Vefsíðan Er komið eldgos er komin í loftið. Vefsíðan varpar fram einni einfaldri spurningu eða staðreynd og segja má að hún sé þannig í anda vinsællar stefnu vefviðmótshönnunar sem fjallar um að notandinn þurfi helst ekkert að hugsa.
Það getur vissulega verið þægilegt að þurfa ekkert að hugsa til að fá úr því skorið hvort gos er hafið eður ei. En ef einhver skyldi freistast til að vísa í þennan vef sem heimild þá yrðu strax nokkur umhugsunarefni á vegi viðkomandi.
Hver setur þennan vef upp? Hver er ábyrgðaraðili eða höfundur? Síðan hvenær er þessi vefur og hversu líklegt er að hann sé varanlegur? Hvernig er Spotify-lagalistinn hluti af heimildinni og þarf að geta hans?
Til að geta vísað í þennan vef sem heimild þarf viðkomandi að vera vel upplýsingalæs og þekkja í sundur hluta þeirrar heildar sem annars blasir við okkur í öllum sínum einfaldleika á slóðinni erkomideldgos.is.
Þetta er eitt einfalt og nærtækt dæmi um hvernig upplýsingalæsi er hluti af lífi fólks sem notar allskyns útgáfu og miðla daglega.
Nemendur á öllum skólastigum eru þjálfaðir í upplýsingalæsi með ólíkum hætti á leið sinni í gegnum menntakerfið. Fyrst í gegnum ýmis verkefni á bókasafni á grunnskólastiginu, þá fer fram þjálfun í gagnrýninni hugsun á framhaldsskólastiginu t.d. með heimildaritgerðum. Þar er lagður grunnur að skilningi á rit- og hugverkastuldi og nemendur þjálfaðir í að meta áreiðanleika heimilda með fræðslu frá bókasafni.
Loks sækja nemendur á öllum stigum háskólamenntunar sér hjálp og aðstoð upplýsingafræðinga háskólabókasafna við ýmis verkefnaskil. Þar er unnið ofan á grunn fyrri skólastiga með enn gagnrýnna upplýsingalæsi og þjálfun í akademískum vinnubrögðum sem m.a. krefja nemendur um að virða, án undantekninga, höfunda- og hugverkarétt annarra. Í heimi þar sem falsvísindi og -fréttir eru daglegt brauð er enda ekki vanþörf á.
Upplýsingalæsi er ekki aðeins hluti af kjarnastarfsemi bókasafna á öllum skólastigum heldur styðja skólabókasöfn með þessum hætti beint og óbeint við siðferðisþroska þjóðarinnar, þvert á stéttir, stað og stund.
Í vikunni birtist atvinnuauglýsing um verkefnisstjóra fjölmiðlanefndar sem vakti furðu upplýsingafræðinga sem starfa margir við upplýsingalæsiskennslu í menntakerfinu, þvert á öll skólastig frá grunnskóla. Vegir Fjölmiðlanefndar og bókasafna hafa nefnilega aldrei legið saman en í auglýsingunni er því lýst hvernig Fjölmiðlanefnd á að móta stefnu og sjá um framkvæmd upplýsingalæsiskennslu í landinu.
Þýðir þetta að bókasöfn í landinu muni lúta stefnu Fjölmiðlanefndar þegar kemur að kennslu í upplýsingalæsi á ólíkum skólastigum?
Fjölmiðlanefnd hefur, samkvæmt heimasíðu sinni vissulega það verkefni að efla fjölmiðlalæsi þjóðarinnar og má ætla að fyrirhugaður starfsmaður Fjölmiðlanefndar í stefnumótun um upplýsingalæsi sé sprottinn úr þeim verkefnajarðvegi.
En fjölmiðlalæsi er aðeins einn hluti af regnhlífarhugtakinu upplýsingalæsi, sem tekur einnig til upplýsingamiðlunar sem varðar t.a.m. menntun, heilbrigði og almenn borgaraleg réttindi okkar. Slík upplýsingamiðlun fer sjaldnast einvörðungu fram í gegn um fjölmiðla, heldur finnur sér fjölbreyttan farveg í ýmsum efnisformum og persónulegri upplýsingamiðlun.
Því verður að setja spurningarmerki við að nefnd sem hefur fyrst og fremst það hlutverk að sinna eftirliti með starfsemi og rekstri hérlendra fjölmiðla skuli nú eiga að taka að sér verkefni sem nær yfir mun stærra leiksvið en einvörðungu fjölmiðla eins og lesa má úr auglýsingunni. Mun stefna Fjölmiðlanefndar varðandi upplýsingalæsi hafa burði til að taka tillit til fjölbreytileika upplýsingaumhverfis nútímans?
Ef við vissum ekki betur mætti skilja það svo að þessi óráðni verkefnisstjóri væri nú þegar hluti af öflugum hópi upplýsingafræðinga sem starfa vítt og breitt um landið á skólabókasöfnum.
Því spyrjum við hversu einfalt er það að halda áfram að láta skólabókasöfn leiða og þróa kennslu í upplýsingalæsi sem tekur mið af því nýjasta á alþjóðavettvangi? Upplýsingafræðingar hafa mikla þekkingu á upplýsingalæsi og sækja árlega ráðstefnur, sitja í alþjóðlegum og innlendum vinnuhópum og nefndum og hafa þróað kennslu í upplýsingalæsi um árabil. Það er þekking sem erfitt er að skáka með ráðningu eins verkefnisstjóra.
Upplýsingafræðingar fagna því eflaust allir sem einn að efla eigi upplýsingalæsi þjóðarinnar. En það er erfitt að skilja hvernig verkefnisstjóri Fjölmiðlanefndar á að taka yfir starfsemi og ábyrgð sem er nú þegar nú þegar er sinnt af háskólamenntuðum upplýsingafræðingum sem starfa í grunn-, framhalds- og háskólum landsins.
Sara Stef. Hildardóttir, forstöðukona bókasafns Háskólans í Reykjavík
Þórný Hlynsdóttir, forstöðukona bókasafns Háskólans á Bifröst
Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar, formaður SBU Stéttarfélags Bókasafns- og upplýsingafræðinga
Hallfríður Hrönn Kristjánsdóttir, upplýsingafræðingur
Vigdís Þormóðsdóttir, upplýsingafræðingur