Er þetta spurning sem við munum þurfa að velta okkur mest upp úr eftir fimm til tíu ár, eða ætlum við að að reyna að koma í veg fyrir það?
Munum við hugsanlega þurfa að kljást við viðvarandi atvinnuleysi og að unga fólkið okkar leiti til annarra landa með sína menntun í leit að störfum við hæfi?
Öll umræða í dag snýst um dægurþras og frasa og fáir virðast hafa áhuga, getu né þekkingu til að fara í stóru málin sem skipta okkur mestu máli.
Þó við séum öll upptekin af ástandinu vegna COVID-19 þá hefur það hinsvegar minnt okkur áþreifanlega á hversu einhæft atvinnulíf okkar er og hvað það er brothætt með alvarlegum afleiðingum. Fjöldaatvinnuleysi er það mesta böl sem getur komið fyrir okkar samfélag vari það lengi.
Við höfum hinsvegar sýnt það að ef við förum í verkefni með rétta sýn á það, þá getum við náð árangri. Til að ná árangri verðum við að horfa á raunveruleikann og sætta okkur við hann og leysa vandamálin út frá staðreyndum ekki óskhyggju.
Að láta sig dreyma
Það tala allir um nýsköpun og græn störf (hvaða störf það eru skilgreinir enginn).
og umræðan fer ekki lengra. Í framhaldi af þessari setningu er eins og flestir halli sér aftur áhyggjulaust eftir að hafa heyrt hana, eins og þessi fyrirtæki og störf komi eða verði til af sjálfu sér.
Staðreyndin er hinsvegar sú að sá meðaltími sem tekur að stofna nýsköpunarfyrirtæki og koma því á legg eru tíu til fimmtán ár. Undir lokin þarf mikið fjármagn og þá höfum við alltof oft séð fyrirtækin fara úr landi vegna þess að þau geta ekki dafnað á alþjóðlegum markaði með krónuna. Krónuhagkerfið okkar hindrar uppbyggingu svona fyrirtækja, öll orkan fer í fjármagnshliðina til að halda sér á floti, en ætti að fara í að þróa hugmyndina og verkefnið.
Erum við í einhverjum draumaheimi að tala um þetta svona óskilgreint eins og þessi fyrirtæki verði til af sjálfum sér án þess að við þurfum að leggja eitthvað af mörkum eða skapa umhverfi fyrir þau?
Við erum hinsvegar hugsanlega komin á þann stað að lánið bjargar okkur ekki lengur með því að eitthvað detti upp í hendurnar á okkur og auki hagvöxt og atvinnu. Flestar okkar atvinnuskapandi greinar eru fullmannaðar og störfum mun fækka í flestum þeirra.
Að horfast í augu við raunveruleikann
Að það sé ekki búið að skipa hóp sérfræðinga til að fara yfir stöðuna og greina hana, skil ég ekki. Fyrsta verkefnið væri að skilgreina hvar sóknarfærin eru og hvar og hverjar hindranirnar eru til að fjölga fyrirtækjum og atvinnuuppbyggingu inn í framtíðina. Greina þörfina á fjölgun starfa miðað við mannfjöldaspá og reyna að sjá fyrir breytingar á mönnun þeirra atvinnu-greina sem við höfum.
Hindranir og rekstrarumhverfið fyrir ný fyrirtæki til að komast af stað og verða rekstrarhæf er sennilega mest aðkallandi greiningin. Í þeim mikla hraða sem er komin í uppbyggingu og tæknivæðingu fyrirtækja með fjórðu iðnbyltingunni og því alþjóðaumhverfi sem fyrirtæki hafa til að reka starfsemi sína, þá er þetta mál sem ekki er hægt að setja í nefnd sem skilar seint og illa niðurstöðu. Við höfum ekki þann tíma.
Það er ekkert farið eftir ábendingunum þó það blasi við að ef farið yrði eftir þeim og það lagfært sem okkur er bent á gæti það aukið hagsæld okkar verulega.
Eitt af forgangsverkefnunum er að auka fjölbreytileikann, fara inn á ný svið í uppbyggingu atvinnulífsins með það að leiðarljósi að búa til verðmæt og vel launuð störf. Við þurfum líka að halda okkar gildum á lofti og aðlaga okkur og umhverfið að þeim.
