Athygli vakti að einungis Miðflokkurinn og Flokkur fólksins svöruðu þeirri spurningu hvort banna ætti olíuleit við Ísland neitandi í kosningaþætti RÚV þar sem fulltrúar flokkanna gátu annaðhvort svarað með já-i eða nei-i.
Svarið hefur staðið í sumum stjórnmálaflokkum og í vor hafnaði meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis frumvarpi Andrésar Inga Jónssonar o.fl. sem fól í sér bann við leit og vinnslu olíu og gass innan 200 mílna efnahagslögsögu landsins. Formaður nefndarinnar og oddviti meirihlutans, Lilja Rafney Magnúsdóttir, sagði m.a. á Alþingi 12. júní:
„Meiri hlutinn telur betur fara á því, ef vilji er til að setja bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis, að málið verði skoðað heildstætt ...“
Skoðum málið heildstætt
Á Parísarráðstefnunni 2015 var Ísland eitt þeirra ríkja sem studdu kröfu um að takmarka yrði hækkun hitastigs Jarðar við 1,5°C. Sú krafa nýtur nú stuðnings flestra aðildarríkja Parísarsamningsins. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var afdráttarlaus í skýrslu sinni frá 2018 um að Jörðin verður fyrir óafturkræfum skaða ef hnattræn hlýnun fer yfir 1,5°.
Allt frá því að Parísarráðstefnunni lauk hefur stefna Íslands verið að takmarka beri hækkun hitastigs við 1,5°. Leit eftir olíu og gasi á Drekasvæðinu gengur þvert á markmið Parísarsamningsins.
Alþjóðlegur samningur um bann við frekari leit og námuvinnslu
Yfir 400 samtök styðja nú kröfuna um bann við frekari leit og nýtingu jarðefnaeldsneytis, olíu, kola og gass, enda gengur þetta þvert á tilgang og markmið Parísarsamningsins. Í aðdraganda loftslagsráðstefnu sem haldin var að frumkvæði Joes Bidens forseta Bandaríkjanna í apríl gáfu yfir 100 Nóbelsverðlaunahafar út yfirlýsingu og skoruðu á leiðtoga heims að halda jarðefnaeldsneyti neðanjarðar. Yfirlýsingin var einnig undirrituð af samtökum sem kalla sig Fossil Fuel Non-Proliferation Treaty. Upphaf nafnsins, „Non-proliferation …“ vísar til Samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við útbreiðslu kjarnavopna, Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons (NPT).
Þessi krafa fær einnig stuðning í skýrslu Alþjóðaorkumála-stofnunarinnar (IEA) sem segir að ekki megi fjárfesta frekar í nýjum, olíu-, gas- eða kolanámum ef takast á að halda hækkun hitastigs andrúmsloftsins við 1,5°C.
Í fréttatilkynningu IEA, dags. 18. maí sl. 2021 segir að til að ná markmiði Parísarsamningsins - að takmarka hækkun hitastigs við 1,5°C - verði strax að hætta við allar fjárfestingar í mengandi orkugjöfum, olíu, kolum og gasi.
Þetta má kalla heildstætt mat
Að loknum kosningum verður ný ríkisstjórn að vinda bráðan bug að því að ganga til liðs við þau samtök sem vilja banna frekari leit eftir jarðefnaeldsneyti, olíu, gasi eða kolum.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.