagan af því, hvernig hugsjónamenn í þjónustu fátæks fólks breyttu harðneskjulegu þjóðfélagi til hins betra: „Öryggi þjóðar – frá vöggu til grafar: Þættir úr sögu velferðar 1887-1947“. Sjálfur féll Sigurður frá, áður en verkinu var lokið, svo að Jón Þ. Þór, sagnfræðingur, bjó það til prentunar. Hann breytti doktorsritgerð í bók við alþýðuhæfi.
Þetta er viðamikil bók (um 500 bls.) og náma af fróðleik. Það er kosningaár framundan. Velferðarríkið á í vök að verjast. Hvað vita frambjóðendur um sögu þess, fjármögnun og veilur? Þeir sem vilja vinna að útrýmingu fátæktar, jafna lífskjör og rétta hjálparhönd ungri kynslóð, sem hefur verið úthýst af húsnæðismarkaðnum, geta lært margt af lestri þessarar bókar. Hvers vegna stendur velferðarkerfið svo illa undir væntingum svo margra?
Þetta rit Sigurðar E. Guðmundssonar er velkomin viðbót við verk Dr. Stefáns Ólafssonar, prófessors og félaga: Íslenska leiðin. Almannatryggingar og velferð í fjölþjóðlegum samanburði (1999), Þróun velferðar 1988-2008 og Ójöfnuður á Íslandi: Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi (2017).
Erindi við okkur?
Hvaða erindi á þessi saga Sigurðar við okkur, sem nú búum í einu ríkasta þjóðfélagi heims? Þetta er sagan um það, hvernig forfeður okkar og formæður brutust úr örbirgð til bjargálna. Hvernig framsýnir stjórnmálamenn, sem voru vandanum vaxnir og kunnu til verka, virkjuðu samstöðu fátæks fólks til að vinna bug á fátækt, skorti, heilsu – og öryggisleysi, um eigin afkomu og afkomenda sinna. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Þetta gerðist ekki fyrir atbeina hinnar „ósýnilegu handar“ markaðarins. Þetta var pólitík. Ríkisvaldið axlaði ábyrgð (rétt eins og núna í plágunni). Það var ekki gert með byltingu. Þetta var gert með friðsamlegum og lýðræðislegum hætti með því að virkja samstöðu þess fátæka fólks, sem átti undir högg að sækja.
Annað stórvirki, sem umbylti lífskjörum fátæks fólks, var löggjöfin um verkamannabústaði, sem mótaðist á árunum 1928 – 1946. Þar með var fátæku fólki í fyrsta sinn gert kleyft, með samfélagslegum lausnum, að fá aðgengi að mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Allt þetta: Almannatryggingar (þ.m.t. aðgengi að gjaldfrjálsri heilsugæslu); aðgengi að menntun (án tillits til efnahags og þjóðfélagsstöðu) og aðgengi að mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum, umbylti þjóðfélaginu.
Norræna módelið
Efist einhver um það, þarf ekki nema að líta til þjóðfélagsástandsins í Bandaríkjum N-Ameríku samtímans. Þar eru engar almannatryggingar. Missi fólk vinnuna, missir það um leið sjúkratrygginguna. Það má ekkert út af bera til þess að viðkomandi lendi ekki á vergangi. Bandaríkjamenn verja hlutfallslega tvöfaldri upphæð af þjóðarframleiðslu í samanburði við Norðurlönd til heilbrigðismála, í einkavæddu kerfi, sem þjónar hinum ríku. Það er ein helsta undirrótin að klofningi þjóðfélagsins milli ofurríkra og fátækra/réttlausra. Lýðræðið er hætt að virka.
Hvað er það, sem í okkar tilviki á Íslandi (og annars staðar á Norðurlöndum) breytti mannfjandsamlegum kapítalisma í samfélag, sem þjónar mannlegum þörfum? Og lætur ekki bara stjórnast af gróðafíkn forréttindahópa? Svar: það var stjórnmálahreyfing jafnaðarmanna, með atbeina öflugrar verkalýðshreyfingar á vinnumarkaðnum. Samstarf þessara afla hefur skapað norræna samfélagsmódelið, sem öllum – sem bera skynbragð á – ber nú saman um, að sé eftirsóknarverðasta samfélag okkar tíma.