Við verðum að horfast í augu við staðreyndirnar þó þær séu ekki þægilegar fyrir okkur. Hvort sem það er pólitíkin, samtök atvinnulífsins, launþegahreyfingin eða hagsmunahópar.
Þá verður þessi vinna og samtalið að hefjast ekki seinna en í gær.
Slagorð Iðnþings 2021 hjá Samtökum iðnaðarins er mjög gott. „Hlaupum hraðar.“
Spurningin er hinsvegar ætlum við að hlaupa beint áfram fram á við eða ætlum við að hlaupa í hringi og komast ekkert áfram?
Hindranir verða að víkja
Við verðu að taka á þeim hindrunum sem eru til staðar og ryðja þeim burt, það er hollt fyrir okkur að horfast í augu við veruleikann. Ýmsar spurningar koma upp í hugann sem hugsanlega eru helstu hindranirnar og hvað þarf að gera. Er það gjaldmiðillinn, erum við ekki samkeppnishæf vegna kostnaðar og lélegrar framleiðni, erum við með rangar áherslur í menntamálum, hvar mun fækkun starfa verða mest í atvinnulífinu og hvernig ætlum við að endurmennta það fólk inn í nýjar atvinnugreinar?
Þó við höfum verið ótrúlega heppin með utanaðkomandi verðmætasköpun eins og til dæmis þegar makríllinn kom, ferðaþjónustan og engin þjóð betri í vertíðarstemmingunni eins og við Íslendingar, þá getur þetta verið fallvalt. Hugsanlega er makríllinn að yfirgefa okkur, loðnan orðin happadrætti, ferðaþjónustan hugsanlega kominn í sína stærð.
Fjórða iðnbyltingin er hafin og byrjað að fækka störfum út um allt atvinnulífið eins og í sjávarútvegi. Við getum notað sjávarútveginn sem dæmi til að læra af því hvernig atvinnugrein eykur getu sína með tæknivæðingu en um leið fækkun starfa.
Ársstörfum í veiðum og vinnslu hefur fækkað úr rúmum sextánþúsund ársstörfum 1986 í rúm átta þúsund 2019.
Störfum í bankageiranum hefur og er að fækka hratt og hvernig mun þróunin verða í öðrum atvinnugreinum?
Fjórða iðnbyltingin er að koma hratt og við verðum að bregðast við. Hraðinn í breytingunum eykst bara með hverju árinu sem líður.
Okkur má ekki mistakast
Að koma okkur inn í umhverfi sem laðar að fyrirtæki og skapa nýsköpunarfyrirtækum alvöru umhverfi til að blómstra og stytta mótunartíma þeirra er forgangsverkefni.
Um leið myndi breytingin líka styrkja og efla þau fyrirtæki og þær atvinnugreinar sem við höfum.
Þó við séum að kljást við mörg vandamál í dag og mörg verkefni sem þarf að leysa þá megum við ekki gleyma okkur, við þurfum að horfa til framtíðar og byggja grunn fyrir fjölbreytt og öflugt atvinnulíf.
Velferð okkar allra stendur og fellur með því að okkur takist þetta verkefni og við horfum af raunsæi á þær hindranir sem við þurfum að ryðja úr vegi til að halda stöðu okkar sem hálaunað velferðarsamfélag. Takist okkur ekki að efla atvinnulífið er vandséð hvernig leysa á mörg af þeim kostnaðarsömu samfélagsmálum sem bíða úrlausnar.
Það er umhugsunarefni að ef maður veltir fyrir sér mörgum af þeim stóru vandamálum og verkefnum sem við stöndum frammi fyrir að leysa eða finna lausnir á, þá kemur gjaldmiðillinn íslenska krónan mjög oft upp sem hindrun eða orsakavaldur á þeim vandamálinu sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að leysa.
Ætlum við að hlaupa beinu brautina inn í framtíðina eða ætlum við að hlaupa í hringi eins og við erum búin að gera allt of lengi.
Höfundur er vélfræðingur.