Hvaða stjórnmálamenn voru það, sem með verkum sínum sköruðu fram úr við að breyta þjóðfélaginu til hins betra til frambúðar? Sigurður E. Guðmundsson nefnir til sögunnar í bók sinni þrjá menn, sem að öðrum ólöstuðum bera af, og við stöndum í þakkarskuld við:
Haraldur Guðmundsson (1892-1971)
Sem atvinnu- og félagsmálaráðherra í ríkisstjórn „hinna vinnandi stétta“ á kreppuárunum og frumkvöðull að grundvallarlöggjöfinni um alþýðutryggingar, 1936, verðskuldar hann nafnbótina: „Faðir íslenska velferðarríkisins“.
Héðinn Valdimarsson (1892-1948 )
Athafnamaður og verkalýðsleiðtogi. Það var hann, sem leiddi þúsundir fátæks fólks upp úr saggakjöllurum og berklaholum inn í mannsæmandi húsnæði, sem frumköðull að löggjöfinni um verkamannabústaði 1929-1935.
Vilmundur Jónsson, landlæknir (1889-1972)
Einn helsti hugmyndafræðingur okkar lýðræðis-jafnaðarmanna á öldinni sem leið og þar með hugsjónamaður um lýðheilsu og lífsgæði, sem með andlegu atgervi sínu lýsti upp samtíðina.
Stefnuskráin
En er þá ekki allt eins og best verður á kosið í þjóðfélagi allsnægtanna anno domini 2021? Ekki alveg. Hvað er að? Ég ætla að nefna örfá lykilatriði (og svo getur þú, sem lest þessi orð, bætt við frá eigin brjósti):
- Verkalýðshreyfingin er pólitískt munaðarlaus. Þótt hún sé enn öflug á vinnumarkaðnum, þegar á reynir, á hún ekki lengur samstarfsaðila á Alþingi, öflugan flokk jafnaðarmanna, sem með löggjafarstarfi fylgir eftir mannréttindabaráttu vinnandi fólks. Muniði eftir auglýsingaherferð ASÍ upp úr áramótunum? Þar sagði, að verkalýðshreyfingin hefði komið öllu því í verk, sem hinn pólitíski armur hennar, Alþýðuflokkurinn, gerði á Alþingi. Að vísu voru Alþýðuflokkurinn og ASÍ ein og sama hreyfingin fyrsta aldarfjórðunginn í tilveru sinni. Það var þá sem stóru sigrarnir unnust. Grunnurinn var lagður að velferðarríkinu.
- Það er ekki lengur svo. Því þarf að breyta. Ber er hver að baki, nema sér bróður eigi. Það þarf vald verkalýðshreyfingarinnar að baki sameinuðum jafnaðarmannaflokki til að takast á við völd fjármagnseigenda á Alþingi. Kjaftaklúbbar feminista og háskólaborgara duga ekki til þess.
- Það er búið að úthýsa ungu kynslóðinni af húsnæðismarkaðnum. Höllustaðaíhaldið í Framsókn og nýfrjálshyggjutrúboð íhaldsins rústuðu verkamannabústaðakerfinu. Það þarf að endurreisa félagslega húsnæðiskerfið, í samstarfi ríkisins, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar. Hvergi í Evrópu líðst fjárfestum í leit að skyndigróða að úthýsa almenningi með okurvöxtum og okurleigu. A.m.k. þriðjungur húsnæðisframboðs á að vera á kostnaðarverði í félagslegu kerfi. Við þurfum ekki að finna upp hjólið. Fyrirmyndirnar er að finna í flestum borgum Evrópu og hafa staðist dóm reynslunnar í næstum heila öld.
- Í stað skattahækkana ber að innheimta réttmæt auðlindagjöld fyrir nýtingu á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Það dugar til að standa undir kostnaði við að byggja upp innviði samfélagsins í heilsugæslu og samgöngum.
- Ríkið, sveitarfélögin og aðilar vinnumarkaðarins eiga að gera með sér samstarfssáttmála á vinnumarkaðnum, sem tryggir atvinnusköpun og starfsþjálfun – öllum vinnufærum höndum og hugum. Í þessu eru Danir besta fyrirmyndin.
- Kosningabaráttan framundan á að vera uppgjör við nýfrjálshyggjufaraldurinn – hina pláguna, sem herjar á okkur – með fyrirheiti um að sameina kraftana til að endurreisa á voru landi norrænt velferðarríki, sem rís undir nafni í orði og verki.
P.s. Allir frambjóðendur umbótaafla eiga að fara á námskeið, þar sem námsefnið byggir á kennslubók Kolbeins H. Stefánssonar: Eilífðarvélin: uppgjör við nýfrjálshyggjuna.
Höfundur var formaður Alþýðuflokksins 1984-96 – flokks íslenskra jafnaðarmanna